WOW hefur sölu á flugmiðum til Bandaríkjanna

Í mars mun WOW air hefja flug til tveggja bandarískra borga. Báðar eru íslenskum farþegum kunnar.

Í vor mun WOW air fara jómfrúarferð sín til Bandaríkjanna þegar áætlunarflug félagsins til Logan flugvallar í Boston hefst. Verður flogið þangað alla daga nema laugardaga. Í sumarbyrjun bætist svo Baltimore/Washington flugvöllur við og verður boðið upp á fimm ferðir í viku þangað. Á heimasíðu WOW air kemur fram að lægstu fargjöldin eru 14.999 krónur, aðra leið. Bókunar- og töskugjöld félagsins bætast svo ofan á.

Aukin samkeppni á báða staði

Um langt árabil flaug Icelandair til Baltimore/Washington flugvallar en lagði niður þá flugleið árið 2006. Fimm árum síðar hóf félagið að fljúga til Washington Dulles flugvallar sem er fyrir vestan höfuðborgina og flýgur félagið þangað allt að daglega. Washington Dulles er 43 kílómetrum frá höfuðborginni en Baltimore/Washington er 55 kílómetrum frá.

Icelandair hefur verið eina norræna flugfélagið í Boston og fljúga vélar félagsins allt að 18 sinnum í viku til borgarinnar. Farþegum í Keflavík mun því standa til boða allt að fjórar ferðir á dag til Boston frá og með vorinu.