Aldrei áður hafa jafn margir mætt með byssu í flug

Þrátt fyrir að enn séu tæpir tveir mánuðir eftir af árinu þá hafa flugvallarstarfsmenn í Bandaríkjunum nú þegar bætt vafasamt met sem þeir settu í fyrra.

 

 

 

 

Þrátt fyrir að enn séu tæpir tveir mánuðir eftir af árinu þá hafa flugvallarstarfsmenn í Bandaríkjunum nú þegar bætt vafasamt met sem þeir settu í fyrra.

Vopnaleitin á bandarískum flugvöllum stendur svo sannarlega undir nafni því á fyrstu tíu mánuðum ársins fundust 1855 byssur á flugfarþegum í Bandaríkjunum. Að jafnaði eru því ríflega sex skotvopn gerð upptæk á hverjum degi við öryggishliðin vestanhafs og átta af hverjum tíu þeirra eru hlaðin byssukúlum.

Nýtt met

Í fyrra fundust 1813 byssur á flugfarþegum í Bandaríkjunum og fjölgaði þá tilfellunum töluvert frá árinu á undan. Sú þróun heldur áfram því þó tæpir tveir mánuðir séu eftir af þessu ári þá hafa öryggisstarfsmenn á flugvöllum vestanhafs nú þegar bætt metið sem þeir settu í fyrra.

Dallas á toppnum

Vopnaburður flugfarþega er algengastur í þeim fylkjum þar sem byssueign er almenn. Tveir flugvellir í Texas eru til að mynda á listanum yfir þær fimm flughafnir þar sem flestar byssur hafa fundist.

Flugstöðvarnar þar sem flest skotvopn hafa verið gerð upptæk í ár:

Dallas/Fort Worth International (Texas): 104 byssur

Hartsfield-Jackson Atlanta International (Georgía): 90 byssur

Phoenix Sky Harbor International (Arizona): 66 byssur

Houston George Bush Intercontinental (Texas): 62 byssur

Denver International (Colorado): 61 byssa

Fimmti hver handtekinn

Flugfarþegar í Bandaríkjunum eru hins vegar ekki aðeins gripnir með byssur því í ár hafa ríflega þrjú þúsund annars konar vopn fundist í handfarangri flugfarþega í Bandaríkjunum. Í öllum tilfellum eru málin kærð til lögreglu og endar fimmtungur þeirra með handtöku samkvæmt því sem segir á heimasíðu Flugöryggisstofnunnar Bandaríkjanna.