Washington

  • Almennt
  • Sjá og gera
  • Matur og drykkur
  • Gagnlegt
  • Hótel

Almennt

Þekktustu kennileiti höfuðborgar Bandaríkjanna koma ósjaldan fyrir í fréttatímum og þeim bregður líka reglulega fyrir í sjónvarpsþáttum og bíómyndum. Hvíta húsið, þinghúsið á Capitol Hill og minnismerki Lincoln eru því skyldustopp ferðamanna í borginni. Og það vill svo ánægjulega til að öll þessu heimsþekktu mannvirki eru í göngufæri hvert við annað. Ferðamenn þurfa því ekki að fara um víðan völl til að sjá með eigin augum borgina sem er svona oft til sýnis í fjölmiðlum.

Annars kostur borgarinnar er sá að aðgangur á þekktustu söfnin er frír og þau eru opin alla daga vikunnar. Safnverðir í Washington fá því ekki leyfi á mánudögum líkt og starfsbræður þeirra víðasta hvar. En þó það sé ókeypis á söfnin þá eru þau ekki af ódýrari gerðinni. Smithsonin söfnin hafa til dæmis á að skipa mörgum af helstu dýrgripum Bandaríkjanna og heimsókn í Náttúrufræðisafnið er upplýsandi fyrir alla aldurshópa. Á Portrait Gallery er að finna málverk af öllum forsetum Bandaríkjanna og þjóðhetjum.

Meðalaldur íbúa í Washington er víst töluvert undir landsmeðaltalinu og margt barnlaust fólk sem lifir og hrærist í stjórnmálalífi borgarinnar. Þetta fólk hefur nægan tíma og pening til að fara út á kvöldin og því blómstra veitingahús borgarinnar. Þar er því hægt að fá frábæran skyndibita og steikur og allt þar á milli.

Icelandair flýgur til Washington nokkrum sinnum í viku allt árið um kring.

Meira um Washington:

Leiðin frá Hvíta húsinu að hamborgarbúllu forsetafrúarinnar

Fjór á fjórtánda stræti

Verslað í Washington

Bæjarins bestu

Sjá og gera

Minnismerkin í National Mall

Í þessum stóra almenningsgarði er meðal annars að finna minnisvarða um nokkra af forsetum Bandaríkjanna, þjóðhetjur eins og Martin Luther King og fallna hermenn. Á miðju túninu er hin 169 metra háa súla sem reist var til heiðurs fyrsta forseta landsins, í vesturhluta garðins er minnismerki Abraham Lincoln og þar á milli er látinna hermanna minnst. Minningu annarra forseta er haldið á lífi suðurhlutanum. Það ræðst af áhuga hversu miklum tíma fólk er til í að verja á svæðinu en það er lágmark að gefa sér klukkutíma og rölta á milli Washington monument og upp að styttunni af Lincoln. Hvergi er rukkað fyrir aðgang.

Þinghúsið (Capitol Hill)

Austast í National Mall garðinum stendur hið tignarlega þinghús, Capitol Hill. Þeir sem vilja ekki láta sér nægja að virða húsið fyrir sér að utan ættu að bóka tíma á heimasíðu þingsins og fá að skoða þetta mikla mannvirki að innan. Túrinn tekur um klukkustund og má mæla með því að fólk taki þann tíma frá til að rölta um húsið undir leiðsögn. Þátttakendur ættu að vera í húsinu um 45 mínútum fyrir bókaðan tíma. Heimsóknin kostar ekkert.
Capitol Hill, opið frá 8:30 til 4:30 alla daga nema sunnudaga. Sjá á korti.

Hvíta húsið

Kannski eru híbýli forseta Bandaríkjanna þekktasta hús í heimi. Til að fá hið klassíska sjónarhorn á húsið þá er best að fara að því beina leið frá Washington Monument. Einnig er hægt að komast að því að framanverðu frá Pennsylvania Avenue (NW) 1600. Það er erfitt að fá leyfi til að kíkja inn í húsið eins og sjá má á heimasíðu Hvíta húsins.
Hvíta húsið, 1600 Pennsylvania Avenue NW. Sjá á korti.

Smithsonian

Ellefu af þeim söfnum sem teljast til Smithsonian liggja í nágrenni við National Mall. Þar á meðal American history museum, Nátturufræðisafnið, Air and space museum og American Art Museum & Portrait Gallery. Aðgangur ókeypis og opið í flestum söfnum Smithsonian frá kl. 10 til 17:30 alla daga ársins nema jóladag.
Smitsonian.

Dýragarðurinn

Í Woodley Park hverfinu er að finna dýragarð Washington þar sem tvö þúsund skepnur búa. Það er auðvelt að komast þangað með metró og það kostar ekkert inn í þennan stóra dýragarð. Heimsóknin tekur tíma og fólki er ráðlagt að verða sér út um kort af svæðinu til að tíminn nýtist sem best.
National Zoo, opnunartímar eru mismunandi eftir árstímum og svæðum (sjá hér)

Matur og drykkur

Kaffihús

Líkt og í öðrum borgum vestanhafs þá hefur Starbucks lagt undir sig markaðinn fyrir kaffi og sætabrauð. Kosturinn við Starbucks er þó sá að þar er boðið upp á frítt netsamband.

Hér er nokkur kaffihús sem hafa lifað af samkeppnina við risan frá Seattle:

Dolcezza (Dupont Circle og Georgetown)

Það er ítalskur ís (galetto) sem aðalmerki þessara staða sem servera líka ljómandi gott kaffi. Kaffibaunirnar eru keyptar af litlum framleiðendum og hér virðist meira lagt upp úr gæðum en heimsyfirráðum.
Dolcezza, 1560 Wisconsin Avenue NW (Georgetown) og 1704 Connecticut Avenue NW (Dupont Circle).

Peregrine espresso (Logan Circle og National Mall)

Veitingamenn vestanhafs sem njóta velgegni láta sér ekki nægja að reka einn stað. Eigandi Peregrine kaffihúsanna er þar engin undantekning. Ekki langt vestur af Capitol Hill þinghúsinu er einn staður og annar við Logan Circle.
Peregrine espresso, 660 Pennsylvania Ave SE (við Eastern Market metró) og 1718 14th St NW (Logan Circle)

Caribou Coffee

Rétt við Hvíta húsið er þessi keðja með útibú. Alls kyns te og fínt kaffi og kruðerí. Sagan segir að hér eigi starfsmenn Obama forseta leynifundi því þannig fundarhöld eru ekki lengur möguleg í Hvíta húsinu því gestabækur forsetans og hans fólks eru opinberar. Netið er frítt á staðnum.
Caribou Coffee, á horni Pennilvania Avenue og 17st NW.

Veitingastaðir

Birch and Barley (Logan Circle)

Bjórtegundir vikunnar ráða hvað er í matinn á þessu veitingahúsi þar sem ölið er í aðalhlutverki. Maturinn á hins vegar ekki síður rétt á því að honum sé hampað og mælir Túristi sérstaklega með heimagerðu kökunum og konfektinu í eftirrétt ($10). Aðalréttir á bilinu 14 til 31 dollara. Staðurinn er á 14 stræti, aðeins fyrir utan háhýsabyggð miðborgarinnar. Á efri hæðinni er barinn Curch Key og þar er líka boðið upp á mikið úrval af bjór og mat.
Birch and Barley, 1337 14th Street NW. Opið þriðjudaga til laugardaga frá 17:30 til 22 eða 23. Bröns á sunnudögum en lokað á mánudögum.

Good Stuff Eatery (Capitol Hill – National Mall)

Einn þekktasti matreiðslumaður borgarinnar stendur að baki þessari hamborgarabúllu sem selur ótrúlega safaríka borgara sem maður efast um að nokkur geti apað eftir fyrir utan Bandaríkin. Það er eitthvað alveg sérstakt við þessar mjúku brauðbollur, stökka beikonið, grillbragðið af kjötinu og ostinn sem flæðir yfir. Þeir sem vilja síður naut geta pantað kalkúnaborgara, t.d. þann sem kenndur er við forsetafrúnna, Michelle. Eftirlæti forsetans er líka að finna á matseðlinum, boli með roquefort osti. Hamborgarinn kostar um 7 dollara (rúmar 900 krónur).
Good Stuff Eatery er við 303 Pennsylvania Avenue, ekki langt frá Capitol Hill. Nýr staður opnar í Georgetown í lok þessa árs (2012).

Boqueria (Dupont Circle)

Líkt og nafnið gefur til kynna þá svífur andi Barcelona yfir þessum tapas stað sem opnaði nýlega útibú í höfuðborginni eftir að hafa slegið í gegn í New York. Spænsku smáréttirnir eru á 5 til 19 dollara (650 til 2500 kr.) og í hádeginu hægt að fá góðar samlokur á 10 til 14 dollara (1300 til 1800 kr.).
Boqueria, 1837 M Street NW.

Bourbon Steak (Georgetown)

Hér segja matgæðingar í hópi heimamanna að steikurnar séu stórkostlegar. Túristi hefur ekki smakkað þær en tekur trúanleg orð sælkeranna sem mæla með þessum fína steikarstað á Four Seasons hótelinu í Georgetown. Þar er líka hægt að fá góðan hamborgara sem kostar 20 dollara (2500 kr.).
Bourbon Steak, 2800 Pennsylvania Avenue NW. Opið 11:30 til 14:30 í hádeginu virka daga og frá 18 á kvöldin (nema mánudaga).

Dean & Deluca (Georgetown)

Matarvörubúð Dean & Deluca er rómuð í New York og verslun þeirra við M Street í Georgetown svíkur engan. Maður bölvar því eiginlega að geta ekki verslað í matinn og farið heim og eldað því úrvalið er frábært. Í búðinni er líka boðið upp á samlokur sem eru smurðar eftir pöntunum og þær má svo borða í garðskála við hlið verslunarinnar. Club samlokan er gómsæt og mjög matarmikil.
Dean&Deluca, 3276 M Street NW. Opið frá 7 til 21 (20 á sunnudögum) alla daga.

Ben´s Chili Bowl (U street metro)

Þennan stað er að finna í öllum ferðabókum um Washington. Ástæðan er Half smoked pylsurnar (pylsa í brauði með chili con carne ofan á) og frægir fastagestir eins og Bill Cosby og Obama forseti (hann hefur reyndar aðeins einu sinni náðst á mynd þar inni). Það er vel þess virði að gera sér ferð á staðinn og borga tæpa 6 dollara fyrir rétt hússins. Afgreiðslufólkið er vinsamlegt og þjónustan hröð. Vegna mikilla vinsælda hafa afkomendur Ben opnað Ben´s next door, sem er eins og gefur að skilja, við hliðina á pylsustaðnum. Þar er aðeins fínna og dýrara bandarískt fæði á boðstólum.
Ben´s Chili Bowl er við 1213 U street NW, er opinn alla daga og lokar aðeins yfir blánóttina.

Florida Avenue Grill

Það er sennilega leit að stað sem jafnast á við þennan í Bandaríkjunum. Innréttingarnar, diskarnir, réttirnir og kannski kokkurinn hafa verið á sínum stað frá árinu 1944 þegar fyrsti gesturinn var afgreiddur. Hér er morgunmatur er á boðstólum allan daginn og er óhætt að mæla með Miss Bertha´s Breakfast. Sá fer létt með að metta meðal Íslendinginn. Skammturinn kostar 10,95 dollara.
Florida Avenue Grill er við 1100 Florida Avenue NW og er opinn alla daga nema mánudaga.

Fyrir bari og fleiri veitingastaði lesið endilega: Fjör á fjórtánda stræti

 

 

Gagnlegt

Til og frá flugvellinum

Ódýrasta leiðin er með strætó 5A sem stoppar við stand 2E utan við flugstöðina. Farið kostar 6 dollara (bílstjórinn gefur ekki tilbaka) og keyrir vagninn á 30 til 40 mínútna fresti. Fyrir þá sem eiga bókaða gistingu miðsvæðis er líklega best að fara úr á L’Enfant metróstöðinni og taka metró á þá stöð sem er næst hótelinu. Ferðin frá Dulles flugvelli og að L´Enfant tekur um þrjú korter.

Washington Flyer rúturnar keyra milli Dulles flugvallar og West Fall Church metróstöðvarinnar, sem er töluvert fyrir utan miðborgina. Önnur leiðin kostar 10 dollara en 18 dollara ef báðar leiðir eru keyptar í einu. Auðveldari kostur er að panta skutl hjá Washington flyer Super shuttle. Í þá bíla komast sjö manns og hægt er að bóka sæti á heimasíðunni fyrir einn eða fleiri og kostar fyrsta sætið frá Dulles á hótel í miðborginni um 30 til 45 dollara og næsta sæti á eftir kostar um þriðjung af því. Par borgar því 40 til 55 dollara. Leigubíll kostar a.m.k. sextíu dollara en það borgar sig að spyrja bílstjórann áður en lagt er í hann hvert fargjaldið er.

Samgöngur innanbæjar

Metrókerfið í Washington er mjög gott og auðvelt í notkun. Hægt er að taka metró út um allan bæ og út í Pentogon Mall kringluna og Old Town Alexandria í Virginíu. Það er því lítið mál að spara sér leigubíla. Metró kemst þó ekki út í Georgetown en þangað gengur strætó.

Þjórfé

Starfsfólk á hótelum og veitingastöðum og leigubílstjórar reikna með að viðskiptavinir bæti tíu til fimmtán prósent ofan á útsöluverðið og gefi í þjórfé. Á hótelum er ágætis regla að láta tvo til fjóra dollara liggja á borði fyrir herbergisþernuna (muna að skrifa miða með svo hún viti að peningurinn sé ætlaður henni).

Hótel

Hér geturðu gert verðsamanburð á gistingu í Washington og pantað hagstæðasta kostinn:

Bílaleiga