Flogið í skíðabrekkurnar


Edmonton

Það getur orðið kalt í Alberta fylki og vetraríþróttir eru í hávegum hafðar á þessum slóðum. Icelandair flýgur nokkrar ferðir í viku til Edmonton og innan borgarmarkanna má finna lítið skíðasvæði við Ski Valley. Þar er líka aðstaða fyrir þá sem vilja á skauta eða gönguskíði. Þeir sem ætla að dvelja á stórum skíðasvæðum hafa úr nægu að velja ef þeir eru til í að keyra í þrjá til sjö tíma. Ferðinni er þá oftast heitið í suður í átt til ólympíuborgarinnar Calgary. Þar í grennd eru nokkur svæði, til dæmis Lake Louise þar sem brettalandslið Kanada hefur æft og Kimberley Alpine Resort þar sem finna má lengstu upplýstu skíðaleið í N-Ameríku. Bílaleigubíll í viku kostar um 30 þúsund krónur.

 

Genf

easyJet flýgur frá Keflavík til Genfar á mánudögum og föstudögum í allan vetur. Lestarferðin frá flugvellinum inn á aðallestarstöðina í Genf tekur aðeins nokkrar mínútur og er ókeypis. Frá Genf er hægt að komast til fjölda svissneskra og franskra skíðasvæða á nokkrum tímum. Eins má bóka lestir og skíðapassa saman á Swisspasses.com og þar eru stundum veittir ágætis afslættir. Þeir sem vilja heldur leigja bíla mega reikna með að vikuleiga í janúar kosti á bilinu 30 til 35 þúsund krónur.

Munchen

Frá Bæjaralandi er ekki ýkja langt í ljómandi skíðasvæði. Icelandair flýgur til Munchen nokkrum sinnum í viku allt árið um kring sem hentar vel þeim sem vilja fara í stutta skíðaferð. Hægt er að komast á skíðin með almenningssamgöngum en vikuleiga á bíl kostar tæplega þrjátíu þúsund krónur og skíðagrind kostar um 1800 krónur á dag. Farþegar Icelandair borga 7.800 krónur fyrir að taka með sér skíðabúnað.

Salzburg

Frá miðjum desember og fram til loka febrúar munu vélar WOW air lenda á Mozart flugvellinum í Salzburg um kaffileytið á laugardögum. Það tekur um fimmtán mínútur að komast frá flugstöðinni niður á aðallestarstöð Salzburg og þaðan ganga svo lestir í allar áttir. Fjöldi skíðasvæða er í eins til þriggja tíma fjarlægð frá Salsburg. Til skíðasvæðisins í Zell Am See tekur lestarferðin til að mynda um tvo tíma og kostar um þrjú þúsund krónur. Þeir sem leigja minnstu tegund af bíl borga rúmar 30 þúsund krónur fyrir en skíðagrind kostar aukalega um 2.600 krónur á dag.

Auk þessara flugleiða þá mun ferðaskrifstofan Vita vera með vikulegar ferðir til Verona í norðurhluta Ítalíu í vetur og hægt er að bóka aðeins flugsæti. Á heimasíðum margra ferðaskrifstofa er svo að finna úrval af pakkaferðum á skíðastaði út í heimi og þeir sem kaupa þess háttar þurfa sjaldnast að huga að ferðum til og frá flugvelli.

SMELLTU HÉR TIL AÐ GERA VERÐSAMANBURÐ Á SKÍÐAHÓTELUM

TENGDAR GREINAR: Vegvísir GenfSjarmatröllið í Denver sem Starbucks á ekkert í