Fargjöld lækka með fleiri lággjaldaflugfélögum

Norska flugfélagið Norwegian hóf nýlega að fljúga til Bandaríkjanna frá höfuðborgum Skandinavíu og London. Talsmaður fyrirtækisins telur það jákvætt að fleiri norræn lággjaldaflugfélög taki slaginn í fluginu yfir hafið. Forsvarsmenn flugvallarins í Boston taka í svipaðan streng.

 

 

Norska flugfélagið Norwegian hóf nýlega að fljúga til Bandaríkjanna frá höfuðborgum Skandinavíu og London. Talsmaður fyrirtækisins telur það jákvætt að fleiri norræn lággjaldaflugfélög taki slaginn í fluginu yfir hafið. Forsvarsmenn flugvallarins í Boston taka í svipaðan streng.

Hingað til hafa evrópsk lágfargjaldaflugfélög látið sér nægja að flytja farþega innan álfunnar. Á því varð hins vegar breyting á síðasta ári þegar Norwegian hóf að fljúga til fimm bandarískra borga frá Osló, Stokkhólmi, Kaupmannahöfn og Bergen. Í sumar bætti félagið svo við flugi milli Gatwick flugvallar í London og JFK í New York. Í morgun hófst sala á farmiðum með WOW air til Boston og Washington og mun íslenska lágfargjaldaflugfélagið etja kappi við m.a. Norwegian um farþega á leið frá London og Kaupmannahöfn til austurstrandar Bandaríkjanna og öfugt.

Bandaríkjamenn meirihluti farþega

Lasse Sandaker Nielsen, talsmaður Norwegian, segir í samtali við Túrista að það sé fagnaðarefni að fleiri aðilar keppi við hin hefðbundnu flugfélög um farþega á leið yfir hafið. „Það skilar sér í fleiri valmöguleikum fyrir kúnnana og fargjöldin lækka. Lágfargjaldaflugfélögin munu búa til nýjan markað í ferðalögum á lengri flugleiðum líkt og þau hafa gert á styttri leiðum, t.d. innan Evrópu“, segir Lasse Sandaker-Nielsen. Að hans sögn þá hefur flug Norwegian milli Evrópu og Bandaríkjanna fengið góð viðbrögð hjá neytendum og sætanýtingin verið yfir 90 prósent. Á mörgum flugleiðanna eru Bandaríkjamenn meira en helmingur allra farþega norska félagsins.

Norwegian, sem er þriðja stærsta lággjaldaflugfélag Evrópu, notar nýjar Boeing Dreamliner vélar í flugi sínu yfir hafið. Vegna endurtekinna bilanna í þotunum hefur ferðaáætlun félagins oft riðlast og mörg dæmi um langar seinkanir.

Jákvætt að fá lágfargjaldaflugfélag til Boston

Þegar WOW air hefur áætlunarflug til Boston í vor verða í boði fjórar ferðir á dag þangað frá Íslandi. Aðeins Heathrow í London býður upp á betri flugsamgöngur frá Evrópu til borgarinnar líkt og Túristi greindi frá. Icelandair og WOW air verða einu norrænu flugfélögin sem fljúga til Boston. Í svari til Túrista segir Jennifer B. Mehigan, talskona flugvallarins í Boston, að þegar samkeppni á flugleiðum aukist þá komi það farþegum til góða. „Að fá lágfargjaldaflugfélag á þessa flugleið gætu reynst ferðaþjónustunni í Boston og á Íslandi frábær viðbót. Við hlökkum til að sjá hvaða breytingar WOW kemur með á þennan markað“.

Iceland Express flaug á sínum tíma til New York og Boston en félagið var ekki með flugrekstrarleyfi og taldist því ekki vera fullgilt flugfélag.

SÉRVALIN HÓTEL Á VEGUM TABLET HOTELS:

BERLÍN: 15% AFSLÁTTUR Á THE DUDE Í NÓV. KÖBEN: NÓTTIN FRÁ 20 ÞÚSUND Á HOTEL 27 LONDON: ROCKWELL FRÁ 17 ÞÚSUND KR.