París

  • Almennt
  • Sjá og gera
  • Matur og drykkur
  • Hótel

Almennt

Flest okkar eiga aðeins eftir að verja nokkrum dögum ævinnar í París. Það er eiginlega synd að fá ekki meiri tíma til að kynnast þessari spennandi borg. París hefur ótrúlega sögu að geyma og hefur verið heimavöllur snillinga á flestum sviðum mannlífsins. Það er mikilvægt að ætla sér ekki um of á stuttum tíma heldur einbeita sér frekar að fáum hlutum og njóta augnabliksins. Gefið ykkur frekar tíma á fallegu götukaffihúsi í stað þess að bíða í biðröðum á vinsælustu ferðamannastöðunum.

Það er tilvalið að byrja ferðina í Latínuhverfinu og fá hefðbundnu Parísarstemmninguna beint í æð þar sem heimamenn og ferðamenn rölta um göturnar, þjónar kaffihúsanna skjótast milli borða og kaupmenn raða í hillur lítilla sérverslana. Í Montmartre hverfinu má feta í fótspor listamanna eins og Van Gogh og Picasso og svo má njóta fjölbreytts mannlífsins í Mýrinni. Áhugafólk um tísku getur síðan fengið eitthvað fyrir sinn snúð á Saint-Germain-des-Prés þar sem helstu tískuhús Frakka eru til húsa.

Icelandair flýgur til Parísar allt árið um kring.

Sjá og gera

Eiffel turninn – Þessi 120 ára gamli turn er án vafa helsta kennileiti Parísar. Það er því ekki að undra að árlega sækja hann heim tæplega sex milljónir manna. Það er þess virði að leggja á sig smá bið eftir aðgangi að lyftum eða tröppum og fara upp í turninn. Bæði til að njóta útsýnisins yfir borgina og til að fá betri mynd af turninum. Það kostar 4,5 – 13 evrur að fara uppí turninn, allt eftir því hversu hátt fólk vill fara. Börn borga minna en ekkert ef þau eru yngri en fjögurra ára.
Metró: Bir Hakeim, Trocadéro, Dupleix eða École Militaire
Staðsetning

Sigurboginn – Við enda breiðgötunnar Champs-Élysées stendur þetta virðulega mannvirki. Napóleon lét reisa bogann í tilefni af sigri hers síns í bardaganum við Austerlitz árið 1805 og var hann tilbúinn þrjátíu árum síðar. Það er þess virði að gefa sér tíma til að rölta rólega upp Champs-Élysées í átt að turninum og virða fyrir sér allar þær tignarlegu byggingar sem við götuna standa. Ofan á sigurboganum er útsýnispallur og kostar 9 evrur upp en frítt fyrir yngri en 18 ára.
Metró: Charles-de-Gaulle Étoile
Staðsetning

Garðarnir – Einn af helstu kostum Parísar eru almenningsgarðarnir sem finna má á ólíklegustu stöðum í borginni. Það er tilvalið að nýta sér aðstöðuna og koma sér fyrir í einum garðana með nesti (t.d. baguette og osta) og njóta lífsins að hætti heimamanna. Jardin de la Vallée Suisse er lítill garður í nágrenni við Champs-Élysées og í Jardin du Luxembourg er nóg pláss.

Louvre safnið – Þekktasta og stærsta listasafn Frakka er klárlega heimsóknarinnar virði enda er hér marga dýrgripi að sjá. Þekktasta verk safnsins er án efa Móna Lísa sem hangir bakvið skothelt gler. Safnið er opið alla daga nema þriðjudaga og aðgangur er ókeypis fyrsta sunnudag hvers mánaðar. Annars kostar 9-14 evrur inn, allt eftir því hversu mikið fólk vill sjá. Yngri en 18 ára fá frítt inn.
Metro: Palais-Royal-Musée du Louvre
Staðsetning

Centre Pompidou
og Musée d’Orsay eru söfn fyrir þá sem vilja skoða list sem stendur þeim örlítið nær í tíma en sú sem Louvre hefur upp á að bjóða. Á Pompidou er lögð áhersla á list frá fyrri heimsstyrjöld og til dagsins í dag en Musée d’ Orsay brúar bilið milli þessara fyrrnefndu safna og sýnir hluti frá miðri nítjándu öld og fram að upphafi fyrri heimstyrjaldarinnar.
Staðsetning Centre Pompidou
Staðsetning Musée d’Orsay

Sacré-Coeur – Þessi hvíta kirkja fer ekki framhjá gestum borgarinnar þar sem hún stendur á toppi Montmartre hæðarinnar. Eins og gefur að skilja er útsýnið frá kirkjutröppunum yfir borgina gott og það eitt og sér er heimsóknarinnar virði. Í Montmartre hverfinu er fjöldinn allur af skemmtilegum götum, fullum af kaffihúsum, veitingastöðum og verslunum sem gaman er að kanna. Kirkjan sjálf er opin fyrir gesti frá kl 9-17 og kostar 5 evrur inn. Þar getur m.a. að líta stærstu kirkjuklukku landsins og útsýnið úr kirkjuturninum er stórbrotið. Metrókerfið nær ekki alveg að kirkjunni en þeir sem vilja hvíla lappirnar geta tekið kláf upp bratta brekkuna.
Metro: Anvers
Staðsetning

Notre Dame – Dómkirkjan í París hefur staðið eins og klettur í borginni síðan á fjórtándu öld. Þó mikið hafi gengið á í höfuðstað Frakklands frá þeim tíma er kirkjan hér enn í sinni upprunalegu mynd. Þetta er ein elsta bygging borgarinnar og um leið miðpunktur landsins enda allar fjarlægðir reiknaðar út frá legu hennar. Það er vel þess virði að skoða kirkjuna og um að gera að virða hana fyrir sér frá öllum hliðum jafnt utan sem innan. Hún stendur opin alla daga ársins frá 8-18:45 og kostar ekkert inn, nema maður vilji fara upp í kirkjuturninum (8 evrur fyrir fullorðna).
Heimasíða http://www.cathedraledeparis.com/-English-
Metro: St-Michel Notre Dame eða Cité
Staðsetning

Matur og drykkur

L´Ebauchoir (43rue de Citeaux) – Hér ræður gamli skólinn ríkjum í matargerð og verðinu er stillt í hóf. Kúnnahópurinn er góð blanda af eldra fólki og stúdentum. Hádegismatseðillinn, þriggja rétta og drykkur, kostar 13,5 evrur virka daga. Aðalréttir á kvöldin kosta í kringum 30 evrur.
Metro: Faidherbe-Chaligny og Reuilly-Diderot
Staðsetning

Au Gourmand (17rue Moliére) – Það þykir undrun sæta hvernig eigandi þessa litla veitingastaðar getur haldið verðinu á þriggja rétta máltíð undir 30 evrum. Aðalréttirnir eru blanda af pasta-, kjöt- og fiskréttum ásamt því meðlæti sem hæfir árstíðinni.
Metro: Palais Royal, Musee du Louvre, Pyramide
Staðsetning

Bistrot Victoires (6 rue de la Vrillière) – Heimamenn fjölmenna í hádegishléinu á þennan sígilda matsölustað í Óperuhverfinu. Hér fást safaríkar steikur á 11 evrur og ljúffengir eftirréttir á 5 evrur. Á háannatíma má búast við bið eftir borði. Staðurinn er lokaður milli kl 15-19 á daginn.
Metro: Pyramides or Bourse
Staðsetning

Le Baron Rouge (1 rue Théophile Roussel) – Þessi huggulegi vínbar, í nágrenni við Bastilluna, er tilvalinn staður fyrir þá sem setja vínið í öndvegi. Vínlistinn telur um fimmtíu tegundir og hægt að fá glas af fínu víni fyrir 3,5 evru og minna. Á boðstólnum eru einnig smáréttir og brauð. Hverfið í kringum staðinn er mjög skemmtilegt og upplagt að kíkja á matarmarkaðinn við Place d’Aligre, Le Marché d’Aligre. Um helgar enda margir heimamenn markaðsferðina með vínglasi á einmitt þessum vínbar.
Metro: Ledru Rollin
Staðsetning

Gagnlegt

Hótel

Hér geturðu gert verðsamanburð á hótelum í París og pantað ódýrasta kostinn:

Bílaleiga