Stokkhólmur

stokkholmur djurgarden
  • Almennt
  • Sjá og gera
  • Matur og drykkur
  • Gagnlegt
  • Hótel

Almennt

Þær eru fjórtán eyjurnar sem mynda bæjarstæðið sem höfuðborg Svíþjóðar stendur á. Hún er því oft kölluð Feneyjar norðursins því alltaf er stutt í vatnið. Grænu svæðin eru líka fjölmörg og þessi nálægð við nátturuna skipar borginni meðal annars í flokk með byggilegustu stöðum í heimi. Stokkhólmur er engu að síður stórborg þar sem ferðamenn geta upplifað margt og mikið en þurfa samt ekki að eyða drjúgum tíma í að ferðast á milli bæjarhluta. Það er nefnilega stutt í flestar áttir og almenningssamgöngur eru góðar. Stokkhólmur er kjörinn áfangastaður allt árið um kring og hentar fjölskyldum sérstaklega vel á sumrin. Þar er nefnilega nóg við að vera fyrir þau yngstu.

Icelandair flýgur til Stokkhólms allt árið.

Sjá og gera

Skerjagarðurinn

Rétt fyrir utan Stokkhólm eru nær óteljandi eyjar og það er siglt út í þær vinsælustu beint úr miðborg Stokkhólms. Á heimasíðu Vaxholmbolaget er að finna upplýsingar um hvaðan bátarnir leggja í hann og hvað farið kostar og Cinderella bátarnir sigla líka á þessar slóðir. Það er hægt að fara í dagsferðir en líka í nokkra daga og þá er sænska ferðafélagið, STF, með alls einfalda en huggulega gistingu á eyjunum. Kynnið ykkur vel hvaðan bátarnir sigla (þrjár bryggjur í miðborginni) og mætið tímanlega því sætin eru ekki númeruð og fólk mætir því snemma til að tryggja sér bestu sætin. Farið kostar að lágmarki 75 sænskar út í eyjarnar sem eru næst en 200 til 300 krónur í eyjarnar sem eru í um 2 tíma í burtu.

Skansen og Djurgården

Einn af kostunum við höfuðborginnar í Skandinavíu er hversu mörg græn svæði eru í nálægð við miðborgina. Djurgården er stærsta útivistarsvæði Stokkhólms og er í raun risastór almenningsgarður, fjórir kílómetrar að lengd og einn km að breidd. Þar er að finna elsta útisafn heims, Skansen, sem stofnað var 1891. Húsakynnin eru mörg hver miklu eldri og innandyra eru ekki tómir leikmunir heldur alvöru atvinnurekstur innan um alla gömlu innanstokksmunina. Bakarinn bakar til dæmis sætar og góðar „kanelbullar“ í 140 ára gömlu bakaríi og kryddsalinn selur saffranið yfir tvö hundruð ára gamalt verslunarborð. Það er nóg fyrir börnin að gera á Skansen því þar eru leikvellir, tívolí, dýragarður og margt fleira. Aðgangseyrir er á bilinu 70 til 100 sænskar krónur fyrir fullorðna en ódýrara fyrir sex til fimmtán ára. Börn yngri en sex ára fá frítt inn. Skansen opnar klukkan 10 á morgnana en lokar klukkan 20 á sumrin en 15 á veturna.

Skansen
Djurgårdsslätten 49-51, Inngangur við Djurgårdbron
Strætó: 47 í átt að Waldemarsudde. Ferja: Nybrokaj-Skansen

Gamla stan og Konungshöllin

Á eyjunni milli Norrmalm og Södermalm stendur miðaldarbærinn Gamla stan. Þar liggja þröngar og steini lagðar götur milli fallegra húsa sem mörg hver hýsa hugguleg kaffihús og skemmtilegar verslanir. Það er því full ástæða til að gefa sér góðan tíma í röltið um þennan fallega hluta borgarinnar. Þeir sem vilja forðast túristagildrunar ættu að sneiða fram hjá Västerlånggatan og halda sig frekar í götunum sem liggja út frá Stortorget.
Konungshöllin, Kungliga slottet, stendur við Gamla stan. Konungsfjölskyldan heldur ekki lengur heimili í höllinni en lífverðir fjölskyldunnar stimpla sig í og úr vinnu með miklum hátíðleik við höllina um hádegisbil á hverjum degi. Ef sænski fáninn er dreginn að húni þá er það til marks um að konungurinn sé á staðnum en skrifstofa hans er í höllinni og hér hefur hann, líkt og faðir sinn, tekið á móti trúnaðarbréfum íslenskra sendiherra síðan sendiráð okkar var stofnaði í ríkinu árið 1940.
Höllin er vinsæll ferðamannastaður, meðal annars vegna safnanna sem þar eru og hafa til sýnis skartgripi konungsfjölskyldunnar, antikmuni Gústafs þriðja og leifar Vasa hallarinnar sem stóð á miðöldum.

Drottningholms slott
Hér á Karl Gústaf og fjölskylda heima og ferðamenn sem hingað koma geta komið auga á konungsborið fólk á rölti í hallargarðinum ef heppnin er með þeim. Híbýli frönsku konungsfjölskyldunnar í Versölum er fyrirmynd þessarar barokkhallar sem er á heimsmynjaskrá UNESCO. Það er ákveðin stemming í því fólgin að taka ferjuna út eftir og virða fyrir sér borgina frá vatninu.
Drottningholms slott
Drottningholm, 100 00 Stockholm
Ferja: Stadshuskajen. T-lest: Brommaplan og þaðan í strætó 301 eða 323
Opnunartímar: Okt-apr: Helgar frá kl. 12-15.30, maí til ágúst alla daga frá kl. 10-16.30 og september alla daga frá kl. 12-15.30
80 skr fyrir fullorðna en 40 fyrir 7 til 18 ára.

Moderna Museet
Listsköpun síðustu 100 ára er gerð góð skil á Moderna museet. Þar eru oftast nokkrar sýningar í gangi í einu og því líklegt að eitthvað af því sem á boðstólum er falli að smekk flestra. Safnið á einnig verk eftir nokkra af snillingum síðustu aldar og eru þau alla jafna til sýnis í húsinu. Nóg af mat er á boðstólum á safninu því þar er veitingastaður og tvö kaffihús.
T-lest: Skeppsholmen
Opnunartímar: Frá kl. 10 til 18 miðvikudaga til sunnudaga en til kl. 20 á þriðjudögum. Lokað á mánudögum.
Aðgangseyrir: 80 krónur fyrir eldri en 18 ára. Miði sem gildir líka á Arkitektasafnið kostar 110 skr.

Matur og drykkur

Saturnus

Það er leit að stærra bakkelsi en því sem stendur á barborðinu á þessu vinsæla kaffihúsi á Östermalm. Kardemommubollurnar eru eiginlega fyrir tvo, svo stórar eru þær. Hér geta gestirnir þurft að doka eftir borði en afgreiðslan er hröð og biðin því ekki löng. Kaffi og kruðerí er á 70 til 100 sænskar á mann.
– Saturnus, Eriksbergsgatan 6. Opið: Frá átta til átta virka daga en frá níu til 19 um helgar.

Vete Katten

Ömmulegra kaffihús finnst sennilega ekki Stokkhólmi. Afgreiðslustúlkurnar ganga upp í búningnum sem voru sniðnir snemma á síðustu öld og kaffibollunum er stillt upp á stórt hringlaga borð í salnum. Hér drekka konur og menn venjulegt kaffi enda væri það algjört stílbrot ef boðið væri upp á ítalskt kaffi. Úrvalið af sætabrauði er virkilega gott og staðurinn því heppilegur fyrir áhugafólk um sænskt bakkelsi.
– Vete Katten
, Kungsgatan 55. Opið:. 7:30 til 19:30 virka daga, 9:30 til 17 á laugardögum og 12 til 17 á sunnudögum.

Rosendals trädgård

Djurgården eyjan er ákaflega fallegt svæði ekki langt frá miðbænum. Inn á miðri eyju er Rosendals slottið sem er opið almenningi á sumrin. Þar rétt hjá eru gróðurhús og kaffihús sem selur ljómandi gott bakkelsi og ljúfengar súpur í hádegi. Á sumrin er hægt að borða úti, jafnvel undir eplatrjám en á veturna er setið inn í gróðurhúsi. Það er má taka sporvagn númer sjö úr miðbænum og út í Djurgården (á leið út í Waldersmarsudde). Farið út á Bellmansro stoppistöðinn og gengið í fimm mínútur (fylgja skilti sem segir Rosendal).
www.rosendalstradgard.se, . Opið frá 11 til 16 eða 18 (ræðst af árstíma – sjá heimasíðu fyrir opnunartíma). Oft lokað á mánudögum.

Matmekka

Á Þjóðfræðisafninu er að finna mjög gott kaffihús sem heimsækja má þó ekki hafi verið greiddur aðgangur að safninu sjálfu. Þar er boðið upp á ljómandi úrval af ólíkum réttum frá öllum heimsins hornum sem búnir eru til úr sænsku hráefni. Kaffið og sætabrauðið er í fyrsta gæðaflokki.
– Matmekka, Djurgårdsbrunnsvägen 34. Opið frá 11 til 17 þri til sun en frá 11 til 14 á mánudögum.

Svenskt snus

Neysla á snusi (munntóbaki) í Svíþjóð er lygilega mikil og fer ekki í manngreinarálit. Í ríki Karls Jóhanns ganga því alls kyns karlar og konur um borgi og bæi með „bólgna“ efri vör. Á einu fínasta horni Kungsgatan í Stokkhólmi er tóbaksbúðin Svenskt snus til húsa. Hér getur tóbaksliðið valið úr alls kyns sortum en þeir sem eru að aðeins að leita eftir góðum kaffibolla, og kannski fríu neti, ættu ekki að hika við að kíkja inn í þessa fallegu búð. Espressóbar hússins er nefnilega ljómandi og kökurnar góðar. Kaffið er á 20 til 35 sænskar, sætabrauðið kostar álíka en tóbakið er dýrara.
Svenskt snus, Kungsgatan 3. Opið frá 10 til 19 virka daga en til 17 á laugardögum.

Veitingastaðir

Blå Dörren

Klassískur sænskur veitingastaður þar sem Pyt-i-panne, eða bixímatur, er borinn fram með rauðbeðum, söltuðum gúrkum og steiktu eggi. Skammtur af þessum herramannsmat kostar 119 skr. Á matseðlinum er líka kjöt- og fiskréttir sem hitta í mark hjá þeim sem hitta í mark hjá íhaldssömum matargestu. Verðlagið er í meðallagi en ódýrast er að koma á sunndögum og borða rétti dagsins sem kosta 100 skr. Úrvalið af bjór og snafsi er ríkulegt.

Blå Dörren, Södermalms Torg 6, 116 45 Stockholm, Sími: +46 8 743 07 40
Opið: Mánudaga frá kl. 10:30 til 23, þriðjudaga til fimmtudaga frá kl. 10.30-24, föstudaga frá kl. 10.30-01, laugardaga frá kl. 10.30-01 og sunnudaga frá kl. 13-23.

Rolf´s Kök

Það ríkir óneitanlega mjög þægileg og afslöppuð stemning á þessum framúrskarandi veitingastað í miðborginni. Þó innréttingarnar séu fremur látlausar og gestirnir séu nokkuð hversdagslega til fara þá ríkir metnaður í eldhúsinu hjá Rolf. Prísarnir á matseðlinum endurspegla það og því erfitt að finna aðalrétt sem kostar minna en tvö hundruð sænskar. Í hádeginu er hins vegar hægt að fá tvo rétti á 123 sænskar (um 2200 íslenskar krónur) og vafalítið leit að betri díl í Stokkhólmi fyrir það sem vilja góðan hádegismat.

Rolf´s Kök, Tégnergatan 41. Opið frá kl. 11:30 til 01:00 virka daga en frá kl. 17 um helgar. Borðapantanir: +46 (8) 10 16 96.

Bakfickan

Þessi vinalegi, litli veitingastaður í Óperuhúsinu hefur fyrir löngu skipað sér í röð með þekktustu matsölustöðum Stokkhólms. Þar sitja gestirnir á barstólum og borða sænska klassíska rétti. Það er bara pláss fyrir fjörtíu manns í einu á staðnum og ekki er tekið við borðapöntunum. Það er því best að koma utan matmálstíma til að eiga meiri líkur á sæti. Ódýrasti aðalrétturinn eru kjötbollurnar sem kosta 160 sænskar.

Bakfickan, Jakobs Torg 12. Virka daga frá hálft tólf til kl. 23, laugardaga frá tólf til tíu.

Urban Deli

Við Nytorget í Södermalm hverfinu er að finna nokkur skemmtileg kaffihús, bari og veitingastaði. Á horninu liggur þessi stóri veitingastaður og þar einnig er að finna matvöruverslun þar sem sælkerar geta keypt hitt og þetta til að taka með heim. Í hádeginu er hægt að fá ljómandi góðan rétt dagsins á 110 sænskar. Þetta er vel útilátinn hádegismatur sem stendur með ferðalangnum allan daginn.

Urban Deli, Nytorget 4. Opið frá átta á morgnana og fram til miðnættis.

Gagnlegt

Samgöngur

Til og frá flugvelli

Flugrútur: Swebus og Flygbussarna keyra reglulega á milli Arlanda flugvallar og Stokkhólms. Fargjaldið er 99 sænskar (um 1900 íslenskar). Munurinn á þessum tveimur er sá að Swebus keyrir beint niður á aðallestarstöðina en Flygbussarna stoppa nokkrum sinnum á leiðinni. Rúturnar keyra nokkrum sinnum á klukkutíma og eru 30 til 45 mínútur á leiðinni.

Lest: Arlanda Express hraðlestin er um 20 mínútur á leiðinni og farið kostar 280 sænskar (um 5000 íslenskar). Þeir sem ferðast í kringum helgar geta oft keypt ódýrari miða, tveir borga þá samanlangt 300 kr, fjórir 400 kr. Þar til nýlega var ekki hægt að taka beina almenningslest frá Arlanda og inn í miðborgina. En nú fer lest frá flugstöðinni (Sky City álmunni) og niður í bæ tvisvar á klukkutíma. Farið er á 125 sænskar.

Leigubíll: Það kostar um 500 sænskar að taka taxa til og frá flugvellinum.

Innanbæjar

Strætisvagnar og neðanjarðarlestir (Tunnelbana) keyra um alla borg og sporvagnar um miðborgina. Einfaldast er að kaupa miða á lestarstöðvunum því bílstjórarnir mega ekki taka við fargjaldinu. Fullorðinn farþegi með barnavagn borgar ekki í strætó en hins vegar þarf að greiða í metró og sporvagn.

Vatnið

Kranavatnið í Svíþjóð er ekki síðra en það íslenska

Þjórfé

Svíar láta vanalega eitthvað af hendi rakna þegar þeir fara á kaffihús eða matsölustaði en þó minna en sem nemur 10% af reikningnum.

Hótel

Lestirnar og flugrútunar keyra frá flugvellinum og niður á aðallestarstöðina. Líkt og í öðrum borgum þá er ys og þys á því svæði og töluvert af hótelum. Þaðan er stutt í verslanir miðborgarinnar.

Þeir sem vilja vera miðsvæðis geta líka fundið gistingu við Stureplan, Birger Jarlsgötuna, Gamla Stan eða við Strandvägen. Út í hverfunum (Södermalm, Östermalm og Vasastan) er líka töluvert af hótelum fyrir þá sem vilja komast í kynni við Stokkhólm eins og hún blasir við íbúunum. Almenningssamgöngur innanbæjar eru góðar í borginni og gott að velja hótel við lestarstöð.

Við mælum með leitarvél HotelsCombined til að finna góð verð á gistingu í Stokkhólmi:

Bílaleiga