Lækkandi olíukostnaður kemur fram í fargjöldum

Verð á olíu hefur ekki verið lægra í rúm tvö ár og upplýsingafulltrúi Icelandair segir að eldsneytisgjald félagsins sé reglulega tekið til endurskoðunar. Icelandair tekur í notkun sparneyttari vélar eftir fjögur ár.

Eldsneytisgjald Icelandair ræðst af flugtímanum. Þegar flogið er til Glasgow er gjaldið 9.200 krónur (sjá neðri mynd) en 16.400 kr þegar flogið er til Seattle (sjá efri).

Um árabil hefur eldsneytisálag verið stór hluti af fargjaldinu hjá mörgum flugfélögum.Hjá Icelandair er gjaldið í sumum tilfellum meira en helmingur af allri kaupupphæðinni og um leið langstærsti hluti farmiðaverðsins sem rennur til flugfélagsins eins og sjá má á myndinni hér til hliðar.

Verð á olíu er í dag lægra en það hefur verið síðan um mitt ár 2012 og aðspurður um hvort nú sé tilefni til að lækka eldsneytisálagið segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, að eldsneytisgjaldið sé reglulega tekið til endurskoðunar líkt og annað sem myndar verð á þjónustu Icelandair. Hann segir að ef kostnaður lækki þá komi það fram í fargjöldunum.

Sparneyttari flugfloti innan nokkurra ára

Í fyrra gengu forsvarsmenn Icelandair frá kaupum á nýjum Boeing þotum og verða þær fyrstu afhentar á fyrri helmingi ársins 2018. Þegar tilkynnt var um kaupin kom fram að nýju vélarnar verða um fimmtungi sparneyttari en núverandi flugfloti Icelandair. Nýju og gömlu þoturnar verða notaðar samhliða í framtíðinni en Guðjón segir að engar ákvarðanir hafi verið teknar varðandi þróun eldsneytisgjaldsins með tilliti til endurnýjunar flugflotans.