Áfram lækka fargjöldin

Sá sem bókar flug til Kaupmannahafnar, Oslóar eða London í dag borgar minna fyrir farið í dag en á sama tíma í fyrra og hittifyrra.

 

 

 

Sá sem bókar flug til Kaupmannahafnar, Oslóar eða London í dag borgar minna fyrir farið í dag en á sama tíma í fyrra og hittifyrra.

Á þessum tíma í fyrra kostaði ódýrasta farið til London eftir fjórar vikur rúmar fjörutíu þúsund krónur. Í dag er hins vegar hægt að fá miða hjá easyJet og WOW air fyrir um þrjátíu og fimm þúsund. Lægsta fargjaldið til Kaupmannahafnar hefur lækkað um rúmar átta þúsund og flugmiðar til höfuðborgar Noregs eru sem fyrr þeir ódýrustu. Eins og sjá má á súluritinu hér fyrir neðan þá hafa fargjöldin lækkað á milli ára hjá öllum flugfélögum.

Janúar líka mun ódýrari en áður

Það hafa líka orðið verðlækkanir á milli ára á farmiðum í fjórðu viku hvers árs. Lægsta fargjald easyJet í þeirri viku á næsta ári er t.a.m. um helmingi lægra en það var á sama tíma fyrir tveimur árum. Farið með íslensku félögunum til London og Kaupmannahafnar er líka mun lægra en það hefur verið síðustu ár eins og sjá má á neðra súluritinu. Þetta er í takt við síðustu kannanir Túrista sem nær allar hafa sýnt verðlækkanir á fargjöldum á milli ára.

Túristi gerir mánaðarlegar verðkannanir á fargjöldum til London, Kaupmannahafnar og Oslóar. Fundin eru lægstu fargjöld, báðar leiðir, hjá hverju félagi fyrri sig. Bókunar-, kreditkorta- og töskugjöldum er bætt við þegar við á. Handfarangursheimild WOW air er hins vegar ekki tekin með í reikninginn.