Genf

Mynd: Oliver Miche/GeneveTourisme
  • Almennt
  • Sjá og gera
  • Matur og drykkur
  • Gagnlegt
  • Hótel

Almennt

Við bakka Genfarvatns standa reisulegar byggingar sem hýsa fimm stjörnu hótel, frægar úrabúðir og fína veitingastaði. Í hæðunum fyrir ofan eru svo dýrustu villur álfunnar. Vatnið sjálft er samt leikvöllur allra borgarbúa. Á sumrin svamla þar allir saman og á veturna hittist fólk af öllum stéttum í gufubaðinu á La Buvette des Bain, bryggjunni sem gengur út í vatnið.  Þaðan er líka fallegt útsýni til fjalla en allir tindar sem sjást frá Genf, þar á meðal Mont Blanc, eru hinum megin við landamærin.

Icelandair flýgur til Genf frá lok maí og fram til 23. september. Þar með gefst íslenskum ferðamönnum betra aðgengi að heimaborg Rauða krossins, Genfarsáttmálans og Sameinuðu þjóðanna. Svissneskar og franskar nærsveitir þessarar glæsilegu borgar er ekki síður spennandi og er jafnvel hægt að gera þeim góð skil í dagsferðum. Þá nýtist lestarpassinn sem gestir borgarinnar fá vel því hann gildir í sumum tilfellum þegar komið er út fyrir borgarmörkin.

Sjá og gera

Vatnið

Genfarvatn fer ekki framhjá neinum sem til borgarinnar kemur og íbúarnir halda því blákalt fram að vatnið sé svo tandurhreint að það megi næstum drekka það. Enginn hikar því við að kæla sig niður í vatninu á sumrin. Á bryggjunni við La Buvette des Bain er aðstaða fyrir þá sem vilja synda (og líka hægt að borða) og fara í gufu. Hinum megin við vatnið er svo stór stökkpallur fyrir þá sem þora. Þeir sem vilja fara rólega í sakirnar, en samt komast út á vatnið, geta fengið far með vatnastrætó yfir vatnið. Þeir stoppa á nokkrum stöðum og keyra á tíu mínútna fresti (strætókortið, sem hótelgestir fá, gildir líka í bátana). Og hæsti gosbrunnur heims, Jet d’eau, fer ekki framhjá neinum enda spýtir Genfarvatni 140 metra upp í loftið á ógnarhraða.

Dómkirkjan og gamli bærinn

Göturnar eru hlykkjóttar sem ganga út frá torginu Bourg-de-Four, nafla borgarinnar, í gamla hlutanum. Ein þeirra liggur að dómkirkju Sankti Péturs, einu af kennileitum borgarinnar. Frá toppi annars turnsins er glæsilegt útsýni yfir vatnið og gamla bæinn og þangað flykkjast ferðamenn. En gleymið ekki að kíkja inn í Kapellu líksins sem er bakvið altarið. Loft kapellunnar er eini málaði hluti kirkjunna sem Kalvin og hans menn nenntu ekki að skrapa af þegar kirkjunni var breytt úr kaþólskri í samkomustað Kalvinista. Á laugardögum er fríir orgeltónleikar í kirkjunni og hefjast þeir klukkan 16.

Ítalska þorpið

Íbúar Genfar urðu um langt skeið að lifa gleðisnauðu lífi að hætti Kalvínista. Fólkið gat þó komist út fyrir múranna af og til og þá var haldið í nærliggjandi þorp þar sem lífsins lystisemda notið í óhóflegu magni áður en grár hversdagsleikinn í Genf tók við á ný. Þó lokaðar búðir og veitingastaðir á sunnudögum séu sennilega það eina sem eftir er af ströngum lífsreglum Kalvínsta þá nýtur nágrannasveitarfélagið Carouge enn mikilla vinsælda meðal borgarbúa sem vilja skipta um umhverfi. Þekktustu arkitektar Ítala voru fengnir til að reisa þennan kaþólska bæ í lok átjándu aldar og tekur aðeins nokkrar mínútur að taka sporvagn þangað frá miðborg Genfar. Sá stutti útidúr er tímans virði.a.

Ólík söfn hlið við hlið

Úrsmiðir hafa lengi sett svip sinn á Genf og borið hróður hennar víða. Gæðastimpilinn „Swiss Made“ fá aðeins þau úr og klukkur þar sem að minnsta kosti sex af hverjum tíu hlutum koma frá Sviss. Vinsælasta safnið til að kynna sér þessa mikilvægu iðngrein er Patek Philippe safnið (Rue des Vieux-Grenadiers 7, opið þri til fös 14-18 og lau 10-18). Í næsta húsi er svo nýlistasafnið Mamco (Rue des Vieux-Grenadiers 10, opið til klukkan 18 alla daga nema mánudaga).

Diplómatahverfið

Aðalsetur Sameinuðu þjóðanna í Evrópu er í Genf en elsti hluti húsakynnanna var upphaflega notaður af Þjóðabandalaginu (e. the League of Nations, LN). Það má virða þessar byggingar fyrir sér frá Place des Nations (sporvagnar 13 og 15 fara þangað) og eins boðið upp á klukkutíma skoðunarferð um húsin sjálf (sjá hér). Safn Rauða krossins (Avenue de la Paix 17) er áhrifaríkt og heimsóknarinnar virði. Það er skammt frá Place de Nations og er opið alla daga nema mánudaga. Það er upplagt að gera þessu tveimur merku stofnunum skil í sömu ferð.

Matur og drykkur

Matur

Brasserie Les Halles d’Ile

Á lítilli eyju út í Rínarfljóti (gengið yfir litla brú) er stór bygging sem hýsir m.a. þennan veitingastað. Þetta er staður í milliklassa og matseðillinn nokkuð fjölbreyttur. Hér er hægt að fá ljómandi harmborgara, bröns um helgar og fínni mat á kvöldin. Staðsetning er mjög skemmtileg og diplómatar koma víst hingað til að fá sér hressingu eftir vinnu.
Les Halles d´Ile, 1 Place de L´ile Geneve Centre

Morgunmatur á bryggjunni

Það er vinsælt að fá sér hollan morgunmat á Buvette des Bains sem er hluti af baðaðstöðunni út í Genfarvatni. Skammturinn kostar 10 franka (2 brauðsneiðar með áleggi, múslí eða ávaxtasalat og kaffi) og er serverað til hálf tólf. Á öðrum tímum dagsins er boðið upp á rétti af matseðli en ostafondú staðarins nýtur mikilla vinsælda á veturna. Útsýnið frá bryggjunni er framúrskarandi en á sumrin er rukkað fyrir aðgang að henni.
Buvette des Bains, 30 quai du Mont-Blanc

Vinsæll ítalskur

Ef þú vilt fá góða pizzu þá er Luigia í Eaux-Vives rétti staðurinn. Þetta er stórt veitingahús þar sem þjónarnir þeysast um með ítalska rétti sem eldaðir eru samkvæmt suðurítölskum hefðum. Flestir sitja við háborð á barstólum og þjónustan er snögg og góð. Þeir sem vilja virkilega þenja sig út panta sér Nutella pizzu í eftirrétt en tvær sneiðar af henni eru nóg til að leggja meðalmanninn. Pizzurnar kosta um 2500 íslenskar (17 til 24 CHF).
Luigia, Rue Adrien Lachenal 24A. Opið frá 12 til 14:30 alla daga og aftur frá 18 eða 19 á kvöldin (mismundandi eftir dögum).

Klassískt í gamla bænum

Á veturna er fondú aðalmálið á veitingahúsum Genfar en þegar hlýnar í veðri þá kjósa heimamenn heldur smjörsteiktan Aborra (Perch). Les Armés (1, rue Puits-St-Pierre) við dómkirkjuna á að vera öruggur staður fyrir þá sem vilja prófa þessa tvo hefðbundnu rétti. Á næsta horni er Grand Rue og á tveimur stöðum í þeirri götu eiga ferðalangar sem vilja borða að hætti heimamanna að vera í góðum málum; Restaurant des Antiquaires (Grand Rue 35) og Restaurant de l´hotel de Ville (Grand Rue 39).

Kaffi og drykkir

Boreal kaffi – vinsælt kaffihús

Það er ys og þys á Boreal kaffihúsinu (Rue du Stand 60) rétt helstu verslunargötur borgarinnar enda hefur staðurinn það orð á sér að bjóða upp á besta kaffi í borginni. Boreal hefur einnig opnað lítið kaffihús á göngugötunni Rue du Mont Blanc 15). Það er frítt net á kaffihúsinu. Við hliðina er útibú franska makkarónuframleiðandans Ladurée og sennilega margir sem eiga erfitt með að ganga þar framhjá án þess að kíkja inn.
Boreal er opið til 21 á kvöldin.

La Clemence – í nafla borgarinnar

Það er vinsælt að setjast niður á útikaffihús á Bourg-de-Four torginu í gamla bænum og þar er Le Clemence vel staðsettur. Þessi bar er nefndur í höfuðið á kirkjuklukku dómkirkjunnar sem stendur rétt hjá og það er boðið upp á samlokur og minni rétti með drykkjunum.
Le Clemence, Place du Bourg-de-Four 20. Opið fram yfir miðnætti alla daga.

Gagnlegt

Samgöngur

Lestarferðin frá flugvellinum og á aðallestarstöðina tekur nokkrar mínútur og kostar ekki neitt. Þú sækir einfaldlega miða miðasöluvél Unireso og þar er einn hnappur merktur „Free ticket“. Sá gildir í lestina og innanbæjar í Genf í 80 mínútur. Þegar þú innritar þig á hótelið þá færðu kort sem gefur þér ótakmarkaðan og ókeypis aðgang að almenningssamgöngum borgarinnar.

Frítt net

Í Genf, líkt og víðar, eru Starbucks kaffihúsin heimavöllur ferðamanna sem vilja komast frítt á netið. Það eru þó fleiri kaffihús með þá þjónustu og er það þá oft tekið fram með merkingum við útidyrahurð. Á flugvellinum fá farþegar ókeypis aðgang að neti í klukkutíma.

Þjórfé

Það er óþarfi að eltast við að gefa tíu prósent þjórfé í Sviss en þó í lagi að gefa smá og láta þjóninn þá fá það beint hann rukkar þig í stað þess að skilja pening eftir á borðinu.

Vatn

Á stöku stað eru vatnsbrunnar með ljómandi góðu og íssköldu vatni sem er um að gera að nýta sér.

Hótel

Það er mjög þægilegt að gista í nágrenni við aðallestarstöðina því þá er ferðalagið til og frá flugvellinum er einfalt. En sennilega er huggulegast að finna gistingu við gamla bæinn og vatnið

Notaðu leitarvélina hér fyrir neðan til að finna og bóka hagstæðustu gistinguna í Genf.

Bílaleiga