EFTA úrskurðar í deilu flugfélaganna í desember

Vega íslensk samkeppnislög þyngra en evrópskar reglur um úthlutun afgreiðslutíma á flugvöllum? Svarið fæst 10. desember.

 

 

 

Vega íslensk samkeppnislög þyngra en evrópskar reglur um úthlutun afgreiðslutíma á flugvöllum? Svarið fæst 10. desember.

Fyrir rúmu ári síðan fór Samkeppniseftirlitið fram á það við Isavia, rekstraraðila Keflavíkurflugvallar, að WOW air fengi tvo af brottfarartímunum sem Icelandair nýtir fyrir flug til Bandaríkjanna. Forsvarsmenn Isavia áfrýjuðu niðurstöðunni og töldu að þeim væri óheimilt að grípa inn í með þeim hætti sem Samkeppniseftirlitið krafðist þar sem úthlutun afgreiðslutíma færi eftir alþjóðlegum reglum.

Síðan þá hefur málið farið fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnsimála, héraðsdóm og Hæstarétt en er núna á borði EFTA-dómstólsins. Verkefni dómstólsins í Lúxemburg er að skera úr um hvort íslenskar samkeppnisreglur eða evrópskar reglur um úthlutun brottfarartíma vegi þyngra. Niðurstaða EFTA-dómstólsins verður kynnt 10. desember.

Mikil áhrif á sumaráætlun næsta árs

Ef EFTA dómstóllinn kemst að þeirri niðurstöðu að evrópskar reglur eigi að víkja fyrir íslenskum samkeppnisreglum þá gæti farið svo að Icelandair yrði að gefa eftir sín pláss til WOW air líkt og Samkeppniseftirlitið fór fram á fyrir ári síðan. Í framhaldinu yrði að breyta að hluta flugáætlun beggja félaga á næsta ári. Niðurstaða EFTA-dómstólsins gæti því haft mikil áhrif á rekstur Icelandair og WOW air.

Segja Ísland ekki getað verið með sérreglur

Í dag er það danskt fyrirtæki sem sér um skipulagningu á afgreiðslutímum á íslenskum flugvöllum. Framkvæmdastjóri þess, Frank Holton, sagði í viðtali við Túrista að tímum sé úthlutað samkvæmt reglum IATA, alþjóðlegra samtaka flugfélaga og Evrópusambandsins. Þar komi meðal annars fram að ekki megi taka afgreiðslutíma af flugfélagi til að hleypa nýjum aðila að. Frank Holton segir að Ísland sé aðili að þessum samningi og samkeppnisyfirvöld í einu landi geti ekki úrskurðað þvert á efni samkomulagsins. Forsvarsmenn IATA eru á svipuðum nótum í svari sínu til Túrista og benda á að flugfélög eigi hefðarrétt á afgreiðslutímum en ef nýtingin fari undir 80 prósent þá missi flugfélög viðkomandi tíma og þeim sé úthlutað á ný. Icelandair fullnýtir í dag sína tíma og ætti samkvæmt þessu ekki að þurfa að gefa eftir sína tíma nema að EFTA dómstóllinn taki undir niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins. Niðurstaðan í því máli verður kynnt í desember.

Talsmenn Icelandair og WOW air hafa ekki viljað tjá sig um málið þegar eftir því hefur verið óskað.