Fleiri Íslendingar fóru út í september en í ágúst

Það flugu tæplega fjögur þúsund fleiri íslenskir farþegar frá Keflavíkurflugvelli í september en á sama tíma í fyrra. Fleiri kjósa að ferðast út á haustin.

 

Það flugu tæplega fjögur þúsund fleiri íslenskir farþegar frá Keflavíkurflugvelli í september en á sama tíma í fyrra. Fleiri kjósa að ferðast út á haustin.

Í síðasta mánuði innrituðu 37.410 Íslendingar sig í flug frá Keflavík. Leita þarf aftur til ársins 2005 til að finna septembermánuð þar sem fleiri íslenskir farþegar voru á ferðinni eins og sjá má á grafinu hér fyrir neðan sem byggt er á talningu Ferðamálastofu sem nær aftur til ársins 2002.

Haustið vinnur á annað árið í röð

Í fyrra var október sá mánuður sem flestir Íslendingar fóru til útlanda og var það í fyrsta skipti sem júní, júlí eða ágúst voru ekki aðal ferðamánuðirinn. Vinsældir haustferða Íslendinga til útlanda virðast áfram ætla að aukast því í nýliðnum september fóru fleiri Íslendingar til útlanda en í ágúst. Líkt og Túristi hefur greint frá þá hafa flugfargjöld til London, Kaupmannahafnar og Oslóar lækkað töluvert frá því í fyrra og það kann að vera ein helsta ástæða þess að utanlandsferðum fjölgar. Einnig kann það að hafa áhrif að sífellt fleiri Íslendingar starfa við ferðaþjónustu og sá hópur getur síður tekið löng frí á sumrin. Haustferðirnar verða þá vinsælli.