Veitingastaðir
Madklubben – Fjórir réttir á 250 krónur, þrír á 200, tveir á 150 og einn á 100. Ódýrara gerist það varla ef gerðar eru kröfur um góðan mat, fallegt umhverfi, ágætis þjónustu og afbragðs staðsetningu. Á maðseðlinum eru einfaldir kjöt- og fiskréttir sem bornir eru fram með því grænmeti sem passar hverri árstíð fyrir sig. Vínin eru í ódýrari kantinum. Það er vissara að panta borð.
Heimasíðan Borðapantanir Staðsetning
Scarpetta – Í ófínni hluta Norðurbrúar er þessi vinsæli ítalski veitingastaður. Hér eru pastaréttir á 50-75 krónur og steikur á 95 krónur. Skammtarnir eru hins vegar ekki stórir sem býður upp á að pantaðir séu fleiri en einn réttur á mann. Þrátt fyrir það er þetta sennilega besti díllinn í bænum . Drykkjarföng eru sömuleiðis hóflega verðlögð.
Heimasíðan Borðapantanir Staðsetning
Toldbod Bodega – Eitt af því mest sjarmerandi við Kaupmannahöfn er aragrúi ævafornra veitingastaða sem selja smurbrauð og aðra hefðbunda danska rétti. Toldbod Bodega er einn þessara staða en er samt sér á báti. Hér eru nefnilega færri ferðamenn en á stöðunum í kringum Strikið. Andrúmsloftið er heimilislegra og þjónustufólkið ber með stolti fram hakkabuff og fiskefillet í sérflokki.
Heimasíðan Staðsetning
L´Education Nationale – Það er vart hægt að hugsa sér afslappaðri veitingastað en L´Education sem er í nágrenni við Ráðhústorgið. Hér ríkir sannkölluð frönsk bistro stemmning og setið er við lítil borð með rauðköflóttum dúkum. Hér er borinn á borð ekta franskur sveitamatur án nokkurrar tilgerðar og vínin eru oftar en ekki drukkin úr ósamstæðum glösum. Verðið er sanngjarnt og það er óhætt að mæla með hádegismatseðlinum fyrir þá sem vilja eitthvað allt annað en enn eina samlokuna með hrúgu af rauðlauk.
Heimasíðan Staðsetning
Brdr Price – Bræðurnir Adam og James Price slógu í gegn sem sjónvarpskokkar í Danmörku. Nú eiga þeir veitingastað við Rosenborgarslottið og í vor bætist annar við í Tívólí. Pabbi Price var líka þekktur matgæðingur og sá sparaði ekki smjörið. Það gera bræðurnir ekki heldur og maturinn í þáttunum og á veitingastöðunum er ekkert léttmeti. Túristi borðaði í ódýrari hluta veitingastaðarins sem kallast Spisekøkkenet. Þar kosta aðalréttirnir um 175 danskar (ca. 3500 íslenskar) og stendur valið þá á milli fiskbaka, pottrétta og veglegrar steikarsamloku. Þó þetta hljómi hversdagslega þá er þessum réttum lyft upp á hærra plan í eldhúsi bræðrana og því óhætt að mæla með heimsókn í þessa fallegu salarkynni við Rosenborg. Eftir klukkan átta eru oft laus borð en annars borgar sig að panta (sjá heimasíðu). Í Spisestuen eru réttirnir stærri og kosta frá 195 til 290 krónur. Matseðillinn breytist reglulega og því borgar sig að skoða heimasíðuna áður en borðið er pantað.
Heimasíðan
Noma – Þriðji besti veitingastaður heims skv. Michelin matarbíblíunni deilir húsakynnum með íslenska sendiráðinu. Hér er nær eingöngu stuðst við norrænt hráefni og ætla eigendur staðarins, í samstarfi við Norrænu ráðherranefndina, að nýta sér meðbyr staðarins til að markaðssetja norræna matarmenningu út um allan heim. Þeir sem láta verðið ekki aftra sér munu án efa fá framúrskarandi mat og þjónustu enda er kvöldstund á Noma upplifun í sérflokki. Gera þarf ráð fyrir að panta borð með minnst þriggja mánaða fyrirvara. Matseðill kvöldsins kostar 900 dkr.
Heimasíðan Borðapantanir Staðsetning
Kaffihús
The Laundromat café – Morgunmaturinn og hamborgaranir á þessum kaffihúsum Friðriks Weisshappel hafa verið valin bæjarins bestu af heimamönnum. Það eitt og sér eru góð meðmæli. Kaffihúsið á Norðurbrú er staðsett í einni líflegustu götu hverfisins, Elmegade, þar sem fjöldi verslana og minni veitingastaða eru til húsa. Á Austurbrú er leikaðstaða fyrir börn.
Heimasíðan Staðsetning Norðurbrú Staðsetning Austurbrú
Paludan – Notalegt bókakaffi í göngugötu við Kaupmannahafnarháskóla og dómkirkjuna (Frúarkirkjuna). Matseðillinn er einfaldur og aðaláherslan lögð á sætabrauð með kaffinu sem er afbragðsgott.
Staðsetning
The Royal Café – Flottasta kaffihús heims að mati spænska dagblaðsins Le Figaro. Það er kannski orðum aukið en vissulega hefur hönnun staðarins heppnast vel, þjónustan er góð og veitingarnar sömuleiðis. Hér eru danskar mubblur, leirtau og listmunir í hávegum höfð enda er kaffihúsið í húsasundi á milli verslunar Georg Jensen og Illum bolighus á Strikinu. Aðaltrompið á matseðlinum er Smushi, sambland af smurbrauði og sushi. Verðlagið er í hærri kantinum.
Heimasíðan Staðsetning
The Coffee factory – Einfalt kaffihús fyrir þá sem eru í leit að góðu kaffi og croissant. Verðlagið sennilega með því lægsta sem finnst í nágrenni við Kongens Nytorv.
Heimasíðan Staðsetning
Sporvejen – Það má segja að þessi óvenjulegi hamborgarastaður sé vel falinn á hinu huggulega Grábræðratorgi, mitt á milli tveggja vinsælla steikhúsa. Sporvognen tekur heiti sitt bókstaflega enda er staðurinn innréttaður eins og sporvagn og gestirnir sitja á bekkjum í frekar þröngum básum. Látið það þó ekki slá ykkur út af laginu því þetta er mjög sjarmerandi staður og góðir hamborgarar á sanngjörnu verði. Hamborgarinn kostar frá 52 dkr. Á góðviðrisdögum er einnig hægt að sitja fyrir utan staðinn.
Heimasíðan Staðsetning
Sjá meira hér: 5 góð kaffihús í Kaupmannahöfn