The Dogs
Það er hátt til lofts á annarri hæð þessa látlausa en vinsæla veitingastaðar í New Town. Verðlagið er nokkuð hóflegt því aðalréttirnir eru á 9 til 15 (um 2700 krónur) pund. Valið stendur m.a. á milli kanínu, uxahala og nokkurra fiskrétta. Fiskbaka hússins er til að mynda ljómandi góð. Staðurinn er fastur punktur í ferðahandbókum Michelin yfir góðu matsölustaði í ódýrari kantinum.
– The Dogs, Hannover Street 101. Opið frá kl. 11:30 til 23 alla daga.
Queens Arms – huggulegur pöbb
Þessi kjallarakrá var víst aldræmd fyrir nokkrum árum síðan. Nýir eigendur tóku hins vegar til hendinni og tóku innréttingarnar í gegn án þess þó að færa staðinn nær nútimanum. Queens Arms er því alvöru breskur pöbb þar sem boðið er upp á ljómandi kaffihúsamat. Fish and chips staðarins er feikigott enda er fiskurinn ávallt nýr og feitið í pottanum sömuleiðis. Brasbragðið sem stundum vill eyðileggja þennan rétt er því víðsfjarri. Aðalréttir á um 1700 krónur (9 pund).
– Queens Arms, 49 Frederik Street. Opið alla daga fram á kvöld.
Brew lab – besta kaffihúsið í gamla bænum
Kaffi er dauðans alvara á þessum nýlega kaffibar steinsnar frá Edinborgarkastala. Sætabrauðið er líka ljómandi gott og netsambandið er frítt. Það er því engin ástæða til að sætta sig við vont kaffi annars staðar út á frítt net.
– Brew lab, 6 South College Street.
Outsider
Í gamla bænum er ógrynni af veitingastöðum sem eru fullir af ferðamönnum sem ólíklega eiga eftir að koma þangað aftur. Það er því ekki víst að metnaðurinn sé svo mikill í eldhúsinu. The Outsider er smá spöl frá The Royal Mile götunni, sem liggur frá kastalanum, og er góður kostur í hádeginu sem og á kvöldin. Fiskréttir dagsins eru nokkuð óhefðbundnir, t.d. fékk útsendari Túrista fisk í bjórsósu sem bragðaðist mjög vel.
– The Outsider, 15 George IV Bridge
Kays Bar
Fraser Gillespie hefur staðið vaktina á þessari huggulegu krá lengi. Fraser hefur gaman að því að segja fólki frá þessari sögufrægu krá, hverfinu og ekki síst ölin sem hann pumpar í glösin. Kays Bar er smá spöl frá helstu ferðamannaslóðum skosku höfuðborgarinnar en þeir sem vilja heimsækja huggulegan hverfispöbb verða ekki fyrir vonbrigðum. Í hádeginu er boðið upp á hádegismat á Kay´s Bar og Fraser segist mæla sérstaklega með Haggis í hádegismat.
– Kay´s Bar, 39 Jamaica Street.
Urban Angels
Það er viðeigandi að borða Haggis (blóðmör) með morgunmatnum að hætti Skota þegar dvalið er í Edinborg. Þeir sem vilja fara aðeins fínna í málin ættu að kíkja í kjallarann hjá Urban Angels og fá sér Egg Benedict með skoskum laxi. Kaffið er líka gott hér sem og heimabakaða límónutertan.
-Urban Angels, Hannover Street 121.