Fljúga hingað frá Frankfurt og Munchen

Framkvæmdastjóri hjá Lufthansa segir félagið vera að koma til móts við óskir viðskiptavina sinna með því að opna tvær nýjar flugleiðir til Íslands.

 

Framkvæmdastjóri hjá Lufthansa segir félagið vera að koma til móts við óskir viðskiptavina sinna með því að opna tvær nýjar flugleiðir til Íslands.

Í byrjun hausts leit út fyrir að Íslandsflug Lufthansa heyrði sögunni til þar sem dótturfélag þess, German Wings, hafði tekið yfir allar ferðir félagsins hingað til lands. Í lok október tilkynntu hins vegar forsvarsmenn félagsins að á næsta ári myndu vélar Lufthansa fljúga til Íslands frá Frankfurt tvisvar sinnum í viku yfir sumarið og nú hefur einnig verið bætt við ferðum hingað frá Munchen. Flogið verður þaðan til Keflavíkur alla laugardaga frá lokum maí og fram í byrjun september.

Lufthansa er mjög umsvifamikið á þessum tveimur stærstu flugvöllum Þýskalands en hefur hingað til aðeins boðið upp á Íslandsferðir frá Dusseldorf, Hamborg og Berlín. En eins og áður segir hefur German Wings tekið þær flugleiðir yfir.

Býður upp á góðar tengingar

Christian Schindler, framkvæmdastjóri hjá Lufthansa, segir í svari til Túrista að það sé mikið ánægjuefni að geta boðið farþegum félagsins á Íslandi upp á beint flug til helstu hafna félagsins í Frankfurt og Munchen. „Þessar nýju flugleiðir eru beint svar við óskum farþega og við höfum tryggt að flugáætlunin bjóða upp á mjög góðar tengingar við bæði leiðakerfi okkar í Evrópu og annars staðar í heiminum.“

Icelandair flýgur til Frankfurt og Munchen allt árið um kring en samkvæmt upplýsingum frá Lufthansa stendur ekki til að fljúga til Íslands yfir vetrarmánuðina.