Vilja tryggja flugfarþega fyrir gjaldþrotum

Þeir sem setja saman sína eigin utanlandsferð eru mun verr settir ef flugfélög fara í þrot en viðskiptavinir ferðaskrifstofa eru. Í Danmörku gengur illa að jafna stöðu þessara tveggja hópa þrátt fyrir áralangar tilraunir yfirvalda.

 

 

 

Þeir sem setja saman sína eigin utanlandsferð eru mun verr settir ef flugfélög fara í þrot en viðskiptavinir ferðaskrifstofa eru. Í Danmörku gengur illa að jafna stöðu þessara tveggja hópa þrátt fyrir áralangar tilraunir yfirvalda.

Sá sem er á ferðalagi í útlöndum þegar flugfélagið fer í þrot þarf sjálfur að leggja út fyrir nýjum miða til að komast heim. Farþeginn getur síðar gert kröfu í þrotabú félagsins en ef ferðin ófarin er andvirði flugmiðans tapað nema kreditkortafyrirtækið geti afturkallað greiðsluna. Ferðamenn á vegum ferðaskrifstofa eru hins vegar mun betur settir ef rekstur ferðaskrifstofu stöðvast í miðri ferð. Þá á skyldutrygging ferðaskrifstofa að bæta tjón farþeganna og þeim er flogið heim án aukakostnaðar. Í Danmörku hafa stjórnvöld um árabil reynt að bæta stöðu þeirra sem aðeins kaupa flugmiða. Ástæðan er sú að siðustu ár hafa alla vega þrjú stór flugfélög farið í þrot þar í landi og fjölmargir farþegar urðu þá strandaglópar.

Fá flugfélög fylgja reglunum

Farþegar sem kaupa flugmiða með dönskum flugfélögum í dag eiga að hafa möguleika á að bæta sérstakri gjaldþrotatryggingu við pöntunina og er iðgjaldið 20 danskar krónur (rúmar 400 íslenskar). Þeir sem kaupa trygginguna eiga þá rétt á bótum ef rekstrarstöðvun flugfélags setur strik í ferðaplönin. Nýleg könnun á vegum danskra neytendayfirvalda leiddi hins vegar í ljós að aðeins á þriðjungur flugfélaganna þar í landi var með upplýsingar um trygginguna aðgengilegar á heimasíðunni sinni og bauð upp á hana í bókunarferlinu. Það eru sem sagt miklir brestir í kerfinu.

Salan fer til hins opinbera

Nú hafa verið lagðar fram betrumbætur á reglunum og samkvæmt þeim eiga flugfélögin að hætta að innheimta iðgjöldin sjálf og vísa í staðinn á heimasíðu Ábyrgðasjóðs ferðamanna (Rejsegarantifonden). Þar á farþeginn að geta keypt trygginguna í framtíðinni. Talsmaður neytendasamtakanna Tænk í Danmörku segir í viðtali við Politiken að það komi ekki nægjanlega skýrt fram í nýju reglunum hvernig flugfélögin eigi að kynna trygginguna og hún efast því um að staða flugfarþega muni batna. Hún segist hafa kosið þá leið að 5 danskar krónur (um 100 íslenskar) yrðu lagðar ofan á alla flugmiða sem seldir væru frá Danmörku. Þar með væru allir farþegar tryggðir. Sú tillaga hlaut hins vegar ekki hljómgrunn innan nefndarinnar sem vann að nýju reglunum.

Veikir samkeppnisstöðuna

Ef nýja regluverkið verður samþykkt munu öll flugfélög sem fljúga meira en 25 þúsund ferðir frá Danmörku á ári þurfa að upplýsa farþega sína um gjaldþrotatrygginguna. Talsmenn ferðaþjónustunnar í Danmörku benda á að þessi sérdanska leið geti veikt stöðu innlendra flugfélaga því þau erlendu þurfa ekki að bjóða upp á trygginguna. Hvorki Icelandair né WOW air fljúga til að mynda nægjanlega oft til og frá dönskum flugvöllum til að vera skylduð til að hafa trygginguna á boðstólum. Ekkert annað Evrópuland hefur fylgt fordæmi Danmerkur í þessum efnum.

Sérvalin hótel í ódýrari kantinum og í milliverðflokki á vegum Tablet Hotels:

París: MayetThe FiveHotel Thérése London: The RockwellThe Mandeville
Kaupmannahöfn: TwentySevenAlexandra New York: AceSmyth
Barcelona: MarketGranados83 Berlín: KuDamm101Sir F.K. Savigny