Tapa um 20 milljónum á dag á flugi út fyrir Evrópu

Af stærstu lágfargjaldaflugfélögum Evrópu er Norwegian það eina sem flýgur til N-Ameríku. Sú viðbót við leiðakerfi félagsins hefur reynst dýrkeypt.

 

 

Af stærstu lágfargjaldaflugfélögum Evrópu er Norwegian það eina sem flýgur til N-Ameríku. Sú viðbót við leiðakerfi félagsins hefur reynst dýrkeypt.

Vöxtur norska flugfélagsins Norwegian hefur verið hraður síðustu ár og félagið er í dag þriðja umsvifamesta lágfargjaldaflugfélagið í Evrópu og annað stærsta flugfélag Norðurlanda.

Á síðasta ári hóf félagið að fljúga til Bandaríkjanna og Bangkok í Taílandi frá höfuðborgum Skandinavíu og nýlega bættist við flug milli London og New York. Áður en þessi útrás Norwegian hófst höfðu forsvarsmenn evrópskra lágfargjaldaflugfélaga látið sér nægja að fljúga með farþega innan álfunnar og í undantekningartilvikum til N-Afríku.

Milljón norskar á dag

Í flug sitt til Bandaríkjanna og Taílands hefur Norwegian notað Boeing Dreamliner þotur, þar á meðal vélar sem FL-Group hafði fest kaup á á sínum tíma. Vélarnar hafa hins vegar bilað oft og reglulega og hefur Boeing meðal annars þurft að kyrrsetja þær í lengri tíma. Norwegian hefur því þurft að leigja vélar og hefur það reynst kostnaðarsamt. Samkvæmt útreikningum danska ferðamiðilsins Check-in.dk hefur Norwegian tapað sem nemur einni norskri milljón á dag á áætlunarfluginu út fyrir Evrópu. Það jafngildir um tuttugu íslenskum milljónum á dag.

Í viðtali við Túrista í fyrra sagði forstjóri félagsins að það krefðist gífurlegs fjármagns að byggja upp nauðsynlegt kerfi til að halda uppi áætlunarflugi milli Bandaríkjanna og Evrópu. Það virðist hafa komið á daginn samkvæmt nýjustu afkomutölum.

Segir fargjöld fara lækkandi

Í síðustu viku tilkynntu forsvarsmenn WOW air að þeir myndu hefja áætlunarflug til Bandaríkjanna á næsta ári. Af því tilefni sagði Lasse Sandaker-Nielsen, talsmaður Norwegian, í samtali við Túrista, að það væri fagnaðarefni að fleiri lágfargjaldaflugfélög keppi við þau hefðbundnu um farþega á leið yfir hafið. „Það skilar sér í fleiri valmöguleikum fyrir kúnnana og fargjöldin lækka. Lágfargjaldaflugfélögin munu búa til nýjan markað í ferðalögum á lengri flugleiðum líkt og þau hafa gert á styttri leiðum, t.d. innan Evrópu“.

Norwegian flýgur hingað til lands frá Osló og Bergen.

SÉRVALIN HÓTEL Á VEGUM TABLET HOTELS:

PARIS: PARADISPARISFRÁ 17ÞÚS KR.KÖBEN: HOTEL 27 – FRÁ 20ÞÚS KR.LONDON: ROCKWELL – FRÁ 17ÞÚS KR. NEW YORK: NIGHT HOTEL – FRÁ 14ÞÚS KR.