Heathrow ekki lengur vinsælastur fyrir Íslandsflug

Hingað til hefur meirihluti þeirra sem flýgur frá Keflavík til London lent á Heathrow flugvelli. Í ár hefur hins vegar orðið breyting á og forsvarsmenn Gatwick fagna því.

Hingað til hefur meirihluti þeirra sem flýgur frá Keflavík til London lent á Heathrow flugvelli. Í ár hefur hins vegar orðið breyting á og forsvarsmenn Gatwick fagna því.

Um langt árabil hefur Icelandair farið tvær ferðir á dag milli Keflavíkurflugvallar og Heathrow í London og árlega nýta um tvö hundruð þúsund farþegar sé þessa þjónustu samkvæmt tölum Flugmálastjórnar Bretlands.

Árin 2010 og 2011 lét nærri að tveir af hverjum þremur farþegum á leið milli Íslands og London færu um Heathrow en árið 2012 breyttist hlutfallið nokkuð þegar easyJet hóf áætlunarflug til Luton flugvallar og Icelandair bætti við ferðum til Gatwick. En WOW air hefur einnig nýtt sér þann flugvöll frá því í sumarbyrjun árið 2012.

Heathrow hefur, þrátt fyrir tvöföldun á framboði á flugi til London, verið vinsælasti flugvöllurinn þar í borg þegar kemur að flugi til og frá Íslandi. Í fyrra fóru 212 þúsund farþegar milli Heathrow og Keflavíkurflugvallar, tæplega 189 þúsund flugu til og frá Gatwick og tæplega 60 þúsund nýttu sér Luton-flugvöll.

Breytingar í ár

Í dag er Heathrow hins vegar ekki lengur vinsælasti flugvöllurinn fyrir Íslandsflug frá höfuðborg Bretlands. Fyrstu fimm mánuði þessa árs hafa nefnilega nærri 96 þúsund farþegar á leið til og frá Íslandi nýtt Gatwick flugvöll eða níu þúsund fleiri en hafa flogið um Heathrow. Til samanburðar má geta að allt árið 2012 flugu aðeins rúmlega 89 þúsund farþegar milli Gatwick og Keflavíkur. Matt Wood, forstöðumaður flugmála á Gatwick flugvelli, segir í samtali við Túrista að þessi mikla aukningin í fjölda farþega til Íslands séu góðar fréttir og sanni að samkeppni milli flugvalla skili sér til neytenda. „Þetta sýnir líka að okkur á Gatwick er að takast að ná því markmiði að fjölga ferðum til vinsælla áfangastaða eins og Íslands, bæði fyrir viðskiptaferðalanga og aðra farþega. Ef við fáum leyfi til að bæta við annarri flugbraut þá munum við geta aukið enn frekar framboðið á ódýrum ferðum til Íslands“, bætir Matt Wood við.

Í lok október byrjar easyJet einnig að fljúga til Gatwick og þá bjóða þrjú flugfélög upp á ferðir til flugvallarins frá Keflavík. Norska lágfargjaldaflugfélagið Norwegian hefur einnig fengið úthlutaða afgreiðslutíma fyrir flug héðan til Gatwick.

TENGDAR GREINAR: Miklu betir matarlykt á Gatwick
HÓTEL: Gerðu verðsamanburð á gistingu í London