Ferðalag um freyðandi hluta Frakklands

Kampavínsbændur vonast til að héraðið þeirra verði sett á heimsminjaskrá á næsta ári. Það eru ekki aðeins drykkurinn frægi sem laðar ferðamenn að þessu svæði heldur líka sveitasælan og einstaklega falleg þorp.

Fólki ber ekki saman um uppruna freyðivínsins en í Champagne héraði í Frakklandi er þegjandi samkomulag um að það hafi verið munkurinn Dom Pérignon sem fyrstur manna fann leið til að framleiða vínið sem er kennt við héraðið. Á Dom að hafa opnað fyrstu flöskuna af þessum freyðandi, gyllta vökva, sem framleiddur var samkvæmt hans forskrift, og sagt að nú hefði hann svalað sér á stjörnunum. Hvað sem sannleiksgildi sögunar líður þá er að staðreynd að í dag starfa um fimmtán þúsund vínbændur í héraðinu við framleiðslu á kampavíni sem byggir á aðferðum sem meðal annars munkurinn frægi lagði drög að.

Verðmætar vínekrur

Framlag Dom Pérignon til vínmenningarinnar í Champagne héraði þótti strax svo merkilegt að hann var jarðsettur inni í aðalkirkjunni í bænum Hautvillers þar sem hann bjó og starfaði. Þetta fallega og sjarmerandi pláss er því í dag skyldustopp hjá öllum þeim sem fara um hið rómaða Champagne hérað. Ekki aðeins til að skoða gröf munksins heldur einnig smakka á framleiðslu bæjarbúa en Hautvillers er umkringd vínökrum. Meðal annars í eigu hins fræga kampavínsframleiðanda Moët&Chandon.

Engum sveitarstjórnarmanni í þessum hluta Frakklands dettur í hug að ganga á vínræktarlandið til að stækka byggðina því ein vínekra kostar að minnsta kosti um 250 milljónir króna en engin þeirra mun hins vegar vera til sölu. Byggðin í Hautvillers mun því líklega haldast óbreytt um ókomna framtíð.

Kjallaranir við Kampavínsstræti

Það eru fáir sem opna kampavínsflöskur að tilefnislausu enda kostar flaskan töluvert meira en hefðbundið freyðivín. Flöskurnar sem innihalda besta safann úr verðlaunaárgöngum eru svo virði tugi þúsunda ef ekki meira. Margar þeirra eru geymdar í kjöllurunum við hina glæsilegu L’Avenue de Champagne, Kampavínsstræti, í bænum Épernay. En í slottunum við þessa merkilegu götu er að finna aðalskrifstofur margra þekktra kampavínshúsa. Vegna þess hve mikil verðmæti eru geymd í kjöllurunum er gatan stundum sögð dýrasta stræti Frakklands. Á næsta ári gæti verðmiðinn á götunni hækkað enn frekar því samtök Kampavínsframleiðanda, Comité Champagne, gera sér vonir um að Unesco samþykki umsókn þeirra um að setja götuna og fleiri þekkta staði í héraðinu á heimsminjaskrá. Það yrði stór sigur fyrir samtökin en þó ekkert í líkingu við það þegar fallist var á beiðni þeirra um að aðeins þau freyðivín sem framleidd væru í héraðinu mættu kallast Champagne.

Alla vega ein flaska

Bærinn Épernay er skammt frá Hautvillers og það er því liltið mál að gera þeim báðum góð skil á ferðalagi um héraðið. Champagne liggur reyndar ekki langt frá París, aðeins um 150 kílómetra í austur og því hægt að sameina heimsókn til höfuðborgarinnar með ferðalagi út á þessar frægu vínekrur. Margir þeirra ferðamanna sem gefa sér lengri tíma í héraðinu halda til í borginni Reims og keyra svo þaðan um sveitirnar og koma við á vínekrunum þar sem bændur taka á móti ferðamönnum. Það er þó reiknað með að gestirnir kaupi að minnsta kosti eina flösku.