Gautaborg

  • Almennt
  • Sjá og gera
  • Matur og drykkur
  • Gagnlegt
  • Hótel

Almennt

Það svífur skemmtilegur andi yfir síkjunum í miðborg Gautaborgar. Sporvagnar læðast meðfram glæsilegum byggingum og fólkið gengur rólega eftir göngugötunum sem teygja anga sína út í öll horn. Það er því ekki mikill ys og þys í þessari næst fjölmennustu borg Svíþjóðar. Hún er því mjög heppilegur áfangastaður fyrir fjölskyldur sem vilja komast í alþjóðlegt en afslappað umhverfi.

Gautaborg er ekki heldur galinn staður fyrir fólk sem langar í borgarferð. Auðvitað er stórborgarfílingurinn víðs fjarri en á móti kemur að verðlagið er hagstætt og borgin er mikil matarborg. Það eru hvorki meira né minna en fimm veitingastaðir sem hafa hlotið Michelin stjörnu sem segir sitt um gæðin.

Eyjarnar úti fyrir borginni eru líka mjög vinsælar og þar má njóta skandinavísks strandarlífs sem á góðum degi gefur ströndunum í suðurhluta álfunnar ekkert eftir.

Beint flug til Gautarborgar er í boði yfir sumarmánuðina.

Áhugaverðir tenglar:

Ferðamálaráð Gautaborgar

Sjá og gera

Liseberg – Þetta gamla tívolí mun vera sá staður í Svíþjóð sem laðar til sín flesta ferðamenn. Þrjár milljónir gesta fylla garðinn yfir sumarmánuðina og í desember þegar Liseberg er opið. Stór hluti þeirra fer að minnsta kosti eina bunu í trérússibananum Baldur sem þykir bera af öðrum slíkum í heiminum. Í Liseberg er hugsað fyrir öllum þörfum fjölskyldunnar og ólíklegt að einhverjum muni leiðast heimsóknin þangað. Yfir aðventuna er jólamarkaður starfræktur í garðinum og nokkur tæki opin.

Opið: Alla daga yfir sumartímann og í desember.

Aðgangseyrir: 70 sænskar krónur fyrir eldri en sjö ára.

Staðsetning á korti

 

Göteborg Konstmuseum – Allar heimsborgir skulu hafa safn þar sem skoða má verk eftir helstu meistara listasögunnar síðustu aldir. Gautaborg uppfyllir þetta skilyrði því Konstmuseum er tignarlegt hús utan um fallegt safn af klassískum verkum eftir nafntoguðustu listamenn Svíþjóðar og Evrópu.

Opið: Opið frá 11 til fimm um helgar en lengur þriðjudaga til fimmtudaga.

Aðgangseyrir: Það kostar 40 krónur inn fyrir eldri en tuttugu og fimm ára.

Staðsetning á korti

 

Universeum –  Nátturuvísindasafnið er sérstaklega hugsað fyrir fróðleiksfús börn og foreldra þeirra. Þeir sem gefa sér tíma á safninu verða margs vísari um allt milli himins og hafs. Þeir sem vilja gera safninu góð skil ættu að reikna með a.m.k. tveggja tíma heimsókn.

Opið: tíu til 18 alla daga en frá kl. 9 til 21 yfir hásumarið.

Aðgangseyrir: 155 skr. fyrir fullorðna og 99 skr. fyrir 3 til 16 ára.

Staðsetning á korti

Listigarðurinn Trädgården – Þessi fallegi listigarður hefur verið dekraður af borgaryfirvöldum í Gautaborg í nærri níu áratugi og árangurinn lætur ekki á sér standa. Garðurinn hefur nefnilega fengið alþjóðlegar viðurkenningar og jafnvel sagður sá fallegasti í Svíþjóð. Maður þarf samt ekki að vera áhugamaður um blóm og plöntur til að njóta heimsóknarinnar í listigarðinn því þar er notalegt að vera og njóta skandinavískrar sumarblíðu.

Opið: Frá níu á morgnana og til sólarlags.

Aðgangseyrir: Kostar ekkert inn í garðinn en 20 sænskar þarf að greiða fyrir aðgang að gróðurhúsunum

Staðsetning: Carl Skottsbergsgata 22A, sjá á korti.

Hönnunarsafnið –  Á Röhsska Konstslöjdmuseet eða Design Museum kennir ýmissa grasa. Þar er hægt að skoða þúsund ára gamlan kínverskan heimilisiðnað, merkustu gripi sænskra iðnhönnuða, klassísk klæði og svo mætti lengi áfram telja.

Opið: Frá hádegi til kl. 20 á þriðjudögum, frá hádegi til klukkan fimm miðvikudaga til föstudaga og frá kl. 11 til 17 um helgar. Lokað á mánudögum.

Aðgangseyrir: 40 sænskar krónur fyrir eldri en tuttugu ára. Frítt fyrir námsmenn.

Staðsetning: Vasagata 37, sjá á korti.

Matur og drykkur

Kaffihús

Da Matteo – Eigendur þessa kaffihús hafa sett sér það markmið að bjóða uppá besta kaffisopann í Svíþjóð. Erfitt er að skera úr um hvort það hafi tekist en hins vegar er það almannarómur að kaffið er fjári gott á Da Matteo. Þar er hægt að fá sér alvöru ítalskt kaffi og maula sænskt bakkelsi með. Stemmningin á staðnum er líka heillandi því fastakúnnarnir virðast vera mjög rútíneraðir kaffidrykkjumenn og skella í sig sterkum espressó eins og enginn væri morgundagurinn.

Opnunartímar: Frá átta til klukkan 19 virka daga en frá 10 til 17 um helgar.

Staðsetning: Södra Larmgatan 14 (Viktoriapassagen) og Vallgatan 5

Sjá grein Túrista um da Matteo: Gott kaffi í Gautaborg

biscuit – Þetta litla kaffihús í námunda við viðskiptafræðideild Gautaborgarháskóla er mjög skandinavískt. Hvítmálaðir veggir, sessur í gluggum, ömmustell og bleikur ísskápur bakvið barborðið. Þrátt Bo Bedre útlitið er biscuit mjög fínt kaffihús með virkilega gott úrval af sætabrauði sem smakkast það vel að það er lítið mál að sannfæra sessunautin um að deila þriðju kökusneiðinni. Það er hins vegar mikill mínus að ekkert salerni er á staðnum og nýta gestirnir því aðstöðuna í skólabyggingunni hinum vegin við götuna.

Opnunartímar: Frá morgni og fram undir kvöld.

Verðlag: Kaffi og kaka á um sextíu sænskar. Einnig hægt að fá girnilegar samlokur og salöt frá 50 krónum.

Staðsetning: Sprängkullsgatan 15, sjá á korti.

Veitingahús

Cyrano –  Það vottar ekki fyrir tilgerð á þessum afslappaða veitingastað í útjaðri miðborgarinnar. Hér er hægt að fá heimilislegan franskan mat og pizzur sem slá flest annað út. Lyktin frá viðarofninum sem þær eru bakaðar í er svo lokkandi að það er varla að hægt sé að hugsa sér að borða annað. Vínið er serverað í karöflum fyrir þá sem vilja halda reikningnum réttu megin við strikið.

Opnunartímar: Alla daga vikunnar fram á kvöld.

Verðlag: Í meðallagi, pizzurnar kosta milli 80-100 sænskar og hálf rauðvín 110.

Staðsetning: Það eru fjórir Cyrano staðir til. Sá í Prinsgatan 7 er bistro á meðan hinir eru pizzeríur.
Smaka – Svíar eru þekktir fyrir kjötbollurnar sínar og kokkarnir á Smaka eru þaulvanir í að hnoða bollur sem lofaðar eru á landsvísu. Þeir eru líka góðir í að elda aðra klassíska sænska réttir.

Opnunartímar: Frá klukkan 17 og fram yfir miðnætti.

Verðlag: Skammtur af bollum, kartöflustöppu, súrum gúrkum og lingonsultu kostar 105 krónur.

Staðsetning: Vasaplatsen 2, sjá á korti

Kock & Vin – Þessi litli veitingastaður er hugsanlega ódýrasti Michelin veitingastaðurinn á Norðurlöndum. Kock & vin hefur hlotið eina stjörnu og sú viðurkenning er næstum því gulltrygging fyrir góðum mat og þjónustu. Í kjallaranum er vinsæll kokteill bar þar sem hægt er að fá smárétti með vínglasinu.

Opnunartímar: Þriðjudaga til laugardaga frá klukkan 18.

Verðlag:  Máltíð hússins, fimm réttir, kostar 595 sænskar. Aðalréttir á rúmlega tvö hundruð.

Staðsetning: Viktoriagatan 12, sjá á korti

Gagnlegt

Landvetter flugvöllurinn – Það tekur flugvallarrútuna um það bil tuttugu mínútur að keyra niður í bæ. Miði sem gildir báðar leiðir kostar 150 sænskar fyrir fullorðinn. Sjá nánar hér.

Almenningssamgöngur – Strætisvagnar, sporvagnar og ferjur ganga reglulega um alla borg. Bílstjórarnir selja ekki miða en þá er auðveldast að kaupa í sjoppum merktum 7-11 eða Pressbyrån. Ferjur út í eyjar fara frá Saltholmen, sjá nánar hér.

Sjá heimasíðu ferðamálaráðs Gautaborgar fyrir fleiri ganglegar upplýsingar.

Hótel

Smelltu hér til að gera verðsamanburð á gistingu í Gautaborg og bókaðu svo besta kostinn:

Bílaleiga