Poquitos
Í hinni fjörugu Capitol Hill er að finna þennan vinsæla stað fyrir þá sem vilja góðan mexíkóskan mat. Þjónustan er hröð og góð og staðurinn iðar af lífi enda þekktur fyrir veglega skammta og ljómandi kokteila. Taco og enchiladas á 10 til 15 dollara og stærri réttir á 17 til 24 dollara. Ódýrara í hádeginu og um helgar er boðið upp taco á „happy hour“ tilboði.
– Poquitos, 1000E Pike Street.
Walrus and the Carpenter
Við Ballard Avenue er að finna marga góða veitingastaði, bari og sérverslanir. Það er því þess virði að gera sér ferð í Ballard hverfið. Einn rómaðasti veitingastaður borgarinnar er þar að finna og hann hefur verið hlaðinn lofi síðan hann opnaði árið 2012. Þetta er ostrustaðurinn Walrus and the Carpenter og þar eru sjávarréttir í hávegum hafðir og hægt að fá alls kyns frumlegar útfærslur af ostrum, kræklingum og reyktum fiski. Kjötætur fá líka eitthvað fyrir sinn snúð. Það er ekki hægt að taka frá borð og því vissara að vera með plan b ef ekkert er laust. Blessunarlega deilir Walrus and the Carpenter húsakynnum með öðrum spennandi stað Chippy´s. Það er því ekki langt að fara ef ekki er pláss á einum af „10 bestu nýju veitingastöðunum í Bandaríkjunum“.
– Walrus and the Carpenter, 4743 Ballard Ave NW.
Melrose matartorgið
Svangir, kaffiþyrstir og partíglaðir fara upp á Capitol Hill til að ná áttum. Þar er ótrúlegt úrval af veitingastöðum, kaffihúsum og börum. Á stuttum kafla á Melrose Avenue (milli Pine and Pike St.) er Melrose Food Market til húsa. Samlokurnar á Homegrown eru lygilega góðar og allt lífrænt og lókal. Slátrarinn við innganginn fær mann til að öfunda þá sem hafa aðgang að eldavél í borginni og inni í horni er Sitka&Spruce, lítill og vinsæll veitingastaður. .
– Melrose Food Market, 1531E Melrose Avenue
Taylor Shellfish
Við hlið Melrose Food Market er þessi einfaldi ostrustaður. Hér situr fólk á háum stólum og sýpur ostrur og freyðivín. Fyrir utan veitingarnar sjálfar er allt mjög látlaust á þessum stað og gestirnir hversdagslegir til fara. Fyrir um 15 dollara færðu sjö mismunandi ostrur og óhætt að mæla með þeim kaupum.
– Taylor Shellfish, 1521 Melrose Avenue. Opið frá kl. 10 en lokað á mánudögum.
Pike Place Market
Matarmarkaðurinn við Elliot Bay er sennilega þekktasta kennileiti Seattle borgar. Smelltu hér til að sjá með hvaða básum og matsölustöðum Túristi mælir með á markaðnum.
Besti ísínn
Seattle er systurborg Bergen og það sem þessar tvær borgir eiga sameiginlegt er vætan. Veðrið hefur samt ekki nein áhrif á viðskiptin hjá Valdísi þeirra Seattle búa. Hér er fullt út úr dyrum allan ársins hring því margir vilja heimagerðan ís í vöfflu.
– Molly´s moon, 917E Pine Street.
Kaffi og kokteilar
Hideout
Fyrir gluggunum eru dökkar gardínur en við innganginn er lítið skilti sem segir að staðurinn sé opinn. Fyrir innan fylla svo kokteilþyrstir Seattle búar bekkina en barþjónar Hideout er þekktir fyrir að búa til ein bestu hanastél borgarinnar. Á háannatíma geta myndast 50 metra langar biðraðir við innganginn og því vissara að vera með plan-b ef þú kemst ekki inn.
– Hideout,
Wheelhouse Coffee
Í heimaborg Starbucks hefur kaffikeðjan tekið yfir annað hvert horn og stundum eru ekki nema 100 metrar á milli búða. Wheelhouse Coffee er eitt af fáum kaffihúsum sem blómstra í skugga Starbucks. Þetta kaffihús er aðeins út úr alfaraleið en göngutúrinn frá Seattle Space Needle er ekki svo langur.
– Wheelhouse Coffee, 2113 Westlake Avenue, www.wheelhousecoffee.com, lokað á sunnudögum.