Mikill munur á barnafargjöldum flugfélaganna

Flugfarþegar sem eru orðnir tveggja ára þurfa í sumum tilfellum að borga jafn mikið fyrir flugsætið sitt og fullorðna fólkið. Ungabörn borga líka mismunandi mikið fyrir að sitja í fangi foreldranna.

 

 

 

Flugfarþegar sem eru orðnir tveggja ára þurfa í sumum tilfellum að borga jafn mikið fyrir flugsætið sitt og fullorðna fólkið. Ungabörn borga líka mismunandi mikið fyrir að sitja í fangi foreldranna.

Í bókunarfomum á heimasíðum flugfélaga eru börnum oftast skipt í tvo aldurshópa, tveggja til ellefu ára og hins vegar ungabörn. Sum flugfélög veita þeim sem tilheyra eldri hópnum allt að fimmtungs afslátt af fullorðinsgjaldinu. Það er þó ekki alltaf raunin. Hjá easyJet og WOW air greiða til að mynda börn sem náð hafa tveggja ára aldri venjulegt fargjald. Flugvallargjöld á Keflavíkurflugvelli eru hins vegar um tvöfalt hærri fyrir fullorðna farþega en þá sem eru á aldrinum tveggja til ellefu ára. Hjá WOW air er tekið tillit til þess en heildarfargjaldið hjá easyJet er það sama fyrir fullorðna og börn.

Tösku- og ungbarnagjaldið álíka hátt

Farþegar sem eru yngri en tveggja ára eiga ekki rétt á sérsæti um borð í flugvélum og þurfa því að sitja í fangi samferðamanna sinna. Það verður engu að síður að kaupa farmiða fyrir ungabörnin og það eru tvær mismunandi leiðir sem flugfélögin fara í verðlagningu á farmiðum fyrir þau yngstu. Annað hvort rukka þau um tíund af almennu fargjaldi, að frádregnum sköttum og gjöldum, eða sérstakt ungbarnafargjald. Hjá easyJet og WOW air er þetta gjald 4000 krónur fyrir hvora leið sem er álíka mikið og borga þarf fyrir að innrita farangur hjá þessum flugfélögum. Þeir sem fljúga með Icelandair, Norwegian eða SAS greiða mun lægra ungbarnagjald ef fullorðinsmiðinn er í ódýrari kantinum. Ef hefðbundið fargjald með þessum félögum er hins vegar nálægt áttatíu til hundrað þúsund krónum þá er ungbarnafarmiðinn álíka dýr og hjá easyJet og WOW air.

Sérstök fargjöld fyrir ungt fólk

Flugfélögin SAS og Norwegian fljúga hingað allt árið frá Osló og hjá báðum félögum eru í boði lægri fargjöld fyrir þá sem eru yngri en 26 ára. Þessi hópur greiðir þá fast gjald sem getur verið nokkru ódýrara en fullorðinsmiðarnir. Flugmiði, báðar leiðir, með SAS til Oslóar kostar þá rúmar 25 þúsund krónur en hjá Norwegian greiða tólf til tuttugu og fimm ára um fjórtán þúsund krónur. Hjá norska félaginu þarf auk þess að greiða fyrir farangur. Þetta tilboð Norwegian gildir aðeins fram að áramótum.

Í vetur verða Icelandair, WOW air, easyJet, SAS og Norwegian umsvifamest í flugi til og frá landinu og eins og sjá má þá er margt sem barnafjölskyldur þurfa að taka með í reikninginn þegar bera á saman fargjöld félaganna fimm.