Jólaferðirnar til Kanarí seldust hratt upp

Um hver jól dvelur stór hópur Íslendinga á Kanaríeyjum og í ár hafa ferðirnar þangað rokið út.

 

 

 

Um hver jól dvelur stór hópur Íslendinga á Kanaríeyjum og í ár hafa ferðirnar þangað rokið út.

Það seljast vanalega öll sætin í ferðirnar til Kanarí yfir jólin og á því varð ekki breyting í ár. Guðrún Sigurgeirsdóttir, hjá ferðaskrifstofunni Vita, segir að síðustu lausu sætin í jólaferðina hafi verið bókuð í byrjun september. Í fyrra varð hins vegar fyrst uppselt í nóvember. Það er einnig fullt í ferð Vita til Tenerife yfir jólin.

Margar fjölskyldur

Hjá Úrval-Útsýn eru ennþá nokkur laus sæti í jólaferðina til Tenerife en Kanaríferðin er fullbókuð. Margrét Helgadóttir, framkvæmdastjóri Úrval-Útsýnar, segir mikið um að fjölskyldur eyði jólunum saman í sólinni og að hótelin, sem selja mat með gistingunni, bjóði upp á jóla-og áramótaveislu fyrir gestina sem sé innifalin í pökkunum.

Skandinavar fjölmenna einnig

Íslendingar eru ekki einir um að fjölmenna til Kanarí yfir vetrartímann og ótryggt stjórnmálaástand í Egyptalandi hefur orðið til þess að eftirspurn eftir Kanaríferðum hefur stóraukist hjá frændþjóðum okkar. En vetrarferðir til Egyptalands nutu um langt skeið mikilla vinsælda meðal Skandinava. Um síðustu jól voru fréttir af skorti á gistirými á eyjunum yfir hátíðirnar og voru danskir ferðalangar varaðir við að kaupa flugmiða þangað áður en þeir tryggðu sér gistingu. Ferðaþjónustan í Egyptalandi er hins vegar að rétta úr kútnum og það gæti orðið til þess að verðlag á Kanaríeyjum lækki í nánustu framtíð.