Flugfélögin látin bíða og fá engar upplýsingar

Ekki liggur fyrir hvenær Samkeppniseftirlitið og EFTA dómstóllinn birta úrskurði sína í málum sem snúa að úthlutun afgreiðslutíma við Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

 

 

Ekki liggur fyrir hvenær Samkeppniseftirlitið og EFTA dómstóllinn birta úrskurði sína í málum sem snúa að úthlutun afgreiðslutíma við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Talsmenn íslensku flugfélaganna vilja ekki tjá sig um óvissuástandið.

Fyrir ári síðan fór Samkeppniseftirlitið fram á það við Isavia, rekstraraðila Keflavíkurflugvallar, að WOW air fengi tvo af brottfarartímunum sem Icelandair nýtir fyrir flug til Bandaríkjanna seinnipart dags. Forsvarsmenn Isavia áfrýjuðu niðurstöðunni og töldu að þeim væri óheimilt að grípa inn í með þeim hætti sem Samkeppniseftirlitið krafðist þar sem úthlutun afgreiðslutíma færi eftir alþjóðlegum reglum. Síðan þá hefur málið farið fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnsimála, héraðsdóm og Hæstarétt en er núna á borði EFTA-dómstólsins. Er það hlutverk dómstólsins í Lúxemburg að skera úr um hvort íslensk samkeppnislög vegi þyngra en evrópskar reglur um úthlutun afgreiðslutíma við flughafnir. Ekki fást upplýsingar um það frá dómstólnum hvort niðurstaða verði birt fyrir lok árs eða ekki.

Vilja ekki tjá sig

Ef EFTA dómstóllinn kemst að þeirri niðurstöðu að evrópskar reglur um úthlutun afgreiðslutíma eigi að víkja fyrir íslenskum samkeppnisreglum þá gæti farið svo að Icelandair yrði að gefa eftir sín pláss til WOW air. Forsvarsmenn síðarnefnda félagsins verða þá líklega að breyta sumaráætlun næsta árs eða afþakka tímana og halda sig við núverandi áætlun. En eins og fram hefur komið hafa forsvarsmenn WOW air líst yfir ánægju með flugáætlun sumarsins.

Icelandair yrði jafnframt að breyta tímasetningum á að minnsta kosti tveimur brottförum á dag frá Keflavík og jafn mörgum komutímum.

Upplýsingafulltrúar Icelandair og WOW air vilja ekki svara spurningum Túrista um hvort óvissuástandið sem nú ríkir hafi áhrif á starfsemi félaganna eða hvort þeim þyki biðin eftir úrskurðum orðin of löng.

Samkeppniseftirlitið með nýtt erindi

Málið sem EFTA-dómstóllinn hefur til umfjöllunar snýr að úthlutun afgreiðslutíma fyrir síðasta sumar. Samkeppniseftirlitið hefur hins vegar unnið að nýrri rannsókn varðandi næsta sumar en nú þegar hefur brottfarar- og komutímum fyrir það tímabil verið ráðstafað. Líkt og kom fram í frétt Túrista í sumar þá var ætlunin að birta niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins nú í haust. Það hefur hins vegar ekki gengið eftir og samkvæmt svari frá eftirlitinu þá liggur ekki fyrir ennþá hvenær niðurstaðan verður birt.