Farið til Oslóar oftast ódýrast

Mánaðarlega ber Túristi saman fargjöld til höfuðborga Bretlands, Danmerkur og Noregs. Trekk í trekk er farið til til þeirrar norsku það lægsta og oftar en ekki er það lággjaldaflugfélagið Norwegian sem býður ódýrustu farmiðana.

 

 

Mánaðarlega ber Túristi saman fargjöld til höfuðborga Bretlands, Danmerkur og Noregs. Trekk í trekk er farið til þeirrar norsku það lægsta og oftar en ekki er það lággjaldaflugfélagið Norwegian sem býður ódýrustu farmiðana.

Ríflega fjórar af hverjum tíu flugvélum sem munu taka á loft frá Keflavík í vetur eru á leiðinni til flugvallanna við Kaupmannahöfn, London eða Osló eins og sjá má í nýlegri úttekt Túrista. Framboð á flugi til þessara þriggja borga hefur verið mun meira en til annarra áfangastaða um langt skeið. Til London er hægt að komast með easyJet, Icelandair og WOW air, til Oslóar fljúga Icelandair, Norwegian og SAS en aðeins íslensku félögin tvö bjóða upp á áætlunarferðir til Kaupmannahafnar.

Norwegian oftast ódýrast

Frá ársbyrjun 2013 hefur Túristi á fjögurra vikna fresti borið saman fargjöld flugfélaganna til borganna þriggja. Aðferðin er ávallt sú sama, fundin eru lægstu fargjöld hvers flugfélags fyrir sig fjórum og tólf vikum fram í tímann. Í upphafi var allur gangur á því til hvaða borgar var ódýrast að fljúga en í síðustu sextán verðkönnunum hefur farið til Oslóar verið lægra en til Kaupmannahafnar og London. Þetta á bæði við um farmiða sem bókaðir eru fjórum og tólf vikum fyrir brottför. Oft munar litlu á lægsta fargjaldinu til borganna þriggja en mismunurinn getur líka verið verulegur. Í síðustu könnun var ódýrasta farið til London til að mynda um sextíu prósent dýrara en farið til Oslóar.

Lægri aukagjöld

Í ríflega tveimur af hverjum þremur tilfellum er það norska lággjaldaflugfélagið Norwegian sem er með lægsta verðið til Oslóar. Icelandair og SAS bjóða þó stundum lægri fargjöld þangað. Norwegian er lágfargjaldaflugfélag líkt og easyJet og WOW air en ein ástæða þess að oft munar miklu á fargjöldum þess norska og hinna tveggja er sú að farþegar Norwegian borga mun minna fyrir innritaðan farangur. Það kostar um 3.600 krónur að innrita eina tösku, báðar leiðir, hjá félaginu en fyrir þá þjónustu er greitt á bilinu sex til átta þúsund hjá easyJet og 7.998 krónur hjá WOW air.

Í viðtali við Túrista sl. haust sagði forstjóri Norwegian að hann hefði áhuga á að fjölga ferðum til Íslands og í kjölfarið fékk félagið afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli fyrir flug hingað frá Kaupmannahöfn og London. Ekkert hefur hins vegar orðið úr þeim áætlunum ennþá.