Borgirnar þar sem Íslendingar bóka oftast gistingu á Airbnb

Íslendingar nýta sér ekki aðeins leiguvefinn Airbnb til að koma íbúðunum sínum á framfæri við ferðamenn. Margir panta sér þar líka gistingu fyrir utanlandsferðina.

 

 

Íslendingar nýta sér ekki aðeins leiguvefinn Airbnb til að koma íbúðunum sínum á framfæri við ferðamenn. Margir panta sér þar líka gistingu fyrir utanlandsferðina.

Það er óhætt að fullyrða að vefsíðan Airbnb hafi hrist upp í ferðaþjónustunni hér á landi og út í heimi. Í sumum borgum er meira framboð á gistirými á þessari vefsíðu en stórar hótelkeðjur geta boðið. Hin mikla útbreiðsla Airbnb hefur þó ekki aðeins valdið titringi meðal hótelstjóra því víða hafa íbúar stórborga átt erfitt með að sætta sig við að hefðbundið íbúðarhúsnæði sé orðið að orlofsíbúðum. Í Barcelona hafa borgarbúar til að mynda efnt til mótmæla og krafist þess að settar verðir strangari reglur um útleigu til ferðamanna. Hér á landi skoðar hið opinbera skattskil þeirra sem leigja út á síðum eins og Airbnb.

New York oftast fyrir valinu

Hvað sem þessu líður þá er ljóst að íslenskir ferðalangar nýta sér Airbnb til að finna gistingu í útlöndum. Samkvæmt upplýsingum frá vefsíðunni þá er New York sú borg nýtur mestra vinsælda meðal íslenskra notenda Airbnb. Höfuðborg Frakklands er í öðru sæti og svo koma borgirnar tvær sem oftast er flogið til frá Keflavík. Það er athyglisvert að Barcelona er í fimmta sæti en aðeins er boðið upp á áætlunarflug þangað yfir aðalferðamannatímann. Allar hinar borgirnar á topplistanum eru heilsársáfangastaðir hjá flugfélögunum hér á landi.

Reykjavík vinsæl hér á landi

Eins og sjá má á topplistanum hér fyrir neðan þá er Reykjavík í sjöunda sæti. Það er því greinilegt að vefurinn nýtist líka þeim sem eru á ferðalagi innanlands eða þurfa húsnæði í skamman tíma. Ekki fengust upplýsingar um það hversu margir Íslendingar hafa leigt íbúðir hjá Airbnb en í ljósi vinsælda vefsins má ganga út frá því að stór hópur íslenskra túrista hafi nýtt sér síðuna undanfarin ár.

Hér leigja íslenskir notendur Airbnb sér oftast íbúðir:

1. New York

2. París

3. Kaupmannahöfn

4. London

5. Barcelona

6. Berlín

7. Reykjavík

8. Amsterdam

9. Boston

10. Stokkhólmur

NÝJAR GREINAR: Norðmenn fá norðurljós í vegabréfinGiggs og félagar opna hótel við Old Trafford