Zurich

Til fjölmennustu borgar Sviss er nú flogið allt árið um kring.

  • Almennt
  • Sjá og gera
  • Matur og drykkur
  • Gagnlegt
  • Hótel

Almennt

Íbúar Zurich fá sér sundsprett í ánum eða vatninu í hádeginu, svala þorstanum í aldargömlum brunnum og hafa útsýni upp til Alpanna. Og hin aldargamla miðborg Zurich hefur varðveist vel og hefur að geyma mörg söguleg mannvirki. Það kemur gestum borgarinnar því ekki á óvart að Zurich toppar reglulega lista yfir þá staði sem best er að búa á. Eini gallinn er kannski verðlagið en það er þó hægt að njóta lífsins í Zurich á ódýran hátt eins og sjá má þegar smellt er á linkana hér fyrir ofan.

Icelandair flýgur allt að fimm sinnum í viku til Zurich frá byrjun maí og fram í lok október og á sunnudögum og fimmtudögum á veturna.

Mynd: © Zürich Tourismus / Gaetan Bally

Sjá og gera

Sigling

Flatarmál Zurich-vatns er álíka mikið og allrar borgarbyggðarinnar. Vatn setur því sterkan svip á Zurich og frá miðborginni er hægt að komast í lengri og styttri siglingar. Verðið á þessum túrum er misjafnt en sá stysti, upp og niður Limmat ána á einum klukkutíma, kostar 4,2 franka (um 530 krónur). Fjögurra tíma sigling um vatnið kostar 25 franka (um 3100 kr.). Á heimasíðu Zurichsee er að finna upplýsingar um ferðir og verð en bátarnir leggja flestir í hann frá Bürkliplatz sem er við enda Bahnhofstrasse, helstu verslunargötu borgarinnar.

Gamli bærinn

Það er lítið mál að verja nokkrum tímum í að rölta eftir hinum þröngu götum sem liggja meðfram bökkum Limmat árinnar. Það skiptir litlu í hvaða átt er gengið því alls staðar verða á vegi manns falleg hús við hlaðin húsasund, götur eða torg. Á svæðinu fyrir neðan háskólann er huggulegur þorpsbragur, börn á leik, gamlar verslanir og litlir matsölustaðir sem hafa ekki tekið breytingum í háa herrans tíð. Hinum megin við ána, í kringum Bahnhofstrasse, hafa rándýrar verslanir komið sér fyrir í litríkum og glæsilegum byggingum. Frá Lindenhof hæðinni (sjá á korti) er gott útsýni yfir gamla bæinn og augnayndið Augustinergasse er skyldustopp. Þarna er nokkrar sögufrægar kirkjur, Grossmünster, Fraumünster (gluggar eftir Chagall) og kirkja Skt. Péturs með sína gríðarstóru klukku.

Söfnin

Úrvalið af söfnum er gott í Zurich. Áhugasamir um sögu borgarinnar og Sviss ættu að kíkja inn í hinn glæsilega kastala sem hýsir Landemuseum, við hliðina á lestarstöðinni. Á Kunsthaus er að finna stórt safn af skúlptúrum eftir Alberto Giacometti og einnig verk eftir marga af fremstu listamönnum síðustu aldar.  Hönnunarsafnið er ekki stórt en þar eru stundum áhugaverðar sýningar og því þess virði að kanna hvað er á boðstólum. Handhafar Zurich kortsins þurfa ekki að borga inn á sum söfn eða fá afslátt.

Sund

Margir kontoristar nota hádegishléið til að fá sér sundsprett í Zurich-vatni eða ánum sem renna um borgina. Íbúarnir segja vatnið vera svo hreint að það sé nánast drykkjarhæft og það er því kjörið fyrir túrista að skella sér út í líka. Það getur nefnilega orðið heitt í Sviss yfir hásumarið og því gott að kæla sig niður inn í miðri borg. Það kostar ekkert að nýta sér aðstöðuna við Lido ströndina á meðan borga þar fyrir aðgang að sérstökum bað- og saunaklúbbum.

Vesturbærinn

Túristar áttu fyrst nýverið erindi í vesturhluta Zurich og heimamenn fóru þangað bara til að vinna. Í dag er keppst um íbúðirnir á svæðinu og þetta gamla iðnaðarhverfi er að verða einn helsti viðkomustaður ferðamanna í borginni. Það er hægt að byrja túrinn um hverfið með því að fara úr sporvagninum við Viadukt lestarbrúnna (tekur um tæpan hálftíma að rölta þangað úr miðbænum). Á götuhæð brúarinnar er um þrjátíu verslanir, vinnustofur og veitingastaðir og við enda hennar er stór matarmarkaður með lífrænum vörum. Síðan er göngunni haldið áfram upp á milli gamalla iðnaðarbygginga og nýlegra mannvirkja. Það er mikið líf á þessu svæði allan sólarhringinn.

 

 

 

 

Matur og drykkur

Zeughauskeller – Sígilt

Á einum þekktasta matsölustað borgarinnar er ekki verið að flækja hlutina því þangað er fólk komið til að borða klassíska svissneska rétti. Valið stendur því á milli alls kyns steiktra kjötsneiða. Sumar þeirra deila diskinum með rjómasveppasósu, aðrar hafa tekið nokkra snúninga í raspi en allar eiga þær það sammerkt að njóta þær sín sérstaklega vel með rösti kartöflum og bjórkrús. Zeughauskeller er stór staður sem gerir töluvert út á ferðamenn og er matseðillinn á 11 tungumálum. Þar sitja líka stórir hópar heimamanna. Aðalréttirnir kosta frá 25,5 frönkum (um 3300 krónur) og húsbjórinn, sem er miklu betri en lagerinn, er á 4,8 franka (um 620 kr.).
Zeughauskeller, Bahnhofstrasse 28a (í Sachsenhausen). Opið frá kl. 11:30 til 23 alla daga.

Die Volkshaus – matur fólksins

Hús alþýðunnar í Zurich er stórt samkomuhús rétt fyrir utan miðborgina. Á matseðillinn er að finna blöndu af réttum frá Sviss og nágrannalöndunum og auðvitað er finna þar Gordon Blue (36 frankar, um 4600 kr.), þessi er þó úr svínakjöti. Hér er líka serveraður bröns (12 til 24 franka) og á kaffihúsinu og barnum er líka boðið upp á heita rétti. Salarkynnin eru mjög flott og það er því tilvalið að koma hér við á göngu um þennan hluta Zurich. Í kjallaranum er glæsilegt spa með hamam.
Volkshaus, Stauffacherstrasse 60 Zürich 4. Opið virka daga frá 8 til miðnættis mánudaga til fimmutudaga. Á föstudögum og laugardögum er opið til kl. 2 á nóttunni.

Restaurant Schipfe 16 – borðað í sólinni á árbakkanum

Það er varla hægt að hugsa sér betri stað til að borða hádegismat. Setið er utandyra á stéttinni við Limmat ánna og þaðan er útsýni yfir gömlu byggðina og út á ánna. Staðurinn er rekinn af borginni og hér vinna atvinnulaus ungmenni. Réttir dagsins (24 franka, um 3100 kr.) eru eldaðir úr því hráefni sem er ferskast hverju sinni.
Restaurant Schipfe 16, Schipfe 16. Opið í hádeginu frá 11:30 til 13:30.

Hitl – Elsti grænmetisstaður í Evrópu

Frá lokum nítjándu aldar hafa íbúar Zurich getað tekið sér pásu frá kjötáti hjá Hitl. Hér hefur grænmetið alltaf verið í aðalhlutverki og staðurinn nýtur mikilla vinsælda. Honum er skipt í tvennt, öðru megin er veitingastaður þar sem aðalréttirnir kosta á bilinu 22 til 25 franka (frá 2800 kr.) og svo bar þar sem gestirnir velja sér mat af hlaðborði. Úrvalið á hlaðborðinu er virkilega gott og diskurinn fyllist fljótt en það er borgað eftir vigt (Fullur diskur kostar álíka og aðalréttur á veitingastaðnum).
Hitl, Sihlstrasse 28.

Les Halles – Költstaðurinn

í vesturhluta borgarinnar standa menn í ströngu við að breyta úr sér gegnu iðnaðarhúsnæði í matsölustaði, verslanir, tónlistarhús og hótel. Les Halles sem matvöruverslun með lífrænan mat en er í dag mjög óhefðbundinn veitingastaður sem mjög gaman er að heimsækja. Réttur dagsins var virkilega fínn þegar Túristi leit við og kostar 23 franka með drykk og kaffi. Það er líka hægt að fá pasta á 15 franka og súpu á átta. Það borgar sig að skoða kortið á heimasíðunni því það er nokkuð erfitt að finna réttu leiðina inn á einn vinsælasta og umtalaðasta veitingastað borgarinnar. Um helgar er glatt á hjalla löngu eftir kvöldmatartíma.
Les Halles, Pfingstweidstrasse 6. Opið frá ellefu til miðnættis en fram á nóttina um helgar.

Viadukt – Léttur matur við leikvöllinn

Neðsta hæð steinbrúarinnar sem skiptir hluta af vesturbæ Zurich í tvennt er hýsir tugi verslana og veitingastaða. Restaurant Viadukt er einn þeirra þar er ljúft að sitja úti á góðum degi. Josefwiese garðurinn er beint fyrir fram og þar er meðal annars að finna leikvöll. Þetta er því kjörinn áningastaður fyrir fjölskyldur á ferð um vesturbæinn. Morgunmatur er í boði til klukkan fimm og kostar minni útgáfan 9,5 franka en sú stærri 14,5 (1200 til 1800 kr.).
Restaurant Viadukt, Viaduktstrasse 69-71. Opið frá kl. 8 til miðnættis virka daga, frá níu á laugardögum og 10 til 18 á sunnudögum.

Kaffihús

Peclard Zurich – Fínni verða þau varla

Þessu fallega kaffihúsi í gamla bænum er skipt upp í þrjá mismunandi sali og tvö útisvæði. Þú getur því valið um að setjast í mjúkan sófa í rauðu rokókóstofunni, á klassískt kaffihús frá fyrri hluta síðustu aldar eða út í fallegan bakgarð. Í boði eru alls kyns léttir réttir, t.d. súpur (11,5 franka) og bökur (6,8 fr.). Með kaffinu má fá sér alls kyns kökur og sætabrauð eða jafnvel morgunmat. Cappuccino kostar 4,9 evrur (um 620 kr.) sem er álíka og á Starbucks rétt hjá. Heimsókn á Peclard kryddar ferðinni klárlega margfalt meira.
Peclard, Napfgasse 4. Opið frá kl. 8 til 18 mán.-mið. en til kl. 23 fim-lau. Á sunnudögum frá kl. 9 til 19.

Odeon – Þar sem þeir stóru sátu

Rithöfundarnir James Joyce og Thomas Mann voru fastagestir á Odeon þann tíma sem þeir vörðu í Zurich en Lenín þótti víst stemningin þar helst til yfirborðsleg og drykkirnir dýrir. Í dag lifir staðurinn soldið á fornri frægð. Það er engu að síður skemmtilegt að kíkja inn á hið aldargamla Odeon og panta sér kaffibolla eða öl.
Odeon, Limmatquai 2. Opið frá snemma morguns og seint fram á kvöld.

 

 

 

Gagnlegt

Samgöngur

Lestarferðin frá flugvellinum og á aðallestarstöð Zurich (Haupbahnhof) tekur um 15 mínútur og kostar 6,6 franka (um 845 kr.). Það borgar sig því alls ekki að taka leigubíl frá flugvellinum heldur gera það frekar fyrir utan lestarstöðina. Haupbahnhof er í gamla bænum og því líklegt að hótelið sé í göngufæri. Einnig ganga sporvagnar í allar áttir en þeir stoppa á víð og dreif í kringum lestarstöðina.

Frítt net

Í Zurich, líkt og víðar, eru Starbucks kaffihúsin heimavöllur ferðamanna sem vilja komast frítt á netið. Það eru þó fleiri kaffihús með þá þjónustu og er það þá oft tekið fram með merkingum við útidyrahurð. Á flugvellinum fá farþegar ókeypis aðgang að neti í klukkutíma.

Þjórfé

Það er óþarfi að eltast við að gefa tíu prósent þjórfé í Sviss en þó í lagi að gefa smá og láta þjóninn þá fá það beint hann rukkar þig í stað þess að skilja pening eftir á borðinu.

Vatn

Zurich búar furða sig á ferðamönnum sem kaupa sér vatn. Um alla borg eru vatnsbrunnar með ljómandi góðu og íssköldu vatni sem er um að gera að nýta sér.

Zurich-kortið

Það borgar sig að kaupa Zurich kortið á flugvellinum ef þú ætlar að taka lest inn í bæ, nota almenningssamgöngur og heimsækja söfn. Kortið sem gildir í þrjár sólarhringa kostar 48 franka (um 6150 kr.) og getur borgað sig því fljótt.Ferðalagið frá flugvellinum er innifalið og því borgar sig að kaupa það strax á flugvellinum. Sjá nánar hér.

Hótel

Það er mjög þægilegt að gista í nágrenni við aðallestarstöðina því þá er ferðalagið til og frá flugvellinum ódýrt og einfalt. Almenningsamgöngur í borginni eru góðar því sporvagnar ganga þar jafnt og þétt og því oftast hægt að komast inn í bæ á skömmum tíma frá hótelum í útjaðri miðborgarinnar.

Notaðu leitarvélina hér fyrir neðan til að finna og bóka hagstæðustu gistinguna í Zurich.

Bílaleiga