4614 áætlunarferðir til útlanda

Vetrardagskrá flugfélaganna hófst í vikunni og næstu fimm mánuði verða farnar að jafnaði um þrjátíu ferðir á dag frá Keflavík til flugvalla í Evrópu og N-Ameríku. London er sú borg sem langoftast er flogið til.

 

 

 

Vetrardagskrá flugfélaganna hófst í vikunni og næstu fimm mánuði verða farnar að jafnaði um þrjátíu ferðir á dag frá Keflavík til flugvalla í Evrópu og N-Ameríku. London er sú borg sem langoftast er flogið til.

Það verður pláss fyrir ríflega átta hundruð þúsund farþega í þeim 4614 áætlunarferðum til útlanda sem flugfélögin á Keflavíkurflugvelli eru með á dagskrá sinni frá og með þessari viku og fram í lok mars þegar sumaráætlunin tekur við. Ef flug til landsins er talið með verða ferðirnar til og frá Keflavík því ríflega níu þúsund talsins í vetur.

Flogið verður til 39 erlendra flughafna en í sumum tilfellum er aðeins um ræða örfáar ferðir.

Þrjú félög fljúga til Gatwick

Síðustu ár hefur framboð á ferðum héðan til London meira en tvöfaldast og í vetur verður flogið þangað nærri þúsund sinnum samkvæmt talningu Túrista. Ef vélarnar verða fullskipaðar munu meira en 180 þúsund farþegar fljúga frá Keflavík til flugvallanna við Gatwick, Heathrow og Luton sem allir eru í nágrenni við höfuðborgina. Gatwick er sá flugvöllur sem oftast er flogið til en þangað fljúga easyJet, Icelandair og WOW air allt árið um kring. Kaupmannahöfn og Osló skipa næstu sæti eins og sjá má á listanum hér fyrir neðan sem byggður er á upplýsingum frá Isavia og flugáætlunum flugfélaganna sex sem halda uppi reglulega millilandaflugi frá Keflavík í vetur (smelltu til að sjá hverjir fljúga hvert).

Borgirnar sem oftast verður flogið til í vetur

Sæti Borg Fjöldi brottfara frá Keflavík Vægi áfangastaðar
1. London 987 21,4%
2. Kaupmannahöfn 454 9,8%
3. Osló 391 8,5%
4. New York 238 5,2%
5. París 222 4,8%
6. Stokkhólmur 175 3,8%
7. Boston 162 3,5%
8.-11. Amsterdam 151 3,3%
8.-11. Frankfurt 151 3,3%
8.-11. Manchester 151 3,3%
8.-11. Seattle 151 3,3%
12. Birmingham 144 3,1%
13. Toronto 109 2,4%
14.-15. Glasgow 108 2,3%
14.-15. Washington 108 2,3%
16. Edmonton 105 2,3%
17. Denver 101 2,2%
18. Helsinki 88 1,9%
19. Basel 86 1,9%
20. Genf 86 1,9%
21. Munchen 86 1,9%
22. Edinborg 66 1,4%
23. Orlandó 66 1,4%
24. Bristol 65 1,4%
25. Berlín 63 1,4%