Seattle

Seattle
  • Almennt
  • Sjá og gera
  • Matur og drykkur
  • Gagnlegt
  • Hótel

Almennt

Fjölmennsta borgin í norðvesturhluta Bandaríkjanna hefur ekki verið lengi á kortinu hjá ferðamönnum. En eftir að heimurinn féll fyrir rokktónlistinni, kaffinu og tækninni sem íbúar Seattle bera ábyrgð á þá hefur straumurinn legið borgarinnar við Elliot flóa.

Seattle er heimavöllur stórfyrirtækjanna Microsoft, Boeing, Amazon og Starbucks og efnahagur borgarinnar því góður. Það er því mikil gróska í veitingahúsalífinu, í menningunni, íþróttunum og verslanirnar eru fjölbreyttar. Ferðamenn í leit að borg til að verja nokkrum góðum dögum í verða því ekki sviknir af dvöl í Seattle.

Á landakorti virðist borgin vera óralangt í burtu frá Íslandi er flugtíminn þangað er þó aðeins tveimur tímum lengri en ef halda á til austurstrandar Bandaríkjanna.

Icelandair flýgur daglega til Seattle allt árið um kring

Mynd: Ferðamálaráð Seattle

Sjá og gera

Space Needle

Háir turnar laða oft til sín fjölda ferðamanna og það gerir hinn 184 metra hái geimpinni í Seattle líka. Hann stendur fyrir utan háhýsabyggð miðborgarinnar og því er ljómandi gott útsýni yfr bæjarstæðið, sjóin, vötnin og fjallgarðinn í kring. Það kostar 24 dollara upp í turninn (um 2.700 krónur) fyrir þrettán ára og eldri en matargestir á veitingastað turnsins, SkyCity fá frítt inn. Það þarf þó að kaupa sér mat fyrir a.m.k. 35 dollara. Veitingastaðurinn er ekki þekktur fyrir að vera einn af þeim betri í borginni en því haldið fram að bestu kaupin séu í morgunmatnum (sjá hér). Við hlið Space Needle er Rokksafnið EMP sem er áhugamenn um rokk og ról geta ekki látið framhjá sér fara.
Space Needle, 400 Broad St. Opið frá kl. 9:30-23 mán-fim, 9:00-11:30 fös og lau og 9:00-23 á sunnudögum.

EMP

Ef erfingjum Jimi Hendrix kæmi betur saman þá væri þetta risastóra rokksafn nefnt í höfuðið á gítarhetjunni. Ekki fékkst meirihluti meðal ættingjanna fyrir því að lána Hendrix nafnið á safnið sem Paul Allen, einn stofnanda Microsoft, reisti og fékk stjörnuarkitektinn Frank Gehry til að hanna. Hér er tveimur þekktustu framlögum Seattle til rokksögunnar, Jimi Hendrix og Nirvana, gerð góð skil og eins má skoða risastórt gítarsafn. Á efstu hæðinni getur fólk svo fengið leiðsögn í spilamennsku, stigið á svið eða farið í stúdíó. Þar er hægt að skemmta sér vel. Á safninu er þó ekki bara fókusað á rokkmúsík því ýmislegt sem tengist teiknimyndasögum og kvikmyndum. Safnið er við hlið þekktasta kennileitis Seattle, The Space Needle og því tilvalið að heimasækja báða staði í einni ferð.
EMP, 325 5th Avenue N. Það kostar 23 dollara inn en 18 ef bókað á netinu.

Monorail

Frá Pine Street verslunargötunni svífur Monorail yfir götunni í átt að Space Needle og EMP safninu. Lestin var reist árið 1962 vegna heimssýningarinnar sem fór þá fram við Seattle Center og Space Needle á þessari sömu sýningu tilveru sína að þakka. Monorail var án vafa mjög frammúrstefnulega þegar hún var tekin í notkun og þó ferðalagið taki aðeins 2 mínútur þá er óhætt að mæla með því.
Monorail leggur í hann frá West Lake Center, Pine Street 400 og stoppar milli Space Needle og EMP. Farið kostar 2,25 dollara.

Seattle Art Museum

Á listasafni borgarinnar, sem Microsoft styrkir, eru sýningarnar mjög mismunandi og oftar en ekki á heimsmælikvarða. Þar eru stundum verk eldri snillinga til sýnis og þess á milli eitthvað nýt af nálinni. Það borgar sig því að skoða dagskrána.
SAM , 750 Hornby Street. 19,5 dollara fyrir fullorðna, 12,5 fyrir unglinga en frítt fyrir börn. Opið alla daga nema mánudaga og þriðjudaga en opið frá kl. 10 til 17 aðra daga (til kl. 21 á fimmtudagskvöldum).

Matur og drykkur

Poquitos

Í hinni fjörugu Capitol Hill er að finna þennan vinsæla stað fyrir þá sem vilja góðan mexíkóskan mat. Þjónustan er hröð og góð og staðurinn iðar af lífi enda þekktur fyrir veglega skammta og ljómandi kokteila. Taco og enchiladas á 10 til 15 dollara og stærri réttir á 17 til 24 dollara. Ódýrara í hádeginu og um helgar er boðið upp taco á „happy hour“ tilboði.
Poquitos, 1000E Pike Street.

Walrus and the Carpenter

Við Ballard Avenue er að finna marga góða veitingastaði, bari og sérverslanir. Það er því þess virði að gera sér ferð í Ballard hverfið. Einn rómaðasti veitingastaður borgarinnar er þar að finna og hann hefur verið hlaðinn lofi síðan hann opnaði árið 2012. Þetta er ostrustaðurinn Walrus and the Carpenter og þar eru sjávarréttir í hávegum hafðir og hægt að fá alls kyns frumlegar útfærslur af ostrum, kræklingum og reyktum fiski. Kjötætur fá líka eitthvað fyrir sinn snúð. Það er ekki hægt að taka frá borð og því vissara að vera með plan b ef ekkert er laust. Blessunarlega deilir Walrus and the Carpenter húsakynnum með öðrum spennandi stað Chippy´s. Það er því ekki langt að fara ef ekki er pláss á einum af „10 bestu nýju veitingastöðunum í Bandaríkjunum“.
Walrus and the Carpenter, 4743 Ballard Ave NW.

Melrose matartorgið

Svangir, kaffiþyrstir og partíglaðir fara upp á Capitol Hill til að ná áttum. Þar er ótrúlegt úrval af veitingastöðum, kaffihúsum og börum. Á stuttum kafla á Melrose Avenue (milli Pine and Pike St.) er Melrose Food Market til húsa. Samlokurnar á Homegrown eru lygilega góðar og allt lífrænt og lókal. Slátrarinn við innganginn fær mann til að öfunda þá sem hafa aðgang að eldavél í borginni og inni í horni er Sitka&Spruce, lítill og vinsæll veitingastaður. .
– Melrose Food Market, 1531E Melrose Avenue

Taylor Shellfish

Við hlið Melrose Food Market er þessi einfaldi ostrustaður. Hér situr fólk á háum stólum og sýpur ostrur og freyðivín. Fyrir utan veitingarnar sjálfar er allt mjög látlaust á þessum stað og gestirnir hversdagslegir til fara. Fyrir um 15 dollara færðu sjö mismunandi ostrur og óhætt að mæla með þeim kaupum.
Taylor Shellfish, 1521 Melrose Avenue. Opið frá kl. 10 en lokað á mánudögum.

Pike Place Market

Matarmarkaðurinn við Elliot Bay er sennilega þekktasta kennileiti Seattle borgar. Smelltu hér til að sjá með hvaða básum og matsölustöðum Túristi mælir með á markaðnum.

Besti ísínn

Seattle er systurborg Bergen og það sem þessar tvær borgir eiga sameiginlegt er vætan. Veðrið hefur samt ekki nein áhrif á viðskiptin hjá Valdísi þeirra Seattle búa. Hér er fullt út úr dyrum allan ársins hring því margir vilja heimagerðan ís í vöfflu.
Molly´s moon, 917E Pine Street.

Kaffi og kokteilar

Hideout

Fyrir gluggunum eru dökkar gardínur en við innganginn er lítið skilti sem segir að staðurinn sé opinn. Fyrir innan fylla svo kokteilþyrstir Seattle búar bekkina en barþjónar Hideout er þekktir fyrir að búa til ein bestu hanastél borgarinnar. Á háannatíma geta myndast 50 metra langar biðraðir við innganginn og því vissara að vera með plan-b ef þú kemst ekki inn.
– Hideout,

Wheelhouse Coffee

Í heimaborg Starbucks hefur kaffikeðjan tekið yfir annað hvert horn og stundum eru ekki nema 100 metrar á milli búða. Wheelhouse Coffee er eitt af fáum kaffihúsum sem blómstra í skugga Starbucks. Þetta kaffihús er aðeins út úr alfaraleið en göngutúrinn frá Seattle Space Needle er ekki svo langur.
– Wheelhouse Coffee, 2113 Westlake Avenue,  www.wheelhousecoffee.com, lokað á sunnudögum.

Gagnlegt

Samgöngur

Central link fer á 7 til 15 mínútna frestir milli flugvallarins Tacoma og miðborgar Seattle. Farið kostar farið 2,75 dollara. Reikna má með að leigubíll kosti á bilinu 40 til 50 dollara.

Frítt net

Starbucks er eitt þekktasta fyrirtæki Seattle og útibú keðjunnar eru á nánast á hverju einasta horni borgarinnar. Í langflestum tilfellum fylgir frítt net með kaffibollanum og það er örugglega mikið ódýrara að borga fyrir veitingar í stað þess að nýta sér þjónustu símafyrirtækjanna.

Þjórfé

Bandaríkjamenn gefa 10 til 15 prósent í þjórfé og skiptir þá engu hversu ánægðir þeir eru með þjónustuna. Ferðamenn geta því ekki annað en fylgja hefð heimamanna á þessu sviði. Þeir sem borga með greiðslukorti geta langoftast bætt þjórfé við reikninginn og þurfa því ekki að vera með smámynt á sér.

Hótel

Notaðu leitarvélina hér fyrir neðan til að finna og bóka hagstæðustu gistinguna í Seattle. Þeir sem vilja skoða úrval af sérvöldum hótelum í borginni smella á borðann þar fyrir neðan.

Bílaleiga