Fáklæddar flugfreyjur syngja sitt síðasta

Lægri aukagjöld, betri flugvellir, meiri þjónustulund og ný heimasíða er meðal þeirra átaka sem forsvarsmenn Ryanair hafa ráðist í síðustu mánuði. Næst á dagskrá er að hætta útgáfu umdeilds dagatals.

 

 

 

Lægri aukagjöld, betri flugvellir, meiri þjónustulund og ný heimasíða er meðal þeirra átaka sem forsvarsmenn Ryanair hafa ráðist í síðustu mánuði. Næst á dagskrá er að hætta útgáfu umdeilds dagatals.

Þetta ár hefur verið ár breytinga hjá Ryanair, stærsta lággjaldaflugfélagi Evrópu. Í ársbyrjun viðurkenndi forstjórinn að þjónusta fyrirtækisins hefði oft á tíðum verið alltof slök og há aukagjöld fæli farþega frá. Hann lofaði bót og betrun og í kjölfarið hafa handfarangursreglurnar verið rýmkaðar, sum viðbótargjöld lækkuð og heimasíðunni umbylt. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa því farþegum félagins fjölgaði verulega í sumar.

Var hugmynd starfsmanna

Nýjasti leikur stjórnenda Rynair í sjarmaherferð sinni er að hætta útgáfu á dagatali fyrirtækisins en það prýða myndir af léttklæddum flugfreyjum. Dagatalið hefur verið selt í góðgerðaskyni en hefur verið umdeilt. Michael O’Leary, forstjóri Ryanair, hefur sagt að hugmyndin hafi upphaflega komið frá starfsmönnum sjálfum og honum hafi þótt þetta sniðug leið. Hann viðurkennir þó að þessi útgáfa passi ekki nýrri ímynd félagsins og mun dagatalið því ekki koma út um áramótin.

Hafa kannað flug til Íslands

Ryanair mun hefja flug frá Kaupmannahöfn á næsta ári en félagið hefur í mörg ár verið orðað við Kastrup. Stjórnendum Ryanair hefur hins vegar þótt verðskráin þar alltof há. Núna hafa þeir hins vegar sætt sig við prísinn en líkt og Túristi greindi frá þá hafa gjöldin á Keflavíkurflugvelli einnig staðið í þeim.