Icelandair situr ekki lengur eitt að Edmonton

Hingað til hefur íslenska félagið verið það eina sem flýgur allt árið frá Edmonton í Kanada til Evrópu. Nú ætlar hins vegar eitt stærsta flugfélag heims að blanda sér í slaginn.

 

Hingað til hefur íslenska félagið verið það eina sem flýgur allt árið frá Edmonton í Kanada til Evrópu. Nú ætlar hins vegar eitt stærsta flugfélag heims að blanda sér í slaginn.

Það vakti mikla athygli í Edmonton í Kanada þegar Icelandair hóf að fljúga þangað í byrjun mars. Evrópsk flugfélög höfðu nefnilega ekki sýnt þessari fimmtu fjölmennustu borg Kanada neinn áhuga og eina beina flugið til Evrópu, sem íbúum Edmonton hafði staðið til boða, voru þrjár ferðir í viku til London með Air Canada. Kanadíska flugfélagið hætti hins vegar að fljúga þessa leið yfir háveturinn eftir að Icelandair tilkynnti um komu sína til Alberta fylkis.

Fengu góðar viðtökur

Upphaflega stóð til að flug Icelandair til Edmonton yrði aðeins í boði yfir aðalferðamannatímann en viðtökurnar voru það góðar að stuttu eftir að miðarnir fóru í sölu var ákveðið að starfrækja þessa flugleið allt árið um kring. Þá hafði Túristi það eftir Guðjóni Arngrímssyni, upplýsingafulltrúa Icelandair, að hann minntist þess ekki að félagið hefði áður fjölgað ferðum og lengt tímabil áður en áætlunarflug til áfangastaðar hæfist. Þessi góði árangur Icelandair í Kanada hefur greinilega vakið athygli í fluggeiranum því í vor ætlar KLM, eitt stærsta flugfélag Evrópu, að hefja áætlunarflug milli Amsterdam og Edmonton samkvæmt tilkynningu. Hollenska félagið mun fljúga fjórum sinnum í viku til Edmonton, líkt og Icelandair gerir, en mun notast við nokkru stærri þotur en Icelandair hefur á sínum snærum.

Fleiri ferðir og miklu fleiri ferðamenn

Í ár fjölgaði áfangastöðum Icelandair í Kanada úr tveimur í fjóra og flugu vélar félagsins þangað allt að sextán sinnum í viku sem er meira en tvöfalt fleiri ferðir en í fyrra. Þessi viðbót hefur skilað sér í mikilli aukningu kanadískra ferðamanna hér á landi. Fyrstu tíu mánuðu ársins komu hingað 35 þúsund Kanadabúar sem er fjölgun um nærri tvo þriðju frá sama tíma í fyrra samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Til samanburðar hefur erlendum ferðamönnum á Íslandi fjölgað um nærri fjórðung í ár.