Ríflega 9 af hverjum 10 sætum hjá VITA seldust í sumar

Kaupmáttur fjölskyldufólks hefur aukist að mati starfsmanna ferðaskrifstofunnar VITA og sala á sumarferðum félagsins gekk vel. Guðrún Sigurgeirsdóttir, framleiðslustjóri hjá VITA, segir markaðinn hér á landi vera að stækka. MEIRA

 

 

Kaupmáttur fjölskyldufólks hefur aukist að mati starfsmanna ferðaskrifstofunnar VITA og sala á sumarferðum félagsins gekk vel. Guðrún Sigurgeirsdóttir, framleiðslustjóri hjá VITA, segir markaðinn hér á landi vera að stækka.

Hvernig gekk sumarið? Stóð salan undir væntingum?

Salan gekk vel og við seldum frá 90 til 95% af sætaframboði sumarsins. Rigningin spilaði að sjálfsögðu inní þar sem margir voru viðþolslausir að komast úr landi þegar tíðin var blaut. Við finnum líka aukinn kaupmátt hjá fjölskyldufólki.

Bodrum í Tyrklandi var nýr áfangastaður hjá ykkur í sumar. Sérðu fram á að þið fjölgið ferðum þangað næsta sumar?

VITA hefur boðið ferðir til Bodrum á hverju sumri síðan 2009, að undanskildu sl. sumri og ekki hefur verið ákveðið hvort ferðum verði fjölgað næsta sumar.

Sólarlandaferðir til Ítalíu hafa ekki verið á boðstólum um árabil. Sérðu fyrir þér að Íslendingum bjóðist ferðir til Ítalíu næsta sumar?

Íslendingar virðast frekar sækja í borgir, mat og menningu á Ítalíu en hefðbundar strandferðir. Var einmitt að ræða þetta í morgun við umboðsaðila VITA á Ítalíu sem var að velta þessu fyrir sér. Hann benti mér á að Ítalía er dýrari en t.d. Spánn, Portúgal, Grikkland og Tyrkland. Hótelin eru gjarnan minni, ekki þessi risastóru hótelkompleksar sem finnast annars staðar og aðstaða á hótelum önnur. Ítölum finnst ekki endilega nauðsynlegt að hafa sundlaug, benda fólki á að sjórinn sé stærsta sundlaugin, sem hentar okkar fólki ekki endilega. Íslendingar eru meira að leiga sér hús í sveitum Toskana eða Umbriu og leigja þá beint.

Norræna ferðaskrifstofan Nazar hóf að sólarlandaferðir héðan í ár. Heldurðu að tilkoma Nazar hafi breytt markaðnum að einhverju leyti?

Samkeppnin jókst vissulega, en markaðurinn er jú að stækka.

Hefur vægi sólarlandaferða yfir sumarið minnkað í heildarframboði Vita?

Það minnkaði með minni kaupgetu en við finnum aukinn kaupmátt eins og áður sagði og munum haga okkar plönum í samræmi við það.

Vita er í eigu Icelandair Group en Icelandair hefur hætt flugi til Alicante og fækkað ferðum til Barcelona. Takmarkar þetta möguleika Vita á að bjóða upp á sólarlandaferðir eða munið þið í auknum mæli notast við flug frá öðrum flugfélögum yfir sumartímann?

Ef vélar Icelandair eru uppteknar í áætlunarflugi á sumrin kallar það vissulega á að VITA selji ferðir með öðrum flugfélögum á meðan háannatími Icelandair er í umferð yfir hafið milli Evrópu og Ameríku, en það hefur verið gert undanfarin sumur.

TENGDAR GREINAR: Metsumar hjá HeimsferðumSumarið stóð undir væntingum hjá Úrval-Útsýn