London

  • Almennt
  • Sjá og gera
  • Matur og drykkur
  • Gagnlegt
  • Hótel

Almennt

London er sannkölluð stórborg þar sem möguleikarnir á að gera sér glaðan dag virðast óendanlegir. Það er hægur vandi að heimsækja borgina aftur og aftur án þess að endurtaka sig.
Margt af því sem hæst ber í tónlist, kvikmyndum og tísku á rætur að rekja til London og fótboltinn er hvergi betri. Fólk flykkist því til borgarinnar til að berja augum þá staði sem hafa persónulega merkingu fyrir það, til dæmis gangbraut við Abbey Road eða fótboltaleikvang.

Hverfi borgarinnar hafa hvert sitt sérkenni. Í West End er fjörugt leikhúslíf, í Soho fjölbreytt mannlíf með hommobörum og ýmsum neðanjarðarkúltur á meðan ýmis konar sérverslanir og innflytjendur setja svip sinn á East End. Í City slær hjarta fjármálalífsins og þar er allt það sem sem fólk með dýran smekk girnist. Í Chelsea og Knightbridge eru heimsþekktar verslanir og fótboltaklúbbar á meðan Notting Hill býður upp afslappaða hverfisstemmingu með fjölda skemmtilegra verslana og veitingastaða. Þeir sem vilja komast af malbikinu geta leitað skjóls í Hyde Park í Kensington. Í Westminster og South Bank má  svo finna helstu kennileiti borgarinnar.
Neðanjarðarlestakerfi borgarinnar er mjög gott og auðveldar ferðamönnum lífið. Tveggja hæða strætisvagnar fyrir ferðamenn eru líka góð leið til að skoða sig um og svo er nauðsynlegt að setjast upp í svartan breskan leigubíl einu sinni í hverri ferð.

Þótt veðrið leiki mann grátt er engin ástæða til að örvænta. Bresku pöbbarnir henta einkar vel til að bíða af sér verstu skúrina. Söfn borgarinnar eru einnig í heimsklassa og á mörg þeirra kostar ekkert inn.

Sjá og gera

Tate nútímalistasafnið er til húsa í mjög tilkomumikilli byggingu sem upprunalega var byggð utan um heljarstórt orkuver. Í dag geymir húsið klassísk verk eftir frægustu listamenn síðustu aldar. Þeir sem standa fremst á sínu sviði í dag fá líka að láta ljós sitt skína, t.a.m. Ólafur Elíasson.
Frítt inn nema á sérstaka viðburði
Opið: Frá klukkan tíu til sex alla daga (opið til kl. 22 föstudaga og laugardaga)
Tube: Southwark/ St. Paul’s

Saatchi galleríið keppist við að vera með puttana á púlsinum með sýningum á verkum fólks sem er að ná á toppinn. Safnið flutti í glæsilegt slott í Chelsea hverfinu haustið 2008 og líkt og á öllum betri söfnum er hægt að borða góðan mat og versla í leiðinni.
Frítt inn.
Opið: frá kl. 10 til 18 alla daga.
Tube: Sloane Square/Victoria

British Museum rekur sögu mannkynsins síðustu tvær milljónir ára. Hér er gífurlegt magn stórmerkilegra hluta til sýnis og hafa upprunalönd margra þeirra gert tilkall til þeirra í gegnum árin. Til dæmis vilja Grikkir að munir sem teknir voru úr Parþenon hofinu á Akrópólisarhæð verði skilað. Múmíurnar eru hápunktur heimsóknarinnar fyrir marga af yngstu gestum safnsins.

Frítt inn.

Opið: 10 til 17:30 alla daga en til 20:30 á fimmtudögum og föstudögum.
Great Russell Street
Tube: Russell Square/ Holborn/ Tottenham Court Road

Tower bridge er eitt af kennileitum borgarinnar. Þeir sem vilja kíkja á inniviði turnanna tveggja geta fengið að kíkja inn gegn sjö punda gjaldi. Útsýnið úr göngubrúnni sem tengir turnana saman er glæsilegt og er vel heimsóknarinnar virði. Um það bil hundrað sinnum á ári er brúargólfið opnað fyrir skipaumferð um Thames ánna. Hér má sjá hvenær er mögulegt að verða vitni að því.
Tower Bridge Road
Tube: Tower Hill/ London Bridge

The London Eye – Þetta risavaxna parísarhjól snýst svo hægt að gestirnir stíga um borð án þess að hjólið stöðvist. Hér gefst gott tækifæri til að virða borginna fyrir sér jafnt að degi sem kveldi en þeir reyndustu segja útsýnið best við sólsetur. Ferðin tekur hálftíma.
Aðgangseyrir: 17,5 pund fyrir 16 ára og eldri, 8,75 pund fyrir 4 til 15 ára en frítt fyrir fyrir börn yngri en 4 ára.
Westminster Bridge Road
Tube: Waterloo/ Westminster

Vaktskipti lífvarða hennar hátignar á morgnanna fara fram með miklum bravúr. Hljómsveit leikur hefðbundna marsa eða jafnvel þekkt popplög á meðan mennirnir í rauðu jökkunum með bjarnarskinshúfurnar taka sporin sín. Skiptin fara fram klukkan ellefu á morgnana en klukkutíma fyrr á sunnudögum. Ef illa viðrar er seremónían oft flautuð af.
Heimasíða lífvarðanna er hér.
Buckingham Palace
Tube: Victoria Station/ Green Park
Sjá á korti

Camden town er ein helsta uppeldisstöð breskra poppara og listamanna og hér hafa þeir margir hverjir keypt sér notaðar gallabuxur og drukkið bjór áður en heimfrægðin knúði dyra. Flóamarkaðurinn er margrómaður og laðar að sér ungt fólk og þá sem meðvitaðir eru um nýjustu strauma og stefnur í tísku- og tónlistarbransanum.
Chalk Farm Road
Tube: Camden Town eða Chalk Farm

Matur og drykkur

Morgunmatur – Það er viðeigandi að borða klassískan enskan morgunmat í húsakynnum sem þykja það merkileg að þau hafa verið friðuð. Pellici´s (Tube: Bethnal Green) er einn slíkra staða og hefur verið í eigu sömu fjölskyldunnar í rúma öld.
Við sem aldrei kynntumst bankalífinu í London á tíma útrásarinnar getum borðað morgunmatinn á The Wolseley (160 Piccadilly, Tube: Green Park)  en sá veitingastaður er til húsa í friðuðu bankaútibúi. Skammturinn kostar 13,75 pund og ætti að duga sem morgunmatur, hádegismatur og forréttur með kvöldmatnum. Breads Etcetera (127 Clapham High Street) er metnaðarfullt bakarí í Clapham hverfinu. Þar er líka boðið upp á margs konar gerðir af morgunmat. Ódýrasti rétturinn er á 3,55 pund og brauðristar á öllum borðum fyrir þá sem vilja ristað brauð með sultu.

Woburn Walk – Í þessa fallegu götu hópast stúdentar og hefðbundið launafólk í hádegishléinu eða í kaffipásunni. Hér veit það að maturinn er ódýr en jafnframt góður. Umhverfið hefur líka sitt að segja enda hefur götumyndin lítið breyst síðan á Viktoríutímabilinu og hafa því ófáir þættirnir og bíómyndirnar verið teknar upp við Woburn Walk. Tube: Russel Square.

Borough markaðurinn, Stoney street – Þar sem kokkarnir versla er okkur hinum óhætt. Á Borugh markaðinum halda matarnördar borgarinnar sig og þar er hægt að kaupa ferskt hráefni til að taka með heim. Einnig má alltaf fá að smakka á því sem til sölu er. Þeir sem verða svangir geta líka fengið nýlagaðar Foie gras samlokur á þrjú pund eða annan skyndibita í betri kantinum. Verðlagið er mjög mismunandi en oftast fæst mikið fyrir peninginn.
Markaðurinn er opinn á fimmtudögum frá 11 til 17, föstudaga frá 12 til 18 og laugardaga frá 8 til 17.
Tube stöð: London Bridge

St. John Bar & Restaurant
– Smithfield er gamalt iðnaðarsvæði þar sem nú má finna skemmtilega veitingastaði og bari. St. John sérhæfir sig í innmat en þeir sem ekki hafa áhuga á svínahjörtum eða lifur geta örugglega fundið eitthvað annað á matseðlinum. Aðalréttirnir kosta á bilinu 16-20 pund. Það fer vel um hópa á þessum stað og með tveggja daga fyrirvara er hægt að panta heilgrillaðan grís. Á barnum er líka hægt að borða léttari rétti.

The Garrison (99-101Bermondsey Street) – Pöbbar í Bretlandi sem leggja metnað sinn í matseldina ganga undir nafninu Gastropub. The Garrison er einn þessara staða og hann nýtur mikilla vinsælda. Hér fá gestirnir alvöru pöbbastemmingu beint í æð á meðan þeir borða steikur sem oftar en ekki eru kryddaðar að ítölskum sið og bornar fram með nýjum kartöflum, sveppum og gulrótum. Aðalréttir á kvöldin kosta upp undir 16 pund en hádegismatseðillinn er ódýrari.

Santo, 299 Portobello Road – Það geta allir vel við unað á góðum mexíkóskum matsölustað og jafnvel matvöndustu börn finna eitthvað við sitt hæfi. Veitingastaðurinn Santo í Notting Hill er ljómandi fínn veitingastaður en ekki mexíkósk túristagildra þar sem gólandi gítarleikari truflar borðhaldið. Aðalréttir kosta á bilinu 6 til 16 pund en 2 til 5 pund á barnamatseðlinum.
Opið þri til fim frá 12-15 og 18-22, fös til sun frá 12 til 23:30 (sun lokar kl. 22). Á föstudögum og um helgar er borinn fram morgunmatur til klukkan 17.

Tom´s Kitchen, 27 Cale Street – Time out tímaritið valdi morgunmatinn á Tom´s Kitchen þann besta í borginni árið 2008. Það er líka greinilegt að hér er mikið lagt upp úr fyrstu máltíð dagsins. Á matseðlinum er enskur og amerískur morgunmatur auk fjölda stakra rétta. Verðið er í hærri kantinum og gera má ráð fyrir að morgunmatur með drykkjum kosti um 15 pund á mann. Í hádeginu og á kvöldin er matseðillinn líka fjölbreyttur og því þarf ekki að ríkja einhugur í hópnum um hvað skal borða þegar sest er að snæðingi. Hamborgarar og samlokur kosta um 10 pund en steikurnar um og yfir 20 pund.
Opnunartímar á virkum dögum: 7 til 10, 12 til 15 og 18 til 23. Um helgar: 10 til 15 og 18 til 23.

Gagnlegt

Samgöngur

Þeir sem eru óvanir að ferðast með neðanjarðarlestum ættu að kynna sér hvernig kerfið í London virkar til að geta nýtt það sem best. Þetta er langbesta og óýrasta leiðin til að komast hratt á milli staða. Sérstaklega ef keypt er Oyster Card en handhafar þess fá alltaf ódýrasta fargjaldið á milli staða. Kortið virkar eins og frelsiskort í síma og hægt er að panta kort á netinu eða kaupa á flugvöllunum. Travelcard er einnig góður kostur en það gildir í ákveðna daga.

Frá Gatwick og Heathrow flugvelli er hægt að taka hraðlestir niður í bæ og kostar stakt fargjald 16,5 pund í báðum tilvikum. Ferðin frá Heathrow til Paddington lestarstöðvarinnar tekur korter en það tekur hálftíma að fara frá Gatwick að Victoria stöðinni. Það er eiinnig hægt að taka neðanjarðarlest frá Heathrow (tekur hátt í 50 mín.). Hér eru frekari upplýsingar um samgöngur frá Gatwick.

Verðlag

Flestir veitingastaðir bæta 12,5% þjónustugjaldi við reikninginn.

Hótel

Hér getur þú gert verðsamanburð á alls konar gistingu í London og nágrenni og bókað besta kostinn. Hægt er að velja hótel eftir ákveðnum hverfum, stjörnum og verðflokkum og eins er hægt að skoða einkunnagjöf gesta. Þessi öfluga leitarvél auðveldar þér því að fá meira út úr fríinu í London.

Bílaleiga