Toronto

  • Almennt
  • Sjá og gera
  • Matur og drykkur
  • Gagnlegt
  • Hótel

Almennt

Nærri helmingur þeirra sex milljóna manna sem búa í Toronto er ekki fæddur í Kanada og í borginni eru töluð meira en 180 tungumál. Þessi stærsta borg Kanada býður því upp á mjög fjölskrúðugt mannlíf. Hverfi miðborgarinnar eru merkilega ólík og það er því hægt að upplifa margt á stuttum tíma í Toronto.

Nálægðin við risa stóra Ontario vatn, vínræktarhéröð og Niagara fossana gerir það að verkum að það er auðvelt að brjóta upp borgarferðina með stuttri ferð út fyrir borgarmörkin.

Icelandair flýgur nú til Toronto allt árið um kring.

Mynd: Toronto Tourism

Sjá og gera

CN Tower

Í rúma þrjá áratugi var hinn 553 metra hái CN Tower hæsti turn í heimi og hann er víst enn hæsta mannvirki á vesturhveli jarðar. Daglega taka þúsundir manna lyftu upp í glerkúluna á hæð númer 114 þaðan sem útsýnið yfir borgina og Ontario vatn er kyngimagnað og 3700 króna virði. Til að minnka líkurnar á langri bið í afgreiðslunni er skynsamlegt að koma snemma og kaupa miða á netinu. Fyrir aukagreiðslu er hægt að fá aðgang að enn minni glerkúlu sem er þrjátíu og þremur hæðum fyrir ofan þá stóru.
CN Tower er opinn frá níu að morgni og fram til ellefu á kvöldin. Það kostar 32 dollara inn en börn, 4 til 12 ára, borga 24 dollara og líka þeir sem eru eldri en 65 ára.

Art Gallery of Ontario

Stjörnuarkitektinn Frank Gehry er einn þekktasti sonur Toronto og það lá því vel við að fá hann til byggja við eitt af helstu listasöfnum borgarinnar. Afraksturinn er afskaplega þægileg safnabygging sem rúmar nokkrar ólíkar sýningar og auðvitað kaffihús, veitingahús og verslanir. Það er helst nýlistin sem er á boðstólum á AGO.
Art Gallery of Ontario – AGO er opið frá kl. 10 til 17:30 alla daga nema miðvikudaga þegar opið er til 20:30. Lokað á mánudögum. Það kostar 19,5 dollara inn (um 2300 kr.) en borga þarf aukalega fyrir sumar sýningar. Frítt inn fyrir þau yngstu en eldri börn, unglingar og eldri borgarar fá afslátt. Einnig er hægt að kaupa fjölskyldupassa.

Kensington Market

Eitt þekktasti hluti borgarinnar er Kensington markaðurinn, stuttan spöl frá Kínahverfinu. Stemingin hér minnir um margt á Camden markaðinn í London þar sem fókusinn er einnig á notuð föt og mubblur. Hér standa hlið við hlið veitingafólk og kaupmenn sem eiga ættir að rekja til allra heimsins horna. Það er mikið úrval af kaffihúsum, börum og veitingastöðum á milli verslanna.

Vinsælasta safnið

Bygging Royal Ontario Museum setur sterkan svip á Bloor street í norðurhluta miðborgarinnar og því er víða haldið fram að safnið sé eitt af skyldustoppunum í Toronto. Árlega borga rúmlega milljón gestir sig inn á sýningar tengdar risaeðlum, steingervingum og manninum í nútið og fortíð.
– Royal Ontario Museum er opið alla daga frá klukkan tíu að morgni til 17:30 nema föstudaga en þá er opið til 20:30. Það kostar 16 dollara inn (um 1900 krónur) fyrir fullorðna en nemar, börn og eldri borgarar greiða aðeins minna.

Matur og drykkur

Terroni – einfalt og ljómandi gott ítalskt

Það er ekki hægt að kvarta undan pizzunum og pastanu hjá Terroni og það er sennilega ástæðan fyrir því að fjölskyldan rekur nú þrjá staði í Toronto. Pizzurnar eru fjölbreyttar og alls ekki róið á hefðbundin mið (engin Hawaii eða Quattro Staggione) og því hægt að prófa eitthvað alveg nýtt, t.d. pizzu með perum og valhnetum. Og til marks um að Terroni fjölskyldan veit hvað hún er að gera þá er Bolognese sósan borin fram með tagliatelle en ekki spaghetti (þykk sósa fer betur á breytt pasta). Það er mikið að gera hjá Terroni og í hádeginu er skynsamlegt að koma eftir að kontoristarnir hafa lokið sér af. Aðalréttir á 14 til 18 dollara (1650 til 2100 krónur).
Terroni, er við 57a Adelaide St E (Downtown), við 720 Queen street West og 1095 Yonge Street.

Le Selection – franskt bístró

Frakkinn Frédéric Geisweiller hefur staðið vaktina lengi á Le Select bistróinu sínu við 432 Wellingston Street West. Hann vísar fólki til sætis á þessum fallega veitingastað sem hann hefur innréttað í gamalli prentsmiðju. Hádegisseðillinn er það sneisafullur af stórum og smáum klassískum frönskum réttum, t.d. Croque Monsieur (14 dollara) og Confit de Canard (18 dollara). Á kvöldin kostar þriggja rétta máltíð um 50 dollara (5800 kr). Staðurinn er stór en það borgar sig að gera boð á undan sér, sérstaklega á kvöldin og ef þú vilt sitja úti.
Le Select, 49 Frederik Street. Opið alla daga fram á kvöld.

Bar Isabel – ljúfengur snúingur á spænskum tapas

Það er hægt að fá tapas mjög víða en við College Street númer 797 hefur kokknum tekist sérstaklega vel að útbúa þessa þekktu spænsku rétti með skemmtilegum brag. Matseðillinn breytist reglulega en þeir sem vilja borða vel og mikið á óformlegum en fjörugum veitingastað verða ekki sviknir af Bar Isabel. Hér borgar sig að panta borð því staðurinn er mjög vinsæll. Það er aðeins opið á kvöldin hjá Isabel.
Bar Isabel, 797 College Street.

Gladstone og Drake – Kexið í Toronto

Hótel Drake og Gladstone eru nágrannar vestast á hinni rómuðu Queen Street. Bæði róa á svipuð mið og Kex gistiheimili í Reykjavík hvað innréttingar og stemningu varðar. Þeir sem vilja fá sér einfaldar steikur eða skyndibita með skemmtilegu tvisti eru vel í sveit settir á þessum stöðum. Barinn er svo opinn langt framyfir miðnætti.
Gladstone er við 1214 Queen Street W og The Drake er í húsi númer 1150.

Grand Electric Bar – Sennilega langbestu tortillurnar í Toronto

Allra vestast á West Queen West götunni hámar fólk í sig tortillur daginn út og inn enda leit að öðru eins góðgæti. Mjúkar, bragðmiklar og saðsamar en samt er varla hægt að fá nóg. Það er opið í hádeginu og kvöldin og tortilla kostar 3,6 dollara (um 420 krónur).
Grand Electric Bar, 1330 Queen Street West.

Kaffihús

Jimmy´s Coffee, Toronto

Í fjölmennustu borg Kanada eru um fimmtíu Starbucks kaffihús. Jimmy´s Coffee er að finna á tveimur stöðum í borginni, við hinn skemmtilega Kensington Market (191 Baldwin) go 107 Portland Street. Hér er kaffið í hávegum haft og úrvalið af sætabrauði er það gott að það er óþarfi að eyða matarlyst í hollustumuffin hússins. Það er frítt net hjá Jimmy og svo má líka fá lánað hleðslutæki í símann.
Jimmy´s Coffee

Gagnlegt

Til og frá flugvellinum

Rútur Toronto Express keyra á hálftímafresti niður í bæ frá flugvellinum. Farþegarnir eru keyrðir að hótelinu eða á stoppistöð nálægt. Sama gildir um bakaleiðina. Það kostar 40 dollara að kaupa far báðar leiðir ef gist er á hóteli sem er miðsvæðis.

Þjórfé

Þjónustugjald er sjaldan innifalið í reikningnum og heimamenn bæta um 10 til 15 prósent ofan á upphæðina. Sama gildir um leigubíla. Það er líka ágætis regla að skilja eftir 1-3 dollara fyrir herbergisþernuna á hverjum morgni.

Vatnið

Kranavatnið er drekkanlegt en ekki gott á bragðið né sérstaklega heilsusamlegt. Það er því betra að eiga vatn í flösku.

Verslanir

Það er opið í búðum alla daga frá morgni og fram til átta eða níu á kvöldin. Opnunartíminn er oft styttri í sérverslunum.

Almenningssamgöngur

Metrókerfið í borginni takmarkast við ferðalög milli norður og suðurs. Þegar haldið er í hinar áttirnar þarf að taka sporvagna sem keyra jafnt og þétt en það getur verið nokkuð þröngt á þingi, sérstaklega á háannatímum.

Hótel

Hvar er best að gista?

Líkt og víða annars staðar er mikið af hótelum í kringum aðallestarstöðina (Union Station) og þar eru líka nokkrir af aðal íþróttaleikvöngum borgarinnar. Þar er þó fáir ef þeim hlutum sem skemmtilegast er að upplifa í borginni. Þeir sem vilja verja tímanum í hinu líflega West Queen West hverfi ættu t.d. ekki að gista í Downtown.

Með því að nota leitarvélina hér að neðan þá geturðu fundið hagstæð verð á gistingu í Toronto.

Bílaleiga