Vueling tekur slaginn við WOW í Róm

Flug héðan til höfuðborgar Ítalíu hefur hingað til einskorðast við leiguflug ferðaskrifstofanna á vorin og haustin. Á næsta ári verður staðan hins vegar allt önnur.

 

 

 

Flug héðan til höfuðborgar Ítalíu hefur hingað til einskorðast við leiguflug ferðaskrifstofanna á vorin og haustin. Á næsta ári verður staðan hins vegar allt önnur.

Í haust tilkynntu forsvarsmenn WOW air að félagið myndi fljúga vikulega til Rómar næsta sumar. Þar með bauðst flugfarþegum hér á landi í fyrsta skipti upp á beint áætlunarflug til þessara vinsælu ferðamannaborgar. WOW air verður hins vegar ekki eitt um farþegana á milli Rómar og Íslands því spænska lággjaldaflugfélagið Vueling var að hefja sölu á farmiðum á þessari sömu leið. Vueling mun fljúga næturflug héðan á miðvikudögum og sunnudögum og vélarnar lenda í Róm árla dags.

Ódýrustu fargjöld Vueling á þessari leið eru í dag 14.156 krónur en 20.449 krónur hjá WOW air. Við fargjaldið bætast bókunargjöld og eins rukka bæði félög fyrir innritaðan farangur.

Stórauka umsvif sín hér á landi

Vueling er eitt stærsta lágfargjaldaflugfélag Evrópu og er eigu IAG Group sem á og rekur flugfélögin British Airways og Iberia.

Vueling hóf að fljúga til Íslands frá Barcelona á Spáni sumarið 2013 en aðeins yfir hásumarið. Á næsta ári mun félagið hins vegar hefja vertíðina hér á landi í byrjun maí og fljúga fram í lok október. Vueling ætlar einnig að fljúga hingað yfir jól og páska en þó aðeins frá Barcelona.

Jómfrúarferð félagsins hingað frá Róm verður farin 23. júní en þremur dögum síðar hefst áætlunarflug WOW air til borgarinnar eilífu.