Kaffihús
Da Matteo – Eigendur þessa kaffihús hafa sett sér það markmið að bjóða uppá besta kaffisopann í Svíþjóð. Erfitt er að skera úr um hvort það hafi tekist en hins vegar er það almannarómur að kaffið er fjári gott á Da Matteo. Þar er hægt að fá sér alvöru ítalskt kaffi og maula sænskt bakkelsi með. Stemmningin á staðnum er líka heillandi því fastakúnnarnir virðast vera mjög rútíneraðir kaffidrykkjumenn og skella í sig sterkum espressó eins og enginn væri morgundagurinn.
Opnunartímar: Frá átta til klukkan 19 virka daga en frá 10 til 17 um helgar.
Staðsetning: Södra Larmgatan 14 (Viktoriapassagen) og Vallgatan 5
Sjá grein Túrista um da Matteo: Gott kaffi í Gautaborg
biscuit – Þetta litla kaffihús í námunda við viðskiptafræðideild Gautaborgarháskóla er mjög skandinavískt. Hvítmálaðir veggir, sessur í gluggum, ömmustell og bleikur ísskápur bakvið barborðið. Þrátt Bo Bedre útlitið er biscuit mjög fínt kaffihús með virkilega gott úrval af sætabrauði sem smakkast það vel að það er lítið mál að sannfæra sessunautin um að deila þriðju kökusneiðinni. Það er hins vegar mikill mínus að ekkert salerni er á staðnum og nýta gestirnir því aðstöðuna í skólabyggingunni hinum vegin við götuna.
Opnunartímar: Frá morgni og fram undir kvöld.
Verðlag: Kaffi og kaka á um sextíu sænskar. Einnig hægt að fá girnilegar samlokur og salöt frá 50 krónum.
Staðsetning: Sprängkullsgatan 15, sjá á korti.
Veitingahús
Cyrano – Það vottar ekki fyrir tilgerð á þessum afslappaða veitingastað í útjaðri miðborgarinnar. Hér er hægt að fá heimilislegan franskan mat og pizzur sem slá flest annað út. Lyktin frá viðarofninum sem þær eru bakaðar í er svo lokkandi að það er varla að hægt sé að hugsa sér að borða annað. Vínið er serverað í karöflum fyrir þá sem vilja halda reikningnum réttu megin við strikið.
Opnunartímar: Alla daga vikunnar fram á kvöld.
Verðlag: Í meðallagi, pizzurnar kosta milli 80-100 sænskar og hálf rauðvín 110.
Staðsetning: Það eru fjórir Cyrano staðir til. Sá í Prinsgatan 7 er bistro á meðan hinir eru pizzeríur.
Smaka – Svíar eru þekktir fyrir kjötbollurnar sínar og kokkarnir á Smaka eru þaulvanir í að hnoða bollur sem lofaðar eru á landsvísu. Þeir eru líka góðir í að elda aðra klassíska sænska réttir.
Opnunartímar: Frá klukkan 17 og fram yfir miðnætti.
Verðlag: Skammtur af bollum, kartöflustöppu, súrum gúrkum og lingonsultu kostar 105 krónur.
Staðsetning: Vasaplatsen 2, sjá á korti
Kock & Vin – Þessi litli veitingastaður er hugsanlega ódýrasti Michelin veitingastaðurinn á Norðurlöndum. Kock & vin hefur hlotið eina stjörnu og sú viðurkenning er næstum því gulltrygging fyrir góðum mat og þjónustu. Í kjallaranum er vinsæll kokteill bar þar sem hægt er að fá smárétti með vínglasinu.
Opnunartímar: Þriðjudaga til laugardaga frá klukkan 18.
Verðlag: Máltíð hússins, fimm réttir, kostar 595 sænskar. Aðalréttir á rúmlega tvö hundruð.
Staðsetning: Viktoriagatan 12, sjá á korti