Kaupmannahöfn

Kaupmannahöfn
  • Almennt
  • Sjá og gera
  • Matur og drykkur
  • Gagnlegt
  • Hótel
  • Bílaleiga

Almennt

Sá Íslendingur er vandfundinn sem ekki hefur heimsótt Kaupmannahöfn á lífsleiðinni. Síðustu ár höfum við fjölmennt til borginnar og erum eiginlega hætt að kalla hana sínu rétta nafni. Við notum þess í stað gælunafnið Köben og einu kortin sem við höfum á rölti um borgina eru greiðslukort. Enda rata flestir orðið um Strikið og nágrenni þess.

Við tengjumst auðvitað Kaupmannahöfn og Danmörku merkilegum böndum og þau skýra að hluta til vinsældir borgarinnar hjá íslenskum ferðamönnum. En ætli við myndum nokkuð nenna að leggja leið okkar þangað reglulega nema fyrir þær sakir að borgin hefur upp á svo margt að bjóða. Stærð hennar er líka þægileg og mannfjöldinn hæfilegur. Tíminn nýtist því í eitthvað skemmtilegra en neðanjarðarlestar, umferðarteppur eða langar biðraðir. Kannski þess vegna má reikna með að Kaupmannahöfn verði áfram vinsælasti áfangastaður íslenskra ferðamanna enda er tíminn sem við verjum í útlöndum núna enn dýrmætari en árin þar á undan. Borgin er þó dýr og sérstaklega á þeim slóðum þar sem flestir ferðamenn eru. Túristi beinir því sjónum sínum að þeim stöðum þar sem fólk fær meira fyrir peningana og ætti því að geta forðast túristagildrurnar sem lagðar hafa verið vítt og breitt í hinni vinalegu Köben.

Innblástur fyrir næstu ferð til Kaupmannahöfn

Hóteltilboð í Köben fyrir lesendur Túrista
5 góð kaffihús í Kaupmannahöfn
Pylsuvagn matsölustaður ársins
Hvar þykir íbúunum brönsinn bestur?

Sjá og gera

Skemmtigarðar

Tívolí – Þekktasti skemmtigarður borgarinnar og eitt aðalsmerkja hennar. Á hverju ári bætast við ný og stærri tæki sem sætir ákveðinni furðu enda er garðurinn ekki stór og hver fermetri virðist nýttur til hins ýtrasta. Hér er nóg við að vera fyrir alla aldurshópa og óhætt að gera ráð fyrir nokkrum klukkutímum í heimsóknina.
Það kostar 85 dkr inn fyrir 12 ára og eldri, 45 dkr fyrir börn. Fyrir þá sem ætla sér í mörg tæki borgar sig að kaupa „turpass“, armband sem veitir ótakmarkaðan aðgang í öll tækin. Sjá verðskrá Tívolí hér (http://www.tivoli.dk/composite-3189.htm).
Tívolí er að jafnaði opið frá miðjum apríl fram í miðjan september á ári hverju og þá opið frá kl 11 á morgnana til miðnættis. Þá er einnig opið í kringum Hrekkjarvökuna (10.-19.okt) og jólin (20.nóv-30.des) en þá lokar skemmtigarðurinn kl 23 á kvöldin.

Zoo – Dýragarðurinn í Frederiksberg er mjög vinsæll meðal Kaupmannahafnarbúa. Dýrin eru af öllum stærðum og gerðum og yngstu meðlimir fjölskyldunnar fá nóg fyrir sinn snúð. Fílarnir hafa nýlega fengið nýtt húsaskjól teiknað af stjörnuarkitektinum Norman Foster sem segir ýmislegt um metnað dýragarðsins til að bjóða uppá fínustu aðstæður fyrir menn og dýr. Í dýragarðinum er ágætis úrval af mat og drykk en það er líka lítið mál að taka með sér nesti því í garðinum er sérstakt nestishús fyrir hagsýna gesti.
Aðgöngumiðinn kostar 130 dkr fyrir fullorðna en 70 dkr fyrir börn 3-11 ára. Dýragarðuinn er opinn alla daga ársins frá kl 9 á morgnana og lokar seinnipartinn um kl 16 til 17,  nema yfir hásumarið þegar opið er til klukkan 21 á kvöldin.

Söfn

Lousiana – Nýlistasafnið í Humlebæk, í nágrenni Kaupmannahafnar er eitt vinsælasta safn landsins. Sýningarnar eru fjölbreyttar og nokkrar í gangi á hverjum tíma. Garðurinn við safnið og veitingasalurinn eru líka heimsóknarinnar virði.
Lousiana er opið alla daga nema mánudaga frá klukkan tíu og til klukkan 22, virka daga en kl. 18 um helgar. Aðgangseyrir er 90 dkr fyrir 18 ára og eldri.

Ríkislistasafnið – Í glæsilegum húsakynnum, í nágrenni við Jónshús, er Statens Museum for Kunst eða Danska ríkislistasafnið. Gestir geta gjaldfrjálst gengið um sali safnins og virt fyrir sér helstu listmuni í eigu dönsku þjóðarinnar. Verkin eru eftir helstu listamenn Dana sem og útlenska risa. Mitt í herlegheitunum er svo að finna verk eftir Margréti Þórhildi drottningu sem nokkuð gott dæmi um danska kaldhæðni. Drottningunni er alla vega ekki mikill greiði gerður með þessu.
Eins og áður segir er frítt inn á sýninguna yfir listmuni í eigu safnsins og barnalistasafnið en greiða þarf aðgangseyri (110 dkr) að sérsýningum.
Opið frá kl. 10-17 (10-20 á miðvikudögum) alla daga nema mánudaga.

Önnur söfn: Danska arkitektasafnið (Aðgangseyrir 40 dkr en frítt inn á miðvikudögum frá kl. 17-21), Hönnunarsafnið (50 dkr en frítt á miðvikudagskvöldum), Þjóðminjasafnið (Frír aðgangur, opið alla daga nema mánudaga).

Sund og strendur

Við Íslendingar erum mjög góðu vanir þegar kemur að sundlaugum. Sundlaugin í Dgi-Byen hótelinu er hins vegar full boðleg þeim vandlátustu.  Það kostar 58 dkr fyrir fullorðna og 38 dkr fyrir börn eldri en tveggja ára en veittur er nokkurra króna fjölskylduafsláttu. Hægt er að leigja baðföt og handklæði.
Í góðu veðri er upplagt að kíkja á ströndina. Amager Strandpark er nokkurra kílómetra löng baðströnd með grunnum polli sem hentar fyrir börn. Aðrar fínar baðstrendur eru í Charlottenlund og Klampenborg (Bellevue ströndin). Auðvelt er að komast á Amager ströndina, t.d. með Metró en strætisvagnar ganga úr miðbænum að hinum ströndunum.

Matur og drykkur

Veitingastaðir

Madklubben – Fjórir réttir á 250 krónur, þrír á 200, tveir á 150 og einn á 100. Ódýrara gerist það varla ef gerðar eru kröfur um góðan mat, fallegt umhverfi, ágætis þjónustu og afbragðs staðsetningu. Á maðseðlinum eru einfaldir kjöt- og fiskréttir sem bornir eru fram með því grænmeti sem passar hverri árstíð fyrir sig. Vínin eru í ódýrari kantinum. Það er vissara að panta borð.
Heimasíðan Borðapantanir Staðsetning

Scarpetta – Í ófínni hluta Norðurbrúar er þessi vinsæli ítalski veitingastaður. Hér eru pastaréttir á 50-75 krónur og steikur á 95 krónur. Skammtarnir eru hins vegar ekki stórir sem býður upp á að pantaðir séu fleiri en einn réttur á mann. Þrátt fyrir það er þetta sennilega besti díllinn í bænum . Drykkjarföng eru sömuleiðis hóflega verðlögð.
Heimasíðan Borðapantanir Staðsetning

Toldbod Bodega – Eitt af því mest sjarmerandi við Kaupmannahöfn er aragrúi ævafornra veitingastaða sem selja smurbrauð og aðra hefðbunda danska rétti. Toldbod Bodega er einn þessara staða en er samt sér á báti. Hér eru nefnilega færri ferðamenn en á stöðunum í kringum Strikið. Andrúmsloftið er heimilislegra og þjónustufólkið ber með stolti fram hakkabuff og fiskefillet í sérflokki.
Heimasíðan Staðsetning

L´Education Nationale – Það er vart hægt að hugsa sér afslappaðri veitingastað en L´Education sem er í nágrenni við Ráðhústorgið. Hér ríkir sannkölluð frönsk bistro stemmning og setið er við lítil borð með rauðköflóttum dúkum. Hér er borinn á borð ekta franskur sveitamatur án nokkurrar tilgerðar og vínin eru oftar en ekki drukkin úr ósamstæðum glösum. Verðið er sanngjarnt og það er óhætt að mæla með hádegismatseðlinum fyrir þá sem vilja eitthvað allt annað en enn eina samlokuna með hrúgu af rauðlauk.
Heimasíðan Staðsetning

Brdr Price – Bræðurnir Adam og James Price slógu í gegn sem sjónvarpskokkar í Danmörku. Nú eiga þeir veitingastað við Rosenborgarslottið og í vor bætist annar við í Tívólí. Pabbi Price var líka þekktur matgæðingur og sá sparaði ekki smjörið. Það gera bræðurnir ekki heldur og maturinn í þáttunum og á veitingastöðunum er ekkert léttmeti. Túristi borðaði í ódýrari hluta veitingastaðarins sem kallast Spisekøkkenet. Þar kosta aðalréttirnir um 175 danskar (ca. 3500 íslenskar) og stendur valið þá á milli fiskbaka, pottrétta og veglegrar steikarsamloku. Þó þetta hljómi hversdagslega þá er þessum réttum lyft upp á hærra plan í eldhúsi bræðrana og því óhætt að mæla með heimsókn í þessa fallegu salarkynni við Rosenborg. Eftir klukkan átta eru oft laus borð en annars borgar sig að panta (sjá heimasíðu). Í Spisestuen eru réttirnir stærri og kosta frá 195 til 290 krónur. Matseðillinn breytist reglulega og því borgar sig að skoða heimasíðuna áður en borðið er pantað.
Heimasíðan

Noma – Þriðji besti veitingastaður heims skv. Michelin matarbíblíunni deilir húsakynnum með íslenska sendiráðinu. Hér er nær eingöngu stuðst við norrænt hráefni og ætla eigendur staðarins, í samstarfi við Norrænu ráðherranefndina, að nýta sér meðbyr staðarins til að markaðssetja norræna matarmenningu út um allan heim. Þeir sem láta verðið ekki aftra sér munu án efa fá framúrskarandi mat og þjónustu enda er kvöldstund á Noma upplifun í sérflokki. Gera þarf ráð fyrir að panta borð með minnst þriggja mánaða fyrirvara. Matseðill kvöldsins kostar 900 dkr.
Heimasíðan Borðapantanir Staðsetning

Kaffihús

The Laundromat café – Morgunmaturinn og hamborgaranir á þessum kaffihúsum Friðriks Weisshappel hafa verið valin bæjarins bestu af heimamönnum. Það eitt og sér eru góð meðmæli. Kaffihúsið á Norðurbrú er staðsett í einni líflegustu götu hverfisins, Elmegade, þar sem fjöldi verslana og minni veitingastaða eru til húsa. Á Austurbrú er leikaðstaða fyrir börn.
Heimasíðan Staðsetning Norðurbrú Staðsetning Austurbrú

Paludan – Notalegt bókakaffi í göngugötu við Kaupmannahafnarháskóla og dómkirkjuna (Frúarkirkjuna).  Matseðillinn er einfaldur og aðaláherslan lögð á sætabrauð með kaffinu sem er afbragðsgott.
Staðsetning

The Royal Café – Flottasta kaffihús heims að mati spænska dagblaðsins Le Figaro. Það er kannski orðum aukið en vissulega hefur hönnun staðarins heppnast vel, þjónustan er góð og veitingarnar sömuleiðis. Hér eru danskar mubblur, leirtau og listmunir í hávegum höfð enda er kaffihúsið í húsasundi á milli verslunar Georg Jensen og Illum bolighus á Strikinu. Aðaltrompið á matseðlinum er Smushi, sambland af smurbrauði og sushi. Verðlagið er í hærri kantinum.
Heimasíðan Staðsetning

The Coffee factory
– Einfalt kaffihús fyrir þá sem eru í leit að góðu kaffi og croissant. Verðlagið sennilega með því lægsta sem finnst í nágrenni við Kongens Nytorv.
Heimasíðan Staðsetning

Sporvejen – Það má segja að þessi óvenjulegi hamborgarastaður sé vel falinn á hinu huggulega Grábræðratorgi, mitt á milli tveggja vinsælla steikhúsa. Sporvognen tekur heiti sitt bókstaflega enda er staðurinn innréttaður eins og sporvagn og gestirnir sitja á bekkjum í frekar þröngum básum. Látið það þó ekki slá ykkur út af laginu því þetta er mjög sjarmerandi staður og góðir hamborgarar á sanngjörnu verði. Hamborgarinn kostar frá 52 dkr. Á góðviðrisdögum er einnig hægt að sitja fyrir utan staðinn.
Heimasíðan Staðsetning

Sjá meira hér: 5 góð kaffihús í Kaupmannahöfn

Gagnlegt

Samgöngur

Það er auðvelt að komast leiðar sinnar í Kaupmannahöfn gangandi og hjólamenningin þar er víðfræg. Mörg hótel bjóða gestum sínum afnot af reiðhjólum en þau má einnig leigja við helstu lestarstöðvar borgarinnar, sjá hér.

Strætisvagnar keyra út um alla borg og metrókerfið er auðvelt í notkun. Upplýsingar um ferðir þeirra má nálgast hér en slegið er inn nafn þess staðar sem haldið er frá og áfangastaðar og finnur síðan þá hvernig auðveldast er að fara á milli. Þeir sem ætla að nýta sér almenningssamgöngur borgarinnar ættu að kaupa sér afsláttarkort, Klippekort. Fargjaldið verður þá næstumí helmingi ódýrara en þegar keyptur er stakur miði.

Það er tilvalið að kaupa kortið í afgreiðslu DSB á Kastrup flugvelli (í enda salarins sem komið er inní þegar gengið er í gegnum tollhlið við komu) og nota það til að ferðast með metró inn í miðborgina frá flugvellinum (ferðin tekur korter). Kortin eru líka seld í flestum sjoppum, t.d. verslunum 7-11 sem eru víða í Kaupmannahöfn. Ódýrasta kortið kostar 130 dkr. og dugar þeim sem ekki ætla út fyrir borgina. Einn fullorðinn þarf að stimpla tvisvar fyrir farið frá flugvellinum og niður í bæ en það nægir að stimpla þrisvar ef tveir fullorðnir ferðast saman. Gular stimpilvélar eru á öllum lestarstöðvum og við innganginn í strætisvögnunum. Það er frítt fyrir 12 ára og yngri í strætó og metró.

Greiðslukort

Eins furðulegt og það kann að hljóma þá getur það reynst þrautinni þyngri að nota erlend greiðslukort þegar komið er út fyrir miðborg Kaupmannahafnar. Það er því gott ráð að hafa reiðufé í vasanum, sérstaklega ef versla á í matvöruverslunum. Hraðbankar eru mjög víða.

Hótel

Þessi leitarvél ber saman verð á nær óteljandi hótelbókunarsíðum. Athugaðu að þú getur leitað eftir hótelum á ákveðnu svæði og einnig flokkað niðurstöðurnar eftir hótelstjörnum, umsögnum gesta og fleira.

Bílaleiga

Hér geturðu gert verðsamanburð á bílaleigubílum í Kaupmannahöfn