Vancouver

vancouver yfir d
  • Almennt
  • Sjá og gera
  • Matur og drykkur
  • Gagnlegt
  • Hótel

Almennt

 

Innan um háhýsin í miðborg Vancouver hafa verið lagðir hjólastígar í allar áttir enda er það yfirlýst markmið borgarstjórans að draga úr umferð bíla á svæðinu. Í bílastæðunum standa svo matarvagnar sem servera fjölbreyttan skyndibita til gangandi vegfarenda. Erilinn sem einkennir háhýsahverfi stórborganna er því víðfjarri í Vancouver. Það er kannski helsta ástæðan fyrir því að þessi sex hundruð þúsund manna borg er ávallt í einu af efstu sætunum á lista Economist yfir þær borgir sem best er að búa í.

Fjölbreytt og spennandi úrval á matsölustöðum borgarinnar stelur eiginlega senunni og ómögulegt að gera öllum þessum freistingum góð skil.

Icelandair býður upp á flug til Vancouver allt árið um kring.

Sjá og gera

Granville Island

Því er víða haldið fram að matarmarkaðurinn á Granville eyju sé allra besti í Kanada. Kokkar og metnaðarfullir sælkerar sækja þangað hráefni og túristar geta valið á milli kræsinga á óteljandi matarbásum. Það er því ekki að undra að Granville Island er sá staður í borginni sem laðar til sín flesta ferðamenn. Ferðalagið þangað er líka pínkulítið ævintýri því litlar trillur flytja fólk frá bakkanum við Yaletown og yfir á brygguna við matarmarkaðinn. Skemmtilegra gæti það varla verið.

Vancouver Art Gallery

Í reisulegri byggingu inn á milli glerkastala miðborgarinnar er helsta listasafn Vancouver til húsa. Dagskráin er alla jafna fjölbreytt og oft sýningar sem hafa tengingu við sögu borgarinnar eða svæðanna í kring. Það getur því verið mjög fróðlegt að kíkja inn og gefa sér smástund í heimsókn í þetta fallega safn.
VAG, 750 Hornby Street. 20 dollara fyrir fullorðna en 6 fyrir börn. Opið alla daga frá 10 til klukkan 17 en til 21 á þriðjudagskvöldum.

Stanley Park

Þetta risastóra og sígræna svæði í miðborginni er vel nýtt af íbúunum allan ársins hring en auðvitað mest á sumrin þegar hægt er að leggjast á ströndina og svamla í sjónum. Sjávardýrasafnið Vancouver Aquarium laðar einnig til fjölmarga og er opið alla daga. Stanley Park bíður því upp á smá tilbreytingu frá röltinu um hin stræti Vancouver borgar.

Hengibrúin Capilano

Afhverju ekki að brjóta upp borgarferðina með því að ganga yfir 70 metra háa hengibrú og finna hvernig hún sveiflast hægt og rólega á meðan kíkt er niður í gljúfrið? Brúin á sér forvitnilega sögu sem er gerð góð skil á svæðinu og gestum gefst líka kostur á að ganga á milli trjátoppa og fara út á sérstakan pall sem hangir í bjarginu. Rútuferðir eru í boði hússins frá miðborginni og má reikna með að öll heimsóknin taki a.m.k. 2 tíma.
Capilano, opið frá 9 til 18. 28,75 CAD fyrir fullorðna en minna fyrir börn (sjá hér). Athugið að nýta ykkur skutlþjónustuna.

Matur og drykkur

The Flying Pig

Heimamenn sem vilja ríflega skammta af kanadískum réttum á hóflegu verði skipa sætin á The Flying Pig. Matseðillinn er nokkuð fjölbreyttur og næsta víst að svínasteik hússins, T.F.P. Signature Pork Rack, svíkur engan og veitir góða fyllingu. Aðalréttirnir eru á 20-30 kanadíska dollara (2000-3000 krónur). Það er hægt að panta borð fyrir hádegismat (aðalréttir á um 15 dollara) en á kvöldin verður að mæta á svæðið og vonast til að eitthvað sé laust. Ef svo er ekki þá er stutt í aðra staði því The Flying Pig er að finna við helstu matargötur Yaletown og Gastown. Um helgar er boðið upp á bröns.
The Flying Pig, 1168 Hamilton St. (Yaletown) og 102 Water St. (Gastown).

Rodney´s Oyester House

Það er alltaf stutt í vatnið í Vancouver og því kemur ekki á óvart að sjávarréttir eru áberandi á matseðlum borgarinnar. Rodney’s Oyester House er ljómandi kostur fyrir þá sem vilja smakka á úrvalinu og sérstaklega ostrunum. En piltarnar bak við barborðið segjast opna um 2000 skeljar hver á góðu kvöldi.
Rodney’s Oyester House, 1228 Hamilton St. (Yaletown).

Bacchus – Holtið í Vancouver

Klassískur veitingastaður þar sem þjónustan og maturinn er fyrsta flokks og leikið á píanó undir borðum. Bacchus er á fyrstu hæð Wedgewood hótelsins sem er eitt af betri hótelum borgarinnar. Aðalréttir á þrjú til fjögur þúsund krónur á kvöldin en einnig hægt að fá morgunmat og einnig er opið í hádeginu. Bar hússins er líka vinsæll viðkomustaður þeirra sem vilja setjast inn á stað sem eltist ekki við tískustrauma heldur einbeitir sér að því að bjóða upp á góðar veitingar og þjónustu.
Bacchus, 845 Hornby Street (Downtown).

Granville Island markaðurinn

Því er víða haldið fram að matarmarkaðurinn á Granville eyju sé allra besti í Kanada. Kokkar og metnaðarfullir sælkerar sækja þangað hráefni og túristar geta valið á milli kræsinga á óteljandi matarbásum. Það er því ekki að undra að Granville Island er sá staður í borginni sem laðar til sín flesta ferðamenn. Ferðalagið þangað er líka pínkulítið ævintýri því litlar trillur flytja fólk frá bakkanum við Yaletown og yfir á brygguna við matarmarkaðinn. Skemmtilegra gæti það varla verið. Opið alla daga vikunnar.
Granville Island

L´Abattoir

Útlit þessa veitingahúss er útpælt og í eldhúsinu er mönnum dauðans alvara. Staðurinn hefur fengið mikið lof og er því mjög vinsæll. Hér eins og víðar er lúða einn af aðalréttunum (33 dollara) og í sumarið 2014 verður staðurinn líka opin í hádeginu.
L´Abattoir, 217 Carrall Street.

Kaffihús og skyndibiti

Matartrukkar

Bílastæðin í miðborginni eru mörg hver frátekin fyrir stóra trukka sem servera mat til gangandi vegfarenda. Það er nauðsynlegt að prófa þá nokkra og Túristi getur mælt með Mom´s Grilled Cheese sem oftast heldur til við Vancouver Art Gallery, japönsku pylsurnar hjá Japadog eru áhugaverðar en tacoið hjá Tacofino er frábært, sérstaklega sú með túnfiskinum.

Thierry

Kökur, eftirréttir, kaffi og framúrskarandi samlokur í miðborginni.
Thierry, 1059 Alberni Street (West end).

Nelson the Seagull

Bakarí og kaffihús með níðþungum frönskum hornum og góðu kaffi.
Nelson the Seagull, 315 Carrall Street (Gastown)

Gagnlegt

Samgöngur

Það er auðvelt og ódýrt að taka Canada Line lestina milli flugvallar og miðborgar Vancouver. Ferðin tekur um 25 mínútur og kostar 7,75 dollara (um 800 krónur). Vegalengdir innan borgarinnar eru ekki miklar og hægt að fara langt fótgangandi. Ferjur flytja svo fólk yfir til norðurhlutans og ef þú ert í miðborginni þá þarf að fá far með trillu yfir á Grenville Islands, matarmarkað borgarinnar. Bátarnir ganga jafnt og þétt frá bryggjunum. Metró og strætó eru líka fínir valkostir.

Frítt net

Hótel rukka oft sérstaklega fyrir aðgang að fríu neti. Líkt og svo víða þá eru það kaffihúsin sem helst bjóða upp upp á þráðlaust net án endurgjalds.

Þjórfé

Víðast hvar dugar að bæta tíund við reikninginn en fimmtán prósent er meira í takt við það sem heimamenn gera. Á kaffihúsum og skyndibitastöðum er þjórféið oftast látið í krukkur við kassann. Leigubílstjórar fá líka sína tíund.

Vatn

Kranavatnið er drykkjarhæft.

Hótel

Hér geturðu gert verðsamanburð á hótelum í Vancouver. Leitarvélin býður upp á að flokka möguleikana eftir hverfum og þeir sem vilja hafa stutt í allar áttir ættu að velja „Downtown“. Hins vegar er meiri hverfisstemning í hverfunum sem liggja út frá háhýsunum, t.d. Yaletown og þeir sem vilja vera í hringiðjunni ættu að kanna möguleikana í kringum Gastown.

Bílaleiga