Terroni – einfalt og ljómandi gott ítalskt
Það er ekki hægt að kvarta undan pizzunum og pastanu hjá Terroni og það er sennilega ástæðan fyrir því að fjölskyldan rekur nú þrjá staði í Toronto. Pizzurnar eru fjölbreyttar og alls ekki róið á hefðbundin mið (engin Hawaii eða Quattro Staggione) og því hægt að prófa eitthvað alveg nýtt, t.d. pizzu með perum og valhnetum. Og til marks um að Terroni fjölskyldan veit hvað hún er að gera þá er Bolognese sósan borin fram með tagliatelle en ekki spaghetti (þykk sósa fer betur á breytt pasta). Það er mikið að gera hjá Terroni og í hádeginu er skynsamlegt að koma eftir að kontoristarnir hafa lokið sér af. Aðalréttir á 14 til 18 dollara (1650 til 2100 krónur).
– Terroni, er við 57a Adelaide St E (Downtown), við 720 Queen street West og 1095 Yonge Street.
Le Selection – franskt bístró
Frakkinn Frédéric Geisweiller hefur staðið vaktina lengi á Le Select bistróinu sínu við 432 Wellingston Street West. Hann vísar fólki til sætis á þessum fallega veitingastað sem hann hefur innréttað í gamalli prentsmiðju. Hádegisseðillinn er það sneisafullur af stórum og smáum klassískum frönskum réttum, t.d. Croque Monsieur (14 dollara) og Confit de Canard (18 dollara). Á kvöldin kostar þriggja rétta máltíð um 50 dollara (5800 kr). Staðurinn er stór en það borgar sig að gera boð á undan sér, sérstaklega á kvöldin og ef þú vilt sitja úti.
–Le Select, 49 Frederik Street. Opið alla daga fram á kvöld.
Bar Isabel – ljúfengur snúingur á spænskum tapas
Það er hægt að fá tapas mjög víða en við College Street númer 797 hefur kokknum tekist sérstaklega vel að útbúa þessa þekktu spænsku rétti með skemmtilegum brag. Matseðillinn breytist reglulega en þeir sem vilja borða vel og mikið á óformlegum en fjörugum veitingastað verða ekki sviknir af Bar Isabel. Hér borgar sig að panta borð því staðurinn er mjög vinsæll. Það er aðeins opið á kvöldin hjá Isabel.
– Bar Isabel, 797 College Street.
Gladstone og Drake – Kexið í Toronto
Hótel Drake og Gladstone eru nágrannar vestast á hinni rómuðu Queen Street. Bæði róa á svipuð mið og Kex gistiheimili í Reykjavík hvað innréttingar og stemningu varðar. Þeir sem vilja fá sér einfaldar steikur eða skyndibita með skemmtilegu tvisti eru vel í sveit settir á þessum stöðum. Barinn er svo opinn langt framyfir miðnætti.
– Gladstone er við 1214 Queen Street W og The Drake er í húsi númer 1150.
Grand Electric Bar – Sennilega langbestu tortillurnar í Toronto
Allra vestast á West Queen West götunni hámar fólk í sig tortillur daginn út og inn enda leit að öðru eins góðgæti. Mjúkar, bragðmiklar og saðsamar en samt er varla hægt að fá nóg. Það er opið í hádeginu og kvöldin og tortilla kostar 3,6 dollara (um 420 krónur).
– Grand Electric Bar, 1330 Queen Street West.
Kaffihús
Jimmy´s Coffee, Toronto
Í fjölmennustu borg Kanada eru um fimmtíu Starbucks kaffihús. Jimmy´s Coffee er að finna á tveimur stöðum í borginni, við hinn skemmtilega Kensington Market (191 Baldwin) go 107 Portland Street. Hér er kaffið í hávegum haft og úrvalið af sætabrauði er það gott að það er óþarfi að eyða matarlyst í hollustumuffin hússins. Það er frítt net hjá Jimmy og svo má líka fá lánað hleðslutæki í símann.
– Jimmy´s Coffee