Icelandair skiptir um heimavöll í Orlandó

Næsta haust snýr Icelandair tilbaka á sinn gamla flugvöll í sólskinsfylkinu Flórída í Bandaríkjunum.

Þegar Icelandair hóf að fljúga til Orlandó árið 1984 var það fyrsta alþjóðaflugfélagið sem bauð upp á áætlunarflug frá Orlando International flugvelli. Árið 2006 flutti Icelandair sig um set yfir á Sanford flugvöll sem er mun minni flughöfn fimmtíu kílómetrum norðar í Orlandó.

Næsta haust færir Icelandair sig á ný yfir á Orlando International flugvöll og mun fljúga þangað fjórum sinnum í viku frá september og fram í sumarbyrjun. Í tilkynningu frá Orlando International er haft eftir Phil Brown, yfirmanni flugmála í Orlandó, að hann fagni því að stjórnendur Icelandair hafi ákveðið að bjóða á ný upp á flug til Orlando International.

Öfugt við Sanford flugvöll er flogið reglulega til borga í Mið- og Suður-Ameríku frá Orlando International. Breytingin hjá Icelandair fjölgar því valkostum farþega félagsins á tengiflugi suður á bóginn.