The Flying Pig
Heimamenn sem vilja ríflega skammta af kanadískum réttum á hóflegu verði skipa sætin á The Flying Pig. Matseðillinn er nokkuð fjölbreyttur og næsta víst að svínasteik hússins, T.F.P. Signature Pork Rack, svíkur engan og veitir góða fyllingu. Aðalréttirnir eru á 20-30 kanadíska dollara (2000-3000 krónur). Það er hægt að panta borð fyrir hádegismat (aðalréttir á um 15 dollara) en á kvöldin verður að mæta á svæðið og vonast til að eitthvað sé laust. Ef svo er ekki þá er stutt í aðra staði því The Flying Pig er að finna við helstu matargötur Yaletown og Gastown. Um helgar er boðið upp á bröns.
– The Flying Pig, 1168 Hamilton St. (Yaletown) og 102 Water St. (Gastown).
Rodney´s Oyester House
Það er alltaf stutt í vatnið í Vancouver og því kemur ekki á óvart að sjávarréttir eru áberandi á matseðlum borgarinnar. Rodney’s Oyester House er ljómandi kostur fyrir þá sem vilja smakka á úrvalinu og sérstaklega ostrunum. En piltarnar bak við barborðið segjast opna um 2000 skeljar hver á góðu kvöldi.
– Rodney’s Oyester House, 1228 Hamilton St. (Yaletown).
Bacchus – Holtið í Vancouver
Klassískur veitingastaður þar sem þjónustan og maturinn er fyrsta flokks og leikið á píanó undir borðum. Bacchus er á fyrstu hæð Wedgewood hótelsins sem er eitt af betri hótelum borgarinnar. Aðalréttir á þrjú til fjögur þúsund krónur á kvöldin en einnig hægt að fá morgunmat og einnig er opið í hádeginu. Bar hússins er líka vinsæll viðkomustaður þeirra sem vilja setjast inn á stað sem eltist ekki við tískustrauma heldur einbeitir sér að því að bjóða upp á góðar veitingar og þjónustu.
–Bacchus, 845 Hornby Street (Downtown).
Granville Island markaðurinn
Því er víða haldið fram að matarmarkaðurinn á Granville eyju sé allra besti í Kanada. Kokkar og metnaðarfullir sælkerar sækja þangað hráefni og túristar geta valið á milli kræsinga á óteljandi matarbásum. Það er því ekki að undra að Granville Island er sá staður í borginni sem laðar til sín flesta ferðamenn. Ferðalagið þangað er líka pínkulítið ævintýri því litlar trillur flytja fólk frá bakkanum við Yaletown og yfir á brygguna við matarmarkaðinn. Skemmtilegra gæti það varla verið. Opið alla daga vikunnar.
– Granville Island
L´Abattoir
Útlit þessa veitingahúss er útpælt og í eldhúsinu er mönnum dauðans alvara. Staðurinn hefur fengið mikið lof og er því mjög vinsæll. Hér eins og víðar er lúða einn af aðalréttunum (33 dollara) og í sumarið 2014 verður staðurinn líka opin í hádeginu.
– L´Abattoir, 217 Carrall Street.
Kaffihús og skyndibiti
Matartrukkar
Bílastæðin í miðborginni eru mörg hver frátekin fyrir stóra trukka sem servera mat til gangandi vegfarenda. Það er nauðsynlegt að prófa þá nokkra og Túristi getur mælt með Mom´s Grilled Cheese sem oftast heldur til við Vancouver Art Gallery, japönsku pylsurnar hjá Japadog eru áhugaverðar en tacoið hjá Tacofino er frábært, sérstaklega sú með túnfiskinum.
Thierry
Kökur, eftirréttir, kaffi og framúrskarandi samlokur í miðborginni.
– Thierry, 1059 Alberni Street (West end).
Nelson the Seagull
Bakarí og kaffihús með níðþungum frönskum hornum og góðu kaffi.
– Nelson the Seagull, 315 Carrall Street (Gastown)