Hræódýrir flugmiðar í lok vetrar

Amager Strandpark

Þeir sem ferðast með lítinn farangur geta auðveldlega komist út fyrir lítið eftir nokkra mánuði þegar hitastigið fer hækka á ný í nágrannalöndunum.

Á vorin eykst úrval ferðaskrifstofa af borgarferðum og það eru því margir sem bregða sér í stutta utanlandsferð á þessum árstíma. Þar sem erlend lágfargjaldaflugfélög hafa aukið umsvif sín hér á landi umtalsvert þá er í dag hægt að finna þónokkuð af farmiðum út í heim í mars, apríl og maí fyrir nokkur þúsund krónur. Þeir sem geta skipulagt ferðalagið með löngum fyrirvara geta því flogið út fyrir lítið.

Ódýrast til dýra landsins

Efnahagur Svisslendinga er í góðu jafnvægi og gengi frankans þeirra er hátt. Það er því ekki ódýrt að vera ferðamaður í landinu en samt ekki dýrara en til dæmis í Skandinavíu eða París eða London. Þú borgar til að mynda álíka mikið fyrir borða kjötbollur í óperukjallaranum í Stokkhólmi og fyrir ostafondú út á Genfarvatni. Til svissnesku borgarinnar má finna far með easyJet í mars á rúmar sex þúsund krónur og báðar leiðir því á innan við fjórtán þúsund. Reyndar bætist um átta þúsund króna töskugjald ef ferðast er með meira en handfarangur. Ódýrustu fargjöld breska félagsins til Basel eru álíka lág.

Norskir regndropar

Í Bergen er meðalhitinn yfir veturinn aðeins hærri en í öðrum norskum borgum en ókosturinn er sá að það rignir reglulega á borgarbúa. Þeir sem láta skúrir ekki á sig fá geta heimsótt frændur okkar í vor og aðeins borgað tæpar fimmtán þúsund krónur fyrir farið báðar leiðir. Það er flugfélag heimamanna, Norwegian, sem býður svona vel og farmiðar félagsins til Oslóar eru ögn dýrari. Norwegian, líkt og easyJet, rukkar hins vegar fyrir innritaðar farangur. Það er því annað hvort að sitja í regngallanum og stígvélunum í vélinni eða borga aukalega fyrir stóra tösku.

Sjálfstæðir eða ekki

Það gæti farið svo að Edinborg verði bráðlega höfuðborg í sjálfstæðu Skotlandi. Hvað sem því líður þá er hægt að finna töluvert af flugmiðum til borgarinnar á innan við tíu þúsund krónur í vor með easyJet og sömu sögu er að segja um fargjöld félagsins til Bristol og Belfast.

Aston Villa í vor

Fyrir nærri tveimur áratugum síðan spiluðu leikmenn Aston Villa í Henson búningum en skiptu svo yfir í Hummel. Til heimaborgar liðsins mun hið breska Flybe fljúga frá Keflavík í allan vetur en það er aðeins pláss fyrir rúmlega áttatíu farþega í þotum félagsins. Ódýrasti miðinn, fram og tilbaka, er á um 18 þúsund. Það er álíka og það kostar að fara aðra leiðina með Icelandair til borgarinnar. Hins vegar rukkar íslenska félagið ekki fyrir töskurnar líkt og það breska gerir.

Sjá hér hver töskugjöld flugfélaganna eru.

TENGDAR GREINAR: Hápunktarnir í GenfVonast til að sjá marga Íslendinga í brekkunumDagstúrar frá Genf