Sumarið stóð undir væntingum hjá Úrval-Útsýn

Hvernig gekk sumarið hjá Úrval-Útsýn, afhverju er Malllorca ekki lengur á dagskrá ferðaskrifstofanna hér á landi og hvað gerist næsta sumar? Margrét Helgadóttir framkvæmdastjóri sat fyrir svörum. MEIRA

 

 

 

Það voru mun fleiri Íslendingar á faraldsfæti í útlöndum í sumar en á sama tíma í fyrra. Túristi lagði nokkrar spurningar fyrir forsvarsmenn ferðaskrifstofanna til að heyra hvernig sumarvertíðin hafi verið og hvað sé í pípunum fyrir næsta ár. Margrét Helgadóttir, framkvæmdastjóri Úrvals-Útsýnar, ríður á vaðið.

Hvernig gekk sumarið og var salan samkvæmt áætlun?

Sumarið hefur gengið vel og vélarnar með góða nýtingu. Salan stóð undir væntingum og er svipuð og búist var við.

Fyrir utan Marmaris í Tyrklandi þá bauð Úrval-Útsýn aðeins upp á spænska áfangastaði í sumar. Munið þið bjóða upp á sólarlandaferðir til fleiri landa næsta sumar? Sumarið 2015 er nú í fullum undirbúningi og verið að skoða ýmsa möguleika.

Sólarlandaferðir til Mallorca hafa ekki verið á boðstólum síðustu ár nema rétt í sumarbyrjun. Hver er ástæðan fyrir því að þessi vinsæli áfangastaður er nær dottin út af dagskrá ferðaskrifstofanna hér á landi?

Mallorca er dýr áfangastaður þegar kemur að gistingu, sérstaklega seinni part sumars. Verðlag fer mjög hækkandi eftir miðjan júlí og helst hátt út ágústmánuð og jafnvel fram í fyrstu vikuna í september.

Norræna ferðaskrifstofan Nazar hóf að selja sólarlandaferðir héðan í ár og býður aðallega upp á hótel þar sem allt er innifalið. Urðuð þið vör við minni eftirspurn eftir þess háttar hótelum í sumar?

Úrval-Útsýn hefur lengi boðið uppá gistingar þar sem allt er innifalið. Eftirspurnin eftir slíkum gistingum er svipuð eða aðeins minni en undanfarin ár. Það var mjög vinsælt að bóka slíkar gistingar þegar gengi íslensku krónunnar var óstöðugt. Menn voru þá búnir að greiða nánas allan kostnað áður en haldið var í fríið. Nú þegar gengi íslensku krónunnar er nokkuð stöðugt, kjósa margir að hafa val um hvar þeir borða hverju sinni. Það er þó alltaf ákveðinn hópur sem kýs að kaupa gistingu með öllu inniföldu, sérstaklega yfir sumartímann.

Plúsferðir og Sumarferðir eru, líkt og Úrval-Útsýn, í eigu Ferðaskrifstofu íslands. Framboð á sólarlandaferðum á vegum þeirra er mjög svipað. Er markaður fyrir allar þrjár?

Já, ég tel að það sé markaður fyrir öll þessi vörumerki. Vöruúrval Úrvals Útsýnar er mjög fjölbreytt; sólarferðir, borgarferðir, siglingar, sérferðir, íþróttaferðir, golfferðir og íþróttaferðir fyrir hópa. Sumarferðir bjóða nánast eingöngu sólarferðir og þá fyrir yngri aldurshópinn. Plúsferðir hafa síðan sérhæft sig í sölu á ódýrari pökkum og flugsætasölu.

NÝJAR GREINAR: Borðað beint úr bílnumSumarferðum Íslendinga fjölgar á ný