Fara ferðamenn á mis við fréttir af gosmengun?

Það er ekki ólíklegt að margir ferðamenn hér á landi hafi verið með óbragð í munninum síðustu vikur en ekki vitað afhverju. Það er nefnilega ekki hlaupið að því að láta alla vita af gosmengunni sem heimamenn lesa um í fjölmiðlum alla daga.

 

 

Það er ekki ólíklegt að síðustu vikur hafi margir erlendir ferðamenn hér á landi hafi verið með óbragð í munninum og ónot í hálsinum en ekki vitað afhverju. Það er nefnilega ekki hlaupið að því að láta alla túrista vita af gosmenguninni sem heimamenn lesa um í fjölmiðlum alla daga.

Vegna mengunarinnar frá Holuhrauni hefur börnum verið haldið inni, fullorðnir varaðir við að reyna á sig utandyra og fólk með undirliggjandi sjúkdóma er talið finna fyrir einkennum. Á þeim tíma sem þetta ástand hefur varað hafa tugir þúsunda túrista heimsótt Ísland. Það eru hins vegar engar upplýsingar um mengunina og áhrif hennar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar samkvæmt upplýsingum frá Isavia. Um borð í vélum Icelandair hefur lengi tíðkast að benda farþegum á heimasíðuna Safetravel.is og þar verða birtar aðvaranir vegna gosmengunarinnar ef til þess kemur.

Ekki fengust svör frá easyJet og WOW air um hvort og hvernig farþegar félaganna eru upplýstir um gosmengunina.

Biðja fólk um að upplýsa gesti sína

Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri, segir að starfsfólk Ferðamálastofu sendi stöðuskýrslur Almannavarna á ferðaþjónustuaðila og leggi áherslu á að þeir haldi gestum sínum upplýstum. Á vefnum Iceland.is, sem Íslandsstofa heldur úti, er sérstök síða á ensku um gosið í Holhrauni og samkvæmt upplýsingum frá Íslandsstofu skoðuðu 5400 manns þessa undirsíðu síðastliðinn mánuð. Til samanburðar má geta að í október voru hér 66 þúsund erlendir ferðamenn samkvæmt talningu Ferðamálastofu.

SMS frá Almannavörnum

Á gossíðunni á vefnum Iceland.is kemur meðal annars fram að Almannavarnir sendi út viðvaranir með SMS skilaboðum á alla síma innan ákveðins svæðis þegar þörf krefur. Víðir Reynisson hjá Almannavörnum segir að öllu jöfnu séu send SMS á alla síma, bæði innlenda og erlenda, á þeim svæðum þar sem mengunin fari yfir 2600 míkrógrömm. Svo mikil mengun mældist í Reykjavík 16. október. Ókosturinn er hins vegar sá að það tekur langan tíma að senda skilaboð á alla síma í Reykjavík en á þessum árstíma má fullyrða að langstærsti hluti erlendu ferðamannanna gisti á höfuðborgarsvæðinu.

Eins og áður segir hefur Ferðamálastofa beint þeim tilmælum til ferðaþjónustuaðila að þeir upplýsi túrista um gosmengunina. Það má hins vegar búast við að ferðamenn sem gista í orlofsíbúðum og ferðist á eigin vegum fái ekki alltaf upplýsingar sem getur reynst bagalegt fyrir fólk sem er á ferðalagi með börn eða er með sjúkdóma.

Þess má geta að í gær var settur upp upplýsingaskjár á vegum Safetravel.is í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og þar verða birtar aðvaranir frá Almannavörnum.