Vatnið
Genfarvatn fer ekki framhjá neinum sem til borgarinnar kemur og íbúarnir halda því blákalt fram að vatnið sé svo tandurhreint að það megi næstum drekka það. Enginn hikar því við að kæla sig niður í vatninu á sumrin. Á bryggjunni við La Buvette des Bain er aðstaða fyrir þá sem vilja synda (og líka hægt að borða) og fara í gufu. Hinum megin við vatnið er svo stór stökkpallur fyrir þá sem þora. Þeir sem vilja fara rólega í sakirnar, en samt komast út á vatnið, geta fengið far með vatnastrætó yfir vatnið. Þeir stoppa á nokkrum stöðum og keyra á tíu mínútna fresti (strætókortið, sem hótelgestir fá, gildir líka í bátana). Og hæsti gosbrunnur heims, Jet d’eau, fer ekki framhjá neinum enda spýtir Genfarvatni 140 metra upp í loftið á ógnarhraða.
Dómkirkjan og gamli bærinn
Göturnar eru hlykkjóttar sem ganga út frá torginu Bourg-de-Four, nafla borgarinnar, í gamla hlutanum. Ein þeirra liggur að dómkirkju Sankti Péturs, einu af kennileitum borgarinnar. Frá toppi annars turnsins er glæsilegt útsýni yfir vatnið og gamla bæinn og þangað flykkjast ferðamenn. En gleymið ekki að kíkja inn í Kapellu líksins sem er bakvið altarið. Loft kapellunnar er eini málaði hluti kirkjunna sem Kalvin og hans menn nenntu ekki að skrapa af þegar kirkjunni var breytt úr kaþólskri í samkomustað Kalvinista. Á laugardögum er fríir orgeltónleikar í kirkjunni og hefjast þeir klukkan 16.
Ítalska þorpið
Íbúar Genfar urðu um langt skeið að lifa gleðisnauðu lífi að hætti Kalvínista. Fólkið gat þó komist út fyrir múranna af og til og þá var haldið í nærliggjandi þorp þar sem lífsins lystisemda notið í óhóflegu magni áður en grár hversdagsleikinn í Genf tók við á ný. Þó lokaðar búðir og veitingastaðir á sunnudögum séu sennilega það eina sem eftir er af ströngum lífsreglum Kalvínsta þá nýtur nágrannasveitarfélagið Carouge enn mikilla vinsælda meðal borgarbúa sem vilja skipta um umhverfi. Þekktustu arkitektar Ítala voru fengnir til að reisa þennan kaþólska bæ í lok átjándu aldar og tekur aðeins nokkrar mínútur að taka sporvagn þangað frá miðborg Genfar. Sá stutti útidúr er tímans virði.a.
Ólík söfn hlið við hlið
Úrsmiðir hafa lengi sett svip sinn á Genf og borið hróður hennar víða. Gæðastimpilinn “Swiss Made” fá aðeins þau úr og klukkur þar sem að minnsta kosti sex af hverjum tíu hlutum koma frá Sviss. Vinsælasta safnið til að kynna sér þessa mikilvægu iðngrein er Patek Philippe safnið (Rue des Vieux-Grenadiers 7, opið þri til fös 14-18 og lau 10-18). Í næsta húsi er svo nýlistasafnið Mamco (Rue des Vieux-Grenadiers 10, opið til klukkan 18 alla daga nema mánudaga).
Diplómatahverfið
Aðalsetur Sameinuðu þjóðanna í Evrópu er í Genf en elsti hluti húsakynnanna var upphaflega notaður af Þjóðabandalaginu (e. the League of Nations, LN). Það má virða þessar byggingar fyrir sér frá Place des Nations (sporvagnar 13 og 15 fara þangað) og eins boðið upp á klukkutíma skoðunarferð um húsin sjálf (sjá hér). Safn Rauða krossins (Avenue de la Paix 17) er áhrifaríkt og heimsóknarinnar virði. Það er skammt frá Place de Nations og er opið alla daga nema mánudaga. Það er upplagt að gera þessu tveimur merku stofnunum skil í sömu ferð.