Saturnus
Það er leit að stærra bakkelsi en því sem stendur á barborðinu á þessu vinsæla kaffihúsi á Östermalm. Kardemommubollurnar eru eiginlega fyrir tvo, svo stórar eru þær. Hér geta gestirnir þurft að doka eftir borði en afgreiðslan er hröð og biðin því ekki löng. Kaffi og kruðerí er á 70 til 100 sænskar á mann.
– Saturnus, Eriksbergsgatan 6. Opið: Frá átta til átta virka daga en frá níu til 19 um helgar.
Vete Katten
Ömmulegra kaffihús finnst sennilega ekki Stokkhólmi. Afgreiðslustúlkurnar ganga upp í búningnum sem voru sniðnir snemma á síðustu öld og kaffibollunum er stillt upp á stórt hringlaga borð í salnum. Hér drekka konur og menn venjulegt kaffi enda væri það algjört stílbrot ef boðið væri upp á ítalskt kaffi. Úrvalið af sætabrauði er virkilega gott og staðurinn því heppilegur fyrir áhugafólk um sænskt bakkelsi.
– Vete Katten, Kungsgatan 55. Opið:. 7:30 til 19:30 virka daga, 9:30 til 17 á laugardögum og 12 til 17 á sunnudögum.
Rosendals trädgård
Djurgården eyjan er ákaflega fallegt svæði ekki langt frá miðbænum. Inn á miðri eyju er Rosendals slottið sem er opið almenningi á sumrin. Þar rétt hjá eru gróðurhús og kaffihús sem selur ljómandi gott bakkelsi og ljúfengar súpur í hádegi. Á sumrin er hægt að borða úti, jafnvel undir eplatrjám en á veturna er setið inn í gróðurhúsi. Það er má taka sporvagn númer sjö úr miðbænum og út í Djurgården (á leið út í Waldersmarsudde). Farið út á Bellmansro stoppistöðinn og gengið í fimm mínútur (fylgja skilti sem segir Rosendal).
– www.rosendalstradgard.se, . Opið frá 11 til 16 eða 18 (ræðst af árstíma – sjá heimasíðu fyrir opnunartíma). Oft lokað á mánudögum.
Matmekka
Á Þjóðfræðisafninu er að finna mjög gott kaffihús sem heimsækja má þó ekki hafi verið greiddur aðgangur að safninu sjálfu. Þar er boðið upp á ljómandi úrval af ólíkum réttum frá öllum heimsins hornum sem búnir eru til úr sænsku hráefni. Kaffið og sætabrauðið er í fyrsta gæðaflokki.
– Matmekka, Djurgårdsbrunnsvägen 34. Opið frá 11 til 17 þri til sun en frá 11 til 14 á mánudögum.
Svenskt snus
Neysla á snusi (munntóbaki) í Svíþjóð er lygilega mikil og fer ekki í manngreinarálit. Í ríki Karls Jóhanns ganga því alls kyns karlar og konur um borgi og bæi með „bólgna“ efri vör. Á einu fínasta horni Kungsgatan í Stokkhólmi er tóbaksbúðin Svenskt snus til húsa. Hér getur tóbaksliðið valið úr alls kyns sortum en þeir sem eru að aðeins að leita eftir góðum kaffibolla, og kannski fríu neti, ættu ekki að hika við að kíkja inn í þessa fallegu búð. Espressóbar hússins er nefnilega ljómandi og kökurnar góðar. Kaffið er á 20 til 35 sænskar, sætabrauðið kostar álíka en tóbakið er dýrara.
– Svenskt snus, Kungsgatan 3. Opið frá 10 til 19 virka daga en til 17 á laugardögum.
Veitingastaðir
Blå Dörren
Klassískur sænskur veitingastaður þar sem Pyt-i-panne, eða bixímatur, er borinn fram með rauðbeðum, söltuðum gúrkum og steiktu eggi. Skammtur af þessum herramannsmat kostar 119 skr. Á matseðlinum er líka kjöt- og fiskréttir sem hitta í mark hjá þeim sem hitta í mark hjá íhaldssömum matargestu. Verðlagið er í meðallagi en ódýrast er að koma á sunndögum og borða rétti dagsins sem kosta 100 skr. Úrvalið af bjór og snafsi er ríkulegt.
Blå Dörren, Södermalms Torg 6, 116 45 Stockholm, Sími: +46 8 743 07 40
Opið: Mánudaga frá kl. 10:30 til 23, þriðjudaga til fimmtudaga frá kl. 10.30-24, föstudaga frá kl. 10.30-01, laugardaga frá kl. 10.30-01 og sunnudaga frá kl. 13-23.
Rolf´s Kök
Það ríkir óneitanlega mjög þægileg og afslöppuð stemning á þessum framúrskarandi veitingastað í miðborginni. Þó innréttingarnar séu fremur látlausar og gestirnir séu nokkuð hversdagslega til fara þá ríkir metnaður í eldhúsinu hjá Rolf. Prísarnir á matseðlinum endurspegla það og því erfitt að finna aðalrétt sem kostar minna en tvö hundruð sænskar. Í hádeginu er hins vegar hægt að fá tvo rétti á 123 sænskar (um 2200 íslenskar krónur) og vafalítið leit að betri díl í Stokkhólmi fyrir það sem vilja góðan hádegismat.
Rolf´s Kök, Tégnergatan 41. Opið frá kl. 11:30 til 01:00 virka daga en frá kl. 17 um helgar. Borðapantanir: +46 (8) 10 16 96.
Bakfickan
Þessi vinalegi, litli veitingastaður í Óperuhúsinu hefur fyrir löngu skipað sér í röð með þekktustu matsölustöðum Stokkhólms. Þar sitja gestirnir á barstólum og borða sænska klassíska rétti. Það er bara pláss fyrir fjörtíu manns í einu á staðnum og ekki er tekið við borðapöntunum. Það er því best að koma utan matmálstíma til að eiga meiri líkur á sæti. Ódýrasti aðalrétturinn eru kjötbollurnar sem kosta 160 sænskar.
Bakfickan, Jakobs Torg 12. Virka daga frá hálft tólf til kl. 23, laugardaga frá tólf til tíu.
Urban Deli
Við Nytorget í Södermalm hverfinu er að finna nokkur skemmtileg kaffihús, bari og veitingastaði. Á horninu liggur þessi stóri veitingastaður og þar einnig er að finna matvöruverslun þar sem sælkerar geta keypt hitt og þetta til að taka með heim. Í hádeginu er hægt að fá ljómandi góðan rétt dagsins á 110 sænskar. Þetta er vel útilátinn hádegismatur sem stendur með ferðalangnum allan daginn.
Urban Deli, Nytorget 4. Opið frá átta á morgnana og fram til miðnættis.