Frankfurt

  • Almennt
  • Sjá og gera
  • Matur og drykkur
  • Gagnlegt
  • Hótel
  • Bílaleiga

Almennt

Fjármálamiðstöð Þýskalands er ekki öll þar sem hún er séð. Borgin býður nefnilega upp á miklu meira en bara háhýsi og kontorista. Í Sachsenhausen er til að mynda notaleg hverfisstemning, gamli bærinn er sjarmerandi, söfnin eru mörg hver í heimsklassa og þar er nóg af búðum. Reyndar eru þær í Goethestrasse ekki á færi venjulegra launamanna en engu að síður forvitnilegar.

Íbúar borgarinnar koma frá öllum heimsins hornum sem endurspeglast í góðu úrvali af alls kyns matsölustöðum og fjölbreyttum menningarviðburðum.

Icelandair flýgur ti Frankfurt allt árið og hótelin í borginni slá mörg hver af verðinum um helgar. Frankfurt er því kjörinn áfangastaður fyrir þá sem vilja komast í helgarferð til borgar þar sem hefur upp á ýmislegt að bjóða en þar sem stutt er í allar áttir.

Frankfurt er líka góður upphafsreitur fyrir þá sem vilja ferðast um vesturhluta Þýskalands því í nágrenni borgarinnar er marga þekkta staði að finna, t.d. Heidelberg og Wiesbaden.

LESTU LÍKA: 2 DAGAR Í FRANKFURTÞRJÁR RAUÐAR KNÆPUR

Mynd: Holger Ullmann/Frankfurt Tourismus+Congres

Sjá og gera

Main turninn

Lyftan upp á útsýnispall Main turnsins nær 80 kílómetra hraða á leið sinni upp hin tvö hundruð metra löngu lyftugöng skýjakljúfsins sem kenndur er við fljótið Main. Frá toppnum er ljómandi útsýni til allra átta og því kjörið að gera sér ferð þangað til að átta sig betur á staðarháttum og virða hin háhýsin fyrir sér. Það getur myndast röð við lyftuna en þetta gengur oftast hratt fyrir sig. Það kostar 5 evrur inn en ókeypis fyrir yngri en sex ára. Einnig er hægt að kaupa fjölskyldumiða.
Main Tower, Neue Mainzer Straße 52 – 58. Opið frá 10 á morgnana og fram til níu á kvöld en til kl. 23 föstudaga og laugardaga. Á veturna lokar tveimur tímum fyrr.

Städel safnið

Við bakka Main standa nokkur söfn hlið við hlið og þeirra merkilegast er Städel safnið sem var valið safn ársins í Evrópu árið 2012. Safnið hefur að geyma mikið úrval málverka frá síðustu öldum og það getur því tekið töluverðan tíma að fara í gegnum þetta allt saman. En það er líka auðvelt að velja úr því safninu er skipt upp í þrjá hluta. Sá nýjasti hefur að geyma verk frá síðustu öld og er í nýrri viðbygginu safnsins. Á Städel eru ekki aðeins til sýnis dýrgripir hússins því þar er einnig efnt til sérsýninga allt árið um kring. Það kostar 12 til 14 evrur inn (fer eftir degi vikunnar).
Städel, Schaumainkai 63. Opið frá 10 á morgnana og opið til kl. 18 en til 21 á miðvikudögum og fimmtudögum.

Römerberg – miðpunkturinn

Það er ekki óalgengt að sjá nýgift fólk stilla sér upp á Römerberg torginu. Þar er nefnilega ráðhúsið og margir kjósa að láta gefa sig saman þar. Ekki skemmir heldur fyrir að það er leit að fallegri bakgrunni fyrir myndirnar því skökku bindiverkshúsin, sem einkenna torgið, eru augnayndi. Þó byggingarnar líti út fyrir að vera margra alda gömul þá eru þau í raun eftirlíkingar því hér var allt í rúst eftir seinna stríð. Miðpunktur jólamarkaðarins í Frankfurt er líka við Römerberg.
Sjá Römerberg á korti.

Fljótasigling

Það ganga alls kyns bátar eftir Main fljótinu og ferðamönnum gefst færi á hoppa um borð og virða fyrir sér borgina frá vatninu. Hægt er að velja um siglingar sem taka 50 (8,4 evrur) eða 100 mínútur (10,4). Sjá ítarlegar upplýsingar um bryggjurnar og túrana á heimasíðu ferðamálaráðs Frankfurt.

Safnastígurinn og Goethe

Þó Städel safnið sé kannski virtasta safnið í Frankfurt þá eru nokkur önnur sem verðskulda athygli. Svo heppilega vill til að nokkur þeirra eru í húsunum við hliðina á Städel, við árbakka Main fljótsins. Arkitektasafnið fær víða góð meðmæli og grísku og rómversku stytturnar í Liebieghaus eru áhugaverðar. Kvikmyndasafnið líka og þeir sem hafa gaman kynna sér þróun símtækja, póstþjónustunnar og sjónvarpsins ættu að líta við á Kommunikation safnið. Meðal annarra safna má nefna nýlistasafnið og Goethe safnið. En æskuheimili eins þekktasta sonar borgarinnar hefur verið breytt í safn um líf hans og skáldverk.

Matur og drykkur

Matur

Wagner – sígildur heimamatur

Eplavín og græn kryddsósa spila stóra rullu á veitingastöðum sem sérhæfa sig í klassískri Frankfurt-matargerð. Wagner er akkúrat staðurinn til að prófa þessa tvennu. Þar sitja heimamenn og ferðamenn hlið við hlið á bekkjum við löng borð og borða vel steikt kjöt eða fisk í raspi með grænni sósu og herlegheitunum svo skolað niður með eplavíni. Það er góð stemmning á þessum stað sem lítur örlítið út fyrir að vera ferðamannagildra. Hann er það hins vegar ekki enda aðeins fyrir utan miðbæinn. Það gæti borgað sig að panta borð (smellið hér).
Wagner, Schweizerstrasse 71 (í Sachsenhausen). Opið frá 11 til miðnættis alla daga.

Die Kleinmarkthalle – borðað í búrinu

Það mætir þér mikil og góð matarlykt þegar komið er inn fyrir rennihurðina á helsta matarmarkaði Frankfurtar. Hér geta borgarbúar keypt sér ferskt grænmeti og ávexti, alls kyns kjöt og sjávardýr en líka krydd, hnetur, olíur og allt annað sem þarf til búa til góða mat. Á mörgum básum er einnig hægt að fá tilbúna smárétti til að borða á staðnum og Kleinmmarkthalle er því ekki galinn áfangastaður fyrir svanga ferðamenn í leit að hádegismat eða millimáltíð.

Pylsustandurinn Schreiber er sá vinsælasti í húsinu og þar er alla jafna röð þrátt fyrir að matseðillinn gæti vart ekki verið einfaldari. Schreiber selur nefnilega aðeins þykka pylsustubba með sætu sinnepi og brauði. Meira er það ekki og kostar plattinn 1,6 evrur (um 250 kr.). Túristi mælir frekar með svínastubbnum en þeim sem er búinn til úr nautakjöti. Þessi millimáltíð er meira fyrir gamanið.
Die Kleinmarkthalle, Hasengasse 5 (ekki langt frá Berlinerstrasse). Opið virka daga frá 8 til 18 en til kl. 16 á laugardögum.

M-Steakhouse – Amerískar nautasteikur

Ef bandarísk nautasteik er það sem þú vilt þá er M-Steakhouse staðurinn. Í notalegum kjallara í kyrrlátri íbúðagötu í miðbænum er þetta vinsæla steikhús til húsa. Hér er nautið steikt eftir bandarískum reglum og gestirnir panta sér meðlæti aukalega (2 til 8 evrur). Ódýrustu nautabitarnir eru á um 34 evrur og Porterhouse kostar 50 evrur (ef tveir panta). Ef þig langar ekki í steik þá lofar kokkurinn að búa til „Mutter“ allra ostborgara fyrir 19 evrur.  BBQ sósa hússins er eiginlega eini mínusinn við þennan stað en það er hægt að panta aðrar sósur með bolanum.
M-Steakhouse, Feuerbachstraße 11a. Opið frá kl. 12 til 15 virka daga og frá 18 til miðnættis mánudaga til laugardaga.

Urban Kitchen – Allskonar fyrir alla

Samferðafólk er ekki alltaf samstíga. Ef þið getið ekki komið ykkur saman um hvernig mat á að borða er Urban Kitchen góður kostur því matseðillinn byggir á því vinsælasta frá Evrópu, Asíu og N-Ameríku. Svona fjölbreytni býður hættunni heim en matreiðslumönnum Urban Kitchen tekst vel upp á öllum sviðum og nýtur staðurinn mikilla vinsælda. Í hádeginu fylla kontoristar úr háhýsunum sætin og því er betra að koma eftir klukkan tvö og svo á kvöldin. Bar staðarins er líka vinsæll og þar má fá snarl og drykki.
Urban Kitchen, Börsenstrasse 14.

Ivory Club – Óríental matur

Dyraverðir staðarins eru klæddir eins og klassískir pikkalóar og taka á móti gestunum með virktum. Innandyra er bekkurinn alla jafna þétt setinn enda er austurlenski maturinn hér vinsæll og prísinn er því fyrir ofan meðal. En þetta er kjörinn staður fyrir þá sem vilja fara fínna út að borða í Frankfurt.
Ivory Club, Taunusanlage 15. Opið í hádeginu virka daga og öll kvöld vikunnar til miðnættis.

Exenberger – Hverfisveitingastaður með klassíska rétti

Það þarf ekki alltaf að fara á gamaldags veitingastaði til að fá hefðbundinn heimamat. Exenberger er bjartur, einfaldur og vinalegur matsölustaður þar sem íbúar Sachenhausen hverfisins mæta til að fá klassískar pylsur, schnitzel, sauerkraut og kartöflumús. Hröð og góð þjónusta og aðalréttir á bilinu 8 til 13 evrur.
Exenberger, Bruchstraße 14. Opið 11 til 23 alla daga nema sunnudaga.

Kaffihús

Brot und Seine Freunde – Metnaðarfullt lítið kaffihús

Hér eru boðið upp á gómsætar samlokur (um 5 evrur) í nýbökuðu brauði með brakandi skorpu. Sætabrauðið (1,2 til 3 evrur) er ljúffengt og kaffið virkilega gott (2-4 evrur). Á veturna sitja gestir þessa litla kaffihúss á bekkjum við gluggana en á sumrin er hægt að sitja fyrir utan. Þetta er tilvalinn staður til að byrja daginn á eða til að fá sér samloku í hádeginu.
Brot und Seine Freunde, Kornmarkt 5. Opið frá 7 virka daga, 8 til 18 laugardaga og 10-17 á sunnudögum.

Café Karin – Kaffihús heimamanna

Það er setið á öllum borðum á Café Karin um helgar enda fellur Frühstück hússins (8 evrur) íbúum Frankfurtar vel í geð. Morgunmaturinn samanstendur af góðu brauði og alls kyns áleggi og lítið safaglas fylgir með. Þetta er stór og bjartur staður með þægilegri stemmningu því hér eru allir aldurshópar samankomnir. Café Karin er eiginlega í sömu götu og Brot und Seine Freunde (sjá fyrir ofan) þó þau standi á sitthvoru horninu og deili því ekki götuheiti.
Café Karin, Grosser Hirschgraben 28. Opið frá 9 til miðnættis mánudaga til laugardaga en frá 10 til 19 á sunnudögum.

Coffee Fellows – Kaffihús og frítt net

Þessi staður fær engin verðlaun fyrir frumleika því hann líkist öðrum keðjukaffihúsum en kaffið er samt fínt og meðlætið líka. Það kostar ekkert á netið sem er mikill kostur fyrir þá sem vilja kíkja á póstinn sinn. Staðsetningin er líka góð í miðbænum.
Coffee Fellows, Keiserstrasse 14 (og á tveimur öðrum stöðum í borginni). Opnar klukkan sjö á virkum dögum, átta á laugardögum og níu á sunnudögum.

Wackers Kaffe – Biðröð eftir uppáhaldskaffi heimamanna

Það er ekki óalgengt að það myndist biðröð út á götu á þessum kaffihúsi sem hefur verið fastur liður í Frankfurt í nærri öld. Kaffi er ljómandi gott og sætabrauðið líka. Það er hægt að sitja inni en margir kjósa að koma með bollann sinn út fyrir og klára hann þar.
Wackers Kaffe, Kornmarkt 9 (en líka á öðrum stöðum í borginni).

Gagnlegt

Samgöngur

Lestarferðin frá flugvellinum og á aðallestarstöð Frankfurtar (Haupbahnhof) tekur korter og kostar 3,5 evrur. Frá lestarstöðinni er hægt að taka metró eða jafnvel leigubíl upp á hótel. Miðborg Frankfurt er ekki stór og það tekur aðeins um 20 mínútur að ganga frá kjarna Sachsenhausen hverfisins, yfir brýrnar sem liggja yfir Main og inn í miðbæinn og gamla bæinn. Neðanjarðarlestir, sporvagnar og strætisvagnar eru líka víða á ferðinni og því auðvelt að spara sér sporin.

Frítt net

Í Frankfurt, líkt og víðar, eru Starbucks kaffihúsin heimavöllur ferðamanna sem vilja komast frítt á netið. Coffee Fellows kaffihúsið býður upp á það sama en þessar tvær keðjur eru á víð og dreif um borgina. Það kostar að tengjast netinu á flugvellinum í Frankfurt.

Þjórfé

Þjónustugjald er oftast innifalið í reikningi veitingastaða. Þrátt fyrir það er eðlilegt að gefa þjóninum um 10 prósent þóknun, borga t.d. 30 evrur ef reikningurinn er upp á 27. Það er eðlilegra að rétta þjóninum afganginn í stað þess að láta hann liggja á borðinu. Nokkrar evrur handa herbergisþernunni eru líka vel þegnar, t.d. 2 evrur á dag. Skilja þær eftir á miða sem á stendur „Danke“ eða „Thank you“ svo hún viti að peningurinn er ætlaður henni. Fargjald leigubíla má námunda upp á við og gefa mismuninn.

Vatn

Vatnið í krönunum í Frankfurt smakkast vel og engum verður meint af drykkjunni. Það er því óþarfi að kaupa flöskur af vatni til að vera með upp á hóteli eða kaupa það á minibarnum.

Frankfurt-kortið

Ef þú ætlar að gera söfnum Frankfurt góð skil og nota almenningssamgöngur þá getur borgað sig að kaupa Frankfurt kortið. Ferðalagið frá flugvellinum er innifalið og því borgar sig að kaupa það strax við komuna. Sjá nánar hér.

Hótel

Hér geturðu gert verðsamanburð á gistingu í Frankfurt

Bílaleiga

Ef þú ætlar að ferðast um Þýskaland og leigja bíl í Frankfurt þá geturðu gert verðsamanburð á bílaleigum borgarinnar hér. Leitarvélin gerir þér kleift að finna bíla eftir staðsetningum og ef þú ætlar að taka bílinn á flugvellinum þá geturðu valið um leigur sem eru með afgreiðslu í flugstöðinni sjálfri eða fyrir utan.