Harðnandi slagur um farþegana í Kaupmannahöfn

Eftir margra ára vangaveltur hafa stjórnendur írska flugfélagsins Ryanair ákveðið að hefja flug frá Kaupmannahöfn.

 

 

Eftir margra ára vangaveltur hafa stjórnendur írska flugfélagsins Ryanair ákveðið að hefja flug frá Kaupmannahöfn.

Umsvif easyJet og Norwegian á Kaupmannahafnarflugvelli hafa aukist hratt síðustu ár og því hefur lengi verið spáð að Ryanair, stærsta lágfargjaldaflugfélag Evrópu, myndi veita erkifjendum sínum samkeppni í þessari stærstu flughöfn Norðurlanda.

Úr því hefur hins vegar ekki orðið fyrr en í dag. Forsvarsmenn írska félagsins boðuðu í morgun til blaðamannafundar í Kastrup þar sem þeir tilkynntu að í vor myndi Ryanair fljúga beint frá Kaupmannahöfn til minni flugvalla í nágrenni við London, Mílanó og Varsjá. Á sama tíma hættir Ryanair starfsemi hinum megin við sundið, nánar tiltekið á Sturup flugvelli í Malmö.

Ísland á topplistanum

Eins og áður segir ætlar Ryanair að opna starfstöð í Kaupmannahöfn og hafa þar vélar og áhafnir. Samkvæmt tilkynningu verða fjórar þotur félagsins staðsettar í Kaupmannahöfn þegar líður á næsta ár. Ryanair gæti því hafið flug hingað frá Kaupmannahöfn en þann möguleika hefur easyJet ekki því félagið er ekki með danskar áhafnir né vélar.

Á sumrin er flugleiðin til Íslands ávallt ein af þeim vinsælustu meðal farþega í Kastrup og fyrir síðasta sumar fengu forsvarsmenn Norwegian tíma á Keflavíkurflugvelli fyrir flug þangað frá Kaupmannahöfn. Ekkert varð hins vegar úr þeim áætlunum. Kaupmannahöfn er sú borg sem oftast er flogið til frá Keflavík að London undanskilinni.

Ryanair hefur kannað flug hingað

Líkt og Túristi greindi frá þá könnuðu forsvarsmenn Ryanair möguleika á flugi til Keflavíkur og Akureyrar um árið. Erfitt aðflug á Akureyrarflugvelli varð hins vegar til þess að sá kostur var ekki talinn álitlegur og kostnaðurinn í Keflavík þótti of hár.

Aðalskrifstofur Ryanair eru í Dublin en þangað mun WOW air fljúga allt árið um kring frá og með næsta sumri.

NÝJAR GREINAR: Fargjöld lækka áframFerðir Íslendinga til Berlínar stóðu í stað