Í þessu toppa íbúar Portland

Gott kaffi, framúrskarandi bjór og almennilegar almenningssamgöngur eru meðal þess sem einkennir Portland í Oregon fylki. Í vor geta farþegar í Keflavík flogið beint til borgarinnar.

 

 

 

Gott kaffi, framúrskarandi bjór og almennilegar almenningssamgöngur eru meðal þess sem einkennir Portland í Oregon fylki. Í vor geta farþegar í Keflavík flogið beint til borgarinnar.

Árlega setja blaðamenn breska tímaritsins Monocle saman lista yfir 25 byggilegustu borgir í heimi og næstum alltaf er Portland eina bandaríska borgin sem hlýtur náð fyrir augum skríbentanna. Í ár skipar borgin tuttugusta og þriðja sætið.

Hugguleg hjólaborg

Í dómi Monocle segir að Portland sé notaleg borg þar sem lengi hefur verið passað upp á að byggðin dreifist ekki í allar áttir líkt og gerst hefur víða vestanhafs. Borgin er því óvenju þéttbýl á bandarískan mælikvarða og Portlandbúar komast nær allra sinna ferða með almenningssamgöngum. Hjólamenningin er þar líka mun ríkari en gengur og gerist í stórborgum N-Ameríku.

Stutt í náttúruna

Nálægðin við blómlegar sveitir Oregonfylkis tryggir matreiðslumönnum aðgang að góðu hráefni og lega borgarinnar gerir einnig þróttmiklum íbúum kleift að fara á ströndina fyrir hádegi en verja seinnipartinum í skíðabrekku. Það eru þó væntanlega fáir sem komast yfir svo mikið á einum degi en möguleikinn er fyrir hendi.

Gott að drekka

Portland er hins vegar ekki bara lofuð af útlendum blaðamönnum heldur líka bandarískum ferðamönnum. Eitt útbreiddasta ferðaritið vestanhafs, Travel&Leisure, efndi til kosninga á síðasta ári þar sem lesendur voru beðnir um að gefa vinsælum ferðamannaborgum einkunn í nokkrum flokkum. Það er skemmst frá því að segja að Portland náði efsta sætinu á listunum yfir borgirnar þar sem kaffið, ölið og götumaturinn er bestur. Almenningssamgöngurnar þykja heldur hvergi betri og flugvöllur borgarinnar þykir bera af öðrum vestanhafs.

Umhverfisstefna borgaryfirvalda er líka aðdáunarverð því 90 prósent af öllu rusli sem borgarbúar skila frá sér er endurunnið.

Í maí fer Icelandair jómfrúarflug sitt til Portland og verður flogið þangað tvisvar í viku út haustið.