Sumaráætlun flugfélaganna gæti endað í lausu lofti

Styrinn um afgreiðslutíma við Flugstöð Leifs Eiríkssonar hefur staðið í 20 mánuði. Bráðlega verða kveðnir upp tveir úrskurðir sem munu annað hvort binda enda á deilan eða framlengja líf hennar.

 

 

Styrinn um afgreiðslutíma við Flugstöð Leifs Eiríkssonar hefur staðið í 20 mánuði. Bráðlega verða kveðnir upp tveir úrskurðir sem munu annað hvort binda enda á deilan eða framlengja líf hennar.

Á hverjum degi taka á bilinu þrjátíu til sextíu flugvélar á loft frá Keflavíkurflugvelli. Bróðurparturinn eru farþegaþotur í áætlunarflugi sem fara héðan á föstum tíma, lenda í útlöndum nokkrum klukkutímum síðar og snúa svo tilbaka. Sérstakir samræmingarstjórar sjá til þess að áætlunin gangi upp miðað við þá afgreiðslutíma sem flugfélögin hafa fengið úthlutaða á flugvöllunum.

Við flestar flughafnir eru sumir dagspartar fullbókaðir og til að mynda hafa ekki verið laus pláss á Heathrow flugvelli í London um langt árabil og hafa afgreiðslutímar þar selst á milljarða króna.

Fékk flýtimeðferð hjá EFTA

Á Keflavíkurflugvelli eru engir lausir tímar fyrir flug til N-Ameríku milli klukkan fjögur og hálfsex seinnipartinn þar sem Icelandair fullnýtir þessi pláss. Í febrúar í fyrra sendu forsvarsmenn WOW air kvörtun til Samkeppniseftirlitsins og sögðu útilokað að veita Icelandair samkeppni í flugi til Bandaríkjanna á öðrum tímum dags. Samkeppniseftirlitið tók undir þessa kvörtun og fór fram á að WOW air fengi tvo af brottfarartímum Icelandair til að geta hafið flug til Bandaríkjanna. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála felldi niður þá ákvörðun þar sem málinu hefði átt að beina að samræmingarstjóranum en ekki Isavia, rekstraraðila Keflavíkurflugvallar. Hæstiréttur hefur nú leitað til EFTA dómstólsins og beðið um álit hans á því hvort samræmingarstjórinn sé bundinn evrópskum reglum eða megi úthluta afgreiðslutímum líkt og Samkeppniseftirlitið fór fram á. Málið er í flýtimeðferð hjá dómstólnum í Lúxemburg og fór málflutningur fram á mánudaginn. Von er á niðurstöðu fljótlega. Ef dómstóllinn kemst að þeirri niðurstöðu að úrræði samkeppnisyfirvalda vegi þyngra en EES reglurnar gæti farið svo að stokka þurfi upp sumardagskrá Icelandair og WOW air. Forsvarsmenn WOW air lýstu í síðustu viku yfir ánægju með þá flugtíma sem félagið er með núna og eru byrjaðir að selja sæti í sínar ferðir. Sumarferðir Icelandair hafa verið í sölu um langt skeið og því ljóst að ferðaplön þúsunda farþega gætu riðlast.

IATA segir núverandi kerfi sanngjarnt

Þær reglur sem gilda um úthlutun afgreiðslutíma á flugvöllum á EES svæðinu byggja á reglugerð IATA, alþjóðasamtaka flugfélaga. Í svari samtakanna til Túrista í vor segir að forsvarsmenn IATA vilji ekki tjá sig um deiluna á Íslandi en taka fram að reglurnar sem gilda um úthlutun afgreiðslutíma séu skýrar og sanngjarnar. Benda þeir á að flugfélög eigi hefðarrétt á afgreiðslutímum en ef nýtingin fari undir 80 prósent þá missi flugfélög viðkomandi tíma og þeim sé úthlutað á ný. Alla vega helmingi þeirra afgreiðslutíma sem er endurhlutað eiga að fara til nýrra flugfélaga. Í svari IATA segir jafnframt að hefðarrétturinn sé undirstaðan í því úthlutunarkerfi sem notað er víða um heim og þar sé einnig tekið fram að ekki megi svipta flugfélag afgreiðslutíma til að hleypa nýjum aðila að.

Á næstunni dögum kemur hins vegar í ljós hvort EFTA dómstóllinn heimili að WOW air fái hluta af þeim tímum sem Icelandair notar í dag.

Þess má geta að einnig er von á úrskurði Samkeppniseftirlitsins í máli vegna úthlutunar á afgreiðslutímum fyrir næsta sumar. Ekki er ljóst hvenær niðurstaðan verður birt.