Ódýrara að fljúga til London og Kaupmannahafnar

Enn lækka fargjöldin til Lundúna og farið til Kaupmannahafnar er fimmtungi lægra nú en á sama tíma í fyrra.

Fyrir ári síðan kostaði að lágmarki 32.504 krónur að kaupa far héðan til London í lok nóvember. Í dag er miðinn um níu þúsund krónum ódýrari og nemur lækkunin tæpum þrjátíu prósentum. Það er easyJet sem er með ódýrustu fargjöldin til Lundúna nú líkt og í síðustu verðkönnun Túrista sem gerð var í ágúst. Þá hafði farið hjá easyJet lækkað um nærri helming milli ára, um þriðjung hjá WOW air og fjórðung hjá Icelandair. Sætin hjá íslensku félögunum í vélunum til London hafa einnig lækkað töluvert í verði núna eða um nærri fimmtung hjá WOW air og tíund hjá Icelandair.

Kaupmannahafnarflugið einnig á niðurleið

Ef ferðinni er heitið til höfuðborgar Danmerkur í lok nóvember kostar um fimmtungi minna að bóka far hjá Icelandair og WOW air í dag en í fyrra. Minni sveiflur eru í verði á flugmiðum til Oslóar eins og sjá má á súluritinu hér fyrir neðan.  

 

Hér má sjá hvaða félög bjóða ódýrustu fargjöldin eftir fjórar vikur til Kaupmannahafnar, London og Oslóar.


Í þessum mánaðarlegu könnunum Túrista eru fundin lægstu fargjöldin, báðar leiðir, innan ákveðnar viku hjá hverju félagi fyrir sig. Gert er ráð fyrir að lágmarksdvöl í útlöndum sé tvær nætur. Farangurs-, bókunar- og kreditkortagjöld eru tekin með í reikninginn (sjá samantekt yfir aukagjöld hér). Verð voru fundin á heimasíðum félaganna 3. september 2014 og 2013 og 5. september 2012.

HÓTEL: Berðu saman verð á ódýrum hótelum út um allan heim
BÍLALEIGUBÍLAR: Bókaðu bílaleigubíl fyrir sumarfríið