Tvöfalt fleiri ferðir til Tenerife

Kanaríeyjar bætast brátt við leiðakerfi WOW air og mun félagið bjóða upp á vikuleg flug til Tenerife allt árið um kring. Hingað til hafa aðeins ferðaskrifstofur selt ferðir til spænska eyjaklasans.

 

 

Kanaríeyjar bætast brátt við leiðakerfi WOW air og mun félagið bjóða upp á vikuleg flug til Tenerife allt árið um kring. Hingað til hafa aðeins ferðaskrifstofur selt ferðir til spænska eyjaklasans.

Það er löng hefð fyrir ferðalögum Íslendinga til Kanaríeyja yfir vetrartímann og þá eru í boði leiguflug til Gran Canaria og Tenerife á vegum stærstu ferðaskrifstofa landsins. Á vorin og sumrin sameinast svo Heimsferðir og Úrval-Útsýn um eina vél í viku til Tenerife. Í lok mars ætlar WOW air að hefja áætlunarflug til eyjunnar og verða tvö hundruð sæti í boði í hverri ferð samkvæmt upplýsingum frá flugfélaginu. Með þessari viðbót í lok vetrar tvöfaldast framboð á flugsætum til Tenerife. WOW ætlar að starfrækja flugleiðina allt árið um kring og getur því flogið með ríflega tíu þúsund farþega til Kanaríeyja yfir árið.

Að mestu íslenskir farþegar

Þetta er í fyrsta skipti sem boðið er upp á áætlunarflug héðan til Tenerife og öfugt við flesta aðra áfangastaði flugfélaganna hér á landi þá munu Íslendingar líklega verða langstærsti hluti farþeganna um borð í vélunum til og frá spænsku eyjunni. Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW air, bendir á að spænska borgin Alicante sé sambærilegur áfangastaður og Tenerife að þessu leyti og að flugið þangað gangi mjög vel. „Við seljum mestmegnis af sætunum til Alicante í gegnum vef okkar og reiknum með að gera slíkt hið sama til Tenerife,“ bætir Svanhvít við. Hún segir að einnig verði unnið með ferðaskrifstofum í að bjóða upp á pakkaferðir til Tenerife líkt og til annarra áfangastaða WOW air.

Gæti haft áhrif á fargjöldin

Eins og áður segir þá skipta Heimsferðir og Ferðaskrifstofa Íslands (Úrval-Útsýn, Sumarferðir og Plúsferðir) á milli sín vél Primera Air sem flýgur til Tenerife allt árið. Farþegar Vita fljúga þangað með leiguflugi Icelandair sem stendur fram í byrjun apríl. Stærstu ferðaskrifstofurnar eru með sínar áætlanir í föstum skorðum langt fram á næsta ár. Flug WOW air til Tenerife er því hrein viðbót við núverandi framboð og á næstu misserum kemur í ljós hvaða áhrif það hefur á þróun fargjalda til spænsku eyjunnar.

SÉRVALIN HÓTEL Á VEGUM TABLET HOTELS:

BERLÍN: 15% AFSLÁTTUR Á THE DUDE Í NÓV.KÖBEN: NÓTTIN FRÁ 20 ÞÚSUND Á HOTEL 27LONDON: ROCKWELL FRÁ 17 ÞÚSUND KR.