Edinborg

edinborg stor
  • Almennt
  • Sjá og gera
  • Matur og drykkur
  • Gagnlegt
  • Hótel

Almennt

Höfuðborg Skota er falleg, skemmtileg og frekar ódýr. Hún er kjörinn áfangastaður fyrir þá sem vilja komast í stutta borgarferð því þar er margt að sjá, vegalengdirnar stuttar og búðirnir fínar og nóg af skemmtilegum börum, kaffihúsum og veitingastöðum. Skotar eru líka sérstaklega skemmtilegir og kannski styttist í að þeir verði frændur okkar því marga dreymir um að landið verði sjálfstætt og í framhaldinu er víst planið að sækja um aðild að Norðurlandaráði.

Edinborg var nýlega valinn áfangastaður ársins í Evrópu og var það ekki síst verðlagið sem hitti í mark hjá dómnefndinni.

easyJet flýgur beint til Edinborgar allt árið um kring en WOW air frá júlí og fram til haustloka.

Mynd: Visit Scotland

Sjá og gera

Kastalinn

Edinborgarkastali er helsta kennileiti borgarinnar og laðar til sín fjölda ferðamanna. Það eru því margir á ferðinni innan veggja hans og . Það er samt þess virði að fara inn fyrir múrana og virða fyrir sér byggingarnar sem tilheyra þessum mikilfenglega kastala og horfa yfir borgina.
Edinborgarkastali er opinn frá kl. 9:30-18, apríl til september, en til kl.17 október til mars. Miðasalan lokar klukkutíma fyrr. Það kostar 16 pund (um 2900 kr.) inn fyrir fullorðna og 5 til 15 ára borga 9,6 pund (um 1700 kr.).

Holyroodhouse – bústaður drottningarinnar í höfuðborginni

Slottið hennar Elísabetu annarrar í Skotlandi er opið almenningi nema þegar drottningin flytur inn yfir hásumarið. Gestir geta gengið um garðinn og fyrstu hæð hallarinnar og virt fyrir sér sali og svefnherbergi sem notuð eru í dag fyrir alls kyns athafnir. Hér var Sean Connery aðlaður og skoska þingið kom hér saman til fyrsta fundar eftir endurreisn. Hljóðleiðsögn fylgir með miðana og er lykillinn að fróðlegri heimsókn í þessa fínu höll.
Holyroodhouse er opnar klukkan hálftíu á morgnana og er opið fram á seinnipartinn. Höllin er þó lokuð almenningi af og til (sjá nánar á heimasíðunni). Það kostar 11 pund inn (um 2000kr.) en 5 til 17 ára borga 6,65 pund (um 1200 kr.).

Calton Hill

Í upphafi átjándu aldar var þessari hæð við enda Princes Street breytt í almenningsgarð. Einn af þeim fyrstu í Bretlandi. Útsýnið ofan að hæðinni er frábært, bæði yfir gamla og nýja bæinn og út að ströndinni. Á Calton Hill eru líka nokkur merk mannvirki, þeirra þekktast er National Monument sem reist var 1822 til minningar um þá sem féllu baráttunni við heri Napóleons nokkrum árum áður. Ekki tókst að ljúka verkinu og minnismerkið hefur því staðið hálfklárað á toppi hæðarinnar í nærri tvær aldir.
– Göngustígar liggja upp á hæðina frá frá Princes Street.

Þinghúsið

Skotar fengu sitt eigið þing um aldarmótin en haustið 2004 var nýja þinghúsið tekið í gagnið. Það er beint á móti Holyroodhouse höllinni og því kjörið að heimsækja báðar þessar byggingar í einu. Gestum þingsins er boðið að setjast inn á þingpalla og hlusta á umræður og fá leiðsögn um húsið. Það fer eftir dögum hvort möguleikinn er fyrir hendi. Það tekur ekki langan tíma að fara inn í húsið og því þess virði að koma við, fyrir eða eftir heimsókn í Hollyroodhouse.
Þinghúsið er opið almenningi alla daga nema sunnudaga. Húsið opnar klukkan tíu og það kostar ekkert inn. Sá sem vill vera alveg viss um að komast inn á þingpallana ætti að panta miða hér.

Ríkislistasafnið

Við rætur kastalahæðarinnar er Ríkislistasafnið til húsa. Í fremri byggingunni er breytt um sýningar reglulega og þar þarf að borga inn. Fyrir aftan er svo aðalsafnið og þar kostar ekkert inn. Til sýnis eru söguleg verk fyrir Skotland og Edinborg en líka nokkur eftir þekktustu heimsþekkta listamenn. Sýning á blekverkum er eiginlega senuþjófurinn á þessu stóra safni.
National Gallery of Scotland, The mound, er opið frá kl.10 til 17 en á fimmtudögum er opið til kl. 19.

Nýlistasafnið og Dean Museum

Byggðin í miðborg Edinborgar er mjög þétt en í útjaðri Nýja bæjarins er stórt grænt svæði og þar standa tvö söfn sem sinna nýlistinni. Það fyrra er National Museum of Modern Art og Dean Museum er hinum megin við götuna. Dean er frammúrstefnulegt en hitt öllu hefðbundnara. Frítt inn á bæði en þó þarf að borga inn á aðalsýningu NMFMA og opna sýningin er frekar lítil. Það er þó notalegt að komast út á þetta græna svæði og það ganga strætóar frá Ríkislistasafninu við Princes Street (The Mound).

Matur og drykkur

The Dogs

Það er hátt til lofts á annarri hæð þessa látlausa en vinsæla veitingastaðar í New Town. Verðlagið er nokkuð hóflegt því aðalréttirnir eru á 9 til 15 (um 2700 krónur) pund. Valið stendur m.a. á milli kanínu, uxahala og nokkurra fiskrétta. Fiskbaka hússins er til að mynda ljómandi góð. Staðurinn er fastur punktur í ferðahandbókum Michelin yfir góðu matsölustaði í ódýrari kantinum.
The Dogs, Hannover Street 101. Opið frá kl. 11:30 til 23 alla daga.

Queens Arms – huggulegur pöbb

Þessi kjallarakrá var víst aldræmd fyrir nokkrum árum síðan. Nýir eigendur tóku hins vegar til hendinni og tóku innréttingarnar í gegn án þess þó að færa staðinn nær nútimanum. Queens Arms er því alvöru breskur pöbb þar sem boðið er upp á ljómandi kaffihúsamat. Fish and chips staðarins er feikigott enda er fiskurinn ávallt nýr og feitið í pottanum sömuleiðis. Brasbragðið sem stundum vill eyðileggja þennan rétt er því víðsfjarri. Aðalréttir á um 1700 krónur (9 pund).
Queens Arms, 49 Frederik Street. Opið alla daga fram á kvöld.

Brew lab – besta kaffihúsið í gamla bænum

Kaffi er dauðans alvara á þessum nýlega kaffibar steinsnar frá Edinborgarkastala. Sætabrauðið er líka ljómandi gott og netsambandið er frítt. Það er því engin ástæða til að sætta sig við vont kaffi annars staðar út á frítt net.
Brew lab, 6 South College Street.

Outsider

Í gamla bænum er ógrynni af veitingastöðum sem eru fullir af ferðamönnum sem ólíklega eiga eftir að koma þangað aftur. Það er því ekki víst að metnaðurinn sé svo mikill í eldhúsinu. The Outsider er smá spöl frá The Royal Mile götunni, sem liggur frá kastalanum, og er góður kostur í hádeginu sem og á kvöldin. Fiskréttir dagsins eru nokkuð óhefðbundnir, t.d. fékk útsendari Túrista fisk í bjórsósu sem bragðaðist mjög vel.
– The Outsider, 15 George IV Bridge

Kays Bar

Fraser Gillespie hefur staðið vaktina á þessari huggulegu krá lengi. Fraser hefur gaman að því að segja fólki frá þessari sögufrægu krá, hverfinu og ekki síst ölin sem hann pumpar í glösin. Kays Bar er  smá spöl frá helstu ferðamannaslóðum skosku höfuðborgarinnar en þeir sem vilja heimsækja huggulegan hverfispöbb verða ekki fyrir vonbrigðum. Í hádeginu er boðið upp á hádegismat á Kay´s Bar og Fraser segist mæla sérstaklega með Haggis í hádegismat.
– Kay´s Bar, 39 Jamaica Street.

Urban Angels

Það er viðeigandi að borða Haggis (blóðmör) með morgunmatnum að hætti Skota þegar dvalið er í Edinborg. Þeir sem vilja fara aðeins fínna í málin ættu að kíkja í kjallarann hjá Urban Angels og fá sér Egg Benedict með skoskum laxi. Kaffið er líka gott hér sem og heimabakaða límónutertan.
-Urban Angels, Hannover Street 121.

Gagnlegt

Til og frá flugvellinum

Tveggja hæða rútur merktar Airlink ganga jafnt og þétt milli flugvallarins og miðborgarinnar. Það eru nokkrar stoppistöðvar á leiðinni og þeir sem eru með gistingu í Nýja bænum gætu sparað sér tíma með því að fara út áður en rútan kemur að lokastoppinu við miðja Princes Street. Það kostar 6 pund ef báðar ferðir eru bókaðar. Ferðin tekur um hálftíma og það er frítt net um borð í rútunum.

Þjórfé

Það er nóg að bæta 10% við reikningin á veitingastöðum og leigubílum.

Vatnið

Kranavatnið er drekkanlegt.

Verslanir

Stór vöruhús og verslanir eru við Princes Street, aðalverslunargötuna, George Street og Queen Street. Í gamla bænum á kastalahæðinni eru líka verslanir er langflestar gera þær út á minjagripi, tartan föt og viskí. Vöruhús Harvey Nichols er við 30-34 St Andrew Square.

Almenningssamgöngur

Ef ferðinni er ekki heitið út fyrir miðborgina þá er allt í göngufæri. Annars ganga strætóar um alla borg. Þeir sem vilja kanna hafnarhverfið í Leith ættu að taka strætó við lestarstöðina í átt niður Leith Road.

Hótel

Það má segja að Princes Street, aðalverslunargata borgarinnar, marki skilin á milli gamla bæjarins (Old Town) og þess nýja (New Town). Og þar sem helstu ferðamannastaðirnir eru í þessum tveimur borgarhlutum er kostur að vera nálægt Princes Street. Á kastalahæðinni (Old Town) eru líka vinsæl ferðamannahótel í öllum verðflokkum og í nýja bænum má finna þó nokkuð af minni gistihúsum (Bed and breakfast) sem bjóða upp alls kyns gistingu, allt frá mjög einfaldri og upp í mesta lúxus.

Með því að nota leitarvélina hér að neðan þá geturðu fundið hagstæð verð á gistingu í Edinborg.

Bílaleiga