Nazar ætlar að tvöfalda umsvif sín næsta sumar

Íslenskir farþegar Nazar bókuðu í flestum tilfellum fjögurra og fimm stjörnu gistingu. Kemal Yamanlar, framkvæmdastjóri Nazar, er ánægður með viðtökurnar en ekki samskiptin við íslensk flugfélög og þótti flókið að hefja rekstur hér á landi. MEIRA

 

 

Í ár hóf norræna ferðaskrifstofan Nazar starfsemi hér á landi og bauð upp á sólarlandaferðir til Tyrklands. Íslenskir farþegar Nazar bókuðu í flestum tilfellum fjögurra og fimm stjörnu gistingu. Kemal Yamanlar, framkvæmdastjóri Nazar, er ánægður með viðtökurnar en ekki samskiptin við íslensk flugfélög og þótti flókið að hefja rekstur hér á landi.

Hvernig var sumarið fyrir Nazar?

Það gekk mjög vel. Upphaflega var markmiðið að selja ferðir til 1.750 gesta en við bættum við brottförum í lok sumars og samtals fóru því um 2.500 farþegar með okkur frá Íslandi. Við eigum eftir að gera upp árið en ég geri ráð fyrir að Íslandsstarfsemin komi út í plús sem er mjög gott á fyrsta starfsárinu. Viðtökurnar voru því góðar og sem dæmi má nefna að það fylgjast sextán þúsund Íslendingar með okkur á Facebook sem er meira en á hinum Norðurlöndunum fyrir utan Svíþjóð. Á hinum mörkuðunum höfum við hins vegar verið í allt að áratug.

Þið voruð með margar ferðir á niðursettu verði í byrjun sumars. Var framboðið of mikið?

Júlí kom okkur á óvart þar sem við héldum að það væri mánuður sem margir Íslendingar vildu fara í sumarfrí til útlanda en svo var ekki. Kannski vilja Íslendingar, líkt og Finnar, vera heima í júlí. Norðmenn kjósa hins vegar að ferðast út í þeim mánuði.

Telurðu að með tilkomu Nazar hafi orðið breytingar í ferðaskrifstofugeiranum á Íslandi?

Það er erfitt að segja þegar maður situr í öðru landi og getur ekki fylgst með islenskum fréttum. Það virðist vera sem þeir sem ferðuðust með okkur í ár hafi verið ánægðir og tala um að við höfum komið með eitthvað nýtt. Antalya er eitt af aðalferðamannasvæðum Evrópu og við erum þau einu með ferðir þangað. Ég hitti marga Íslendinga í ferðunum í sumar og fólk virtist sammála um að gæðin væru mikil og verðið viðráðanlegt. Það er markmið okkar að Íslendingar upplifi sig sem Íslendinga í ferðunum og því bjóðum við upp á íslenska fararstjóra og barna- og unglingaklúbba. Íslenskir farþegar kosta því meira þar sem það eru færri farþegar um hvern íslenskan fararstjóra en þá frá hinum Norðurlöndunum.

Þið bjóðið aðallega upp á hótel með öllu inniföldu. Vilja Íslendingar þess háttar gististaði?

Þau tíu hótel sem Íslendingar bókuðu oftast eru öll með allt fæði innifalið í verðinu og átta af þeim eru fjögurra eða fimm stjörnu. Sextíu prósent íslensku gestanna dvöldu á þeim þremur hótelum þar sem við erum með íslenskt barnaprógramm eins og Pegasos World.

Hvernig var að hefja starfsemi hér í samanburði við hin Norðurlöndin?

Út frá kúnnunum þá er það mjög svipað og annars staðar. Allir vita hvað hótel sem eru með allt innifalið standa fyrir og við þurftum ekki að kynna það fyrir Íslendingum. Það var hins vegar annað að eiga við íslensk flugfélög og hið opinbera. Það virtist vera sem það flæktist fyrir að við værum ekki með skrifstofur á Íslandi heldur stjórnuðum öllu frá skriftstofunni í Malmö, líkt og við gerum á öðrum mörkuðum. Við fengum mjög óskýr svör í byrjun en samskiptin bötnuðu þó þegar við fórum að auglýsa og talað var um okkur í fjölmiðlum. Sumir af þeim sem við vorum í sambandi við í upphafi sögðu okkur síðar að þeir hefðu pantað ferðir með okkur í sumar.

Samskiptin við Icelandair og WOW air eru hins vegar erfið og þau svara aldrei fyrirspurnum okkar. Við viljum gjarnan bjóða upp á ferðir til Malaga en þó ekki með eigin leiguflugi líkt og við gerum með ferðirnar til Tyrklands og því ákjósanlegt að fljúga með íslensku félögunum.

Það er nú þegar hægt að bóka hjá ykkur ferðir fyrir næsta sumar. Eru margir sem panta með svona löngum fyrirvara?

Í dag hafa 79 ferðir selst fyrir næsta sumar af þeim fimm þúsund sem við stefnum á að selja. Þetta er ágætis byrjun enda ekki oft sem fólk kaupir svo langt fram í tímann. Næsta sumar munum við fljúga fram til loka september og bæta við ferðum ef eftirspurnin verður fyrir hendi.

Nazar er í eigu TUI, eins stærsta ferðaskipuleggjanda, í heimi. Telurðu að fyrirtækið stefni á aukin umsvif á Íslandi?

Íslenski markaðurinn er sennilega of lítill fyrir TUI og ég kannast ekki við að það sé á teikniborðinu hjá fyrirtækinu að hefja starfsemi hér. Hins vegar er Ísland áhugaverður áfangastaður fyrir farþega TUI frá öðrum löndum og ég mun skoða þann möguleika ásamt kollegum mínum.

TENGDAR GREINAR: Ríflega 9 af hverjum 10 sætum seldust hjá VitaMetsumar hjá HeimsferðumSumarið stóð undir væntingum hjá Úrval-Útsýn