Kaffihús
Líkt og í öðrum borgum vestanhafs þá hefur Starbucks lagt undir sig markaðinn fyrir kaffi og sætabrauð. Kosturinn við Starbucks er þó sá að þar er boðið upp á frítt netsamband.
Hér er nokkur kaffihús sem hafa lifað af samkeppnina við risan frá Seattle:
Dolcezza (Dupont Circle og Georgetown)
Það er ítalskur ís (galetto) sem aðalmerki þessara staða sem servera líka ljómandi gott kaffi. Kaffibaunirnar eru keyptar af litlum framleiðendum og hér virðist meira lagt upp úr gæðum en heimsyfirráðum.
– Dolcezza, 1560 Wisconsin Avenue NW (Georgetown) og 1704 Connecticut Avenue NW (Dupont Circle).
Peregrine espresso (Logan Circle og National Mall)
Veitingamenn vestanhafs sem njóta velgegni láta sér ekki nægja að reka einn stað. Eigandi Peregrine kaffihúsanna er þar engin undantekning. Ekki langt vestur af Capitol Hill þinghúsinu er einn staður og annar við Logan Circle.
– Peregrine espresso, 660 Pennsylvania Ave SE (við Eastern Market metró) og 1718 14th St NW (Logan Circle)
Caribou Coffee
Rétt við Hvíta húsið er þessi keðja með útibú. Alls kyns te og fínt kaffi og kruðerí. Sagan segir að hér eigi starfsmenn Obama forseta leynifundi því þannig fundarhöld eru ekki lengur möguleg í Hvíta húsinu því gestabækur forsetans og hans fólks eru opinberar. Netið er frítt á staðnum.
– Caribou Coffee, á horni Pennilvania Avenue og 17st NW.
Veitingastaðir
Birch and Barley (Logan Circle)
Bjórtegundir vikunnar ráða hvað er í matinn á þessu veitingahúsi þar sem ölið er í aðalhlutverki. Maturinn á hins vegar ekki síður rétt á því að honum sé hampað og mælir Túristi sérstaklega með heimagerðu kökunum og konfektinu í eftirrétt ($10). Aðalréttir á bilinu 14 til 31 dollara. Staðurinn er á 14 stræti, aðeins fyrir utan háhýsabyggð miðborgarinnar. Á efri hæðinni er barinn Curch Key og þar er líka boðið upp á mikið úrval af bjór og mat.
– Birch and Barley, 1337 14th Street NW. Opið þriðjudaga til laugardaga frá 17:30 til 22 eða 23. Bröns á sunnudögum en lokað á mánudögum.
Good Stuff Eatery (Capitol Hill – National Mall)
Einn þekktasti matreiðslumaður borgarinnar stendur að baki þessari hamborgarabúllu sem selur ótrúlega safaríka borgara sem maður efast um að nokkur geti apað eftir fyrir utan Bandaríkin. Það er eitthvað alveg sérstakt við þessar mjúku brauðbollur, stökka beikonið, grillbragðið af kjötinu og ostinn sem flæðir yfir. Þeir sem vilja síður naut geta pantað kalkúnaborgara, t.d. þann sem kenndur er við forsetafrúnna, Michelle. Eftirlæti forsetans er líka að finna á matseðlinum, boli með roquefort osti. Hamborgarinn kostar um 7 dollara (rúmar 900 krónur).
–Good Stuff Eatery er við 303 Pennsylvania Avenue, ekki langt frá Capitol Hill. Nýr staður opnar í Georgetown í lok þessa árs (2012).
Boqueria (Dupont Circle)
Líkt og nafnið gefur til kynna þá svífur andi Barcelona yfir þessum tapas stað sem opnaði nýlega útibú í höfuðborginni eftir að hafa slegið í gegn í New York. Spænsku smáréttirnir eru á 5 til 19 dollara (650 til 2500 kr.) og í hádeginu hægt að fá góðar samlokur á 10 til 14 dollara (1300 til 1800 kr.).
– Boqueria, 1837 M Street NW.
Bourbon Steak (Georgetown)
Hér segja matgæðingar í hópi heimamanna að steikurnar séu stórkostlegar. Túristi hefur ekki smakkað þær en tekur trúanleg orð sælkeranna sem mæla með þessum fína steikarstað á Four Seasons hótelinu í Georgetown. Þar er líka hægt að fá góðan hamborgara sem kostar 20 dollara (2500 kr.).
– Bourbon Steak, 2800 Pennsylvania Avenue NW. Opið 11:30 til 14:30 í hádeginu virka daga og frá 18 á kvöldin (nema mánudaga).
Dean & Deluca (Georgetown)
Matarvörubúð Dean & Deluca er rómuð í New York og verslun þeirra við M Street í Georgetown svíkur engan. Maður bölvar því eiginlega að geta ekki verslað í matinn og farið heim og eldað því úrvalið er frábært. Í búðinni er líka boðið upp á samlokur sem eru smurðar eftir pöntunum og þær má svo borða í garðskála við hlið verslunarinnar. Club samlokan er gómsæt og mjög matarmikil.
– Dean&Deluca, 3276 M Street NW. Opið frá 7 til 21 (20 á sunnudögum) alla daga.
Ben´s Chili Bowl (U street metro)
Þennan stað er að finna í öllum ferðabókum um Washington. Ástæðan er Half smoked pylsurnar (pylsa í brauði með chili con carne ofan á) og frægir fastagestir eins og Bill Cosby og Obama forseti (hann hefur reyndar aðeins einu sinni náðst á mynd þar inni). Það er vel þess virði að gera sér ferð á staðinn og borga tæpa 6 dollara fyrir rétt hússins. Afgreiðslufólkið er vinsamlegt og þjónustan hröð. Vegna mikilla vinsælda hafa afkomendur Ben opnað Ben´s next door, sem er eins og gefur að skilja, við hliðina á pylsustaðnum. Þar er aðeins fínna og dýrara bandarískt fæði á boðstólum.
–Ben´s Chili Bowl er við 1213 U street NW, er opinn alla daga og lokar aðeins yfir blánóttina.
Florida Avenue Grill
Það er sennilega leit að stað sem jafnast á við þennan í Bandaríkjunum. Innréttingarnar, diskarnir, réttirnir og kannski kokkurinn hafa verið á sínum stað frá árinu 1944 þegar fyrsti gesturinn var afgreiddur. Hér er morgunmatur er á boðstólum allan daginn og er óhætt að mæla með Miss Bertha´s Breakfast. Sá fer létt með að metta meðal Íslendinginn. Skammturinn kostar 10,95 dollara.
–Florida Avenue Grill er við 1100 Florida Avenue NW og er opinn alla daga nema mánudaga.
Fyrir bari og fleiri veitingastaði lesið endilega: Fjör á fjórtánda stræti