Norðmenn setja norðurljós í vegabréfin

Það styttist í að allir Norðmenn fari með norðurljós með sér til útlanda. Alla vega þeir sem eru með ósvikna vöru á sér. MEIRA

 

 

Það styttist í að allir Norðmenn fari með norðurljós með sér til útlanda. Alla vega þeir sem eru með ósvikna vöru á sér.

Þó ferðinni sé ekki heitið út fyrir Schengen svæðið þá getur reynst nauðsynlegt fyrir íslenska og líka norska ferðamenn að hafa vegabréfið á sér. Það fara því væntanlega ekki margir til útlanda án passans og brátt fá frændur okkar ný skilríki til að sýna á ferðalagi. Það er teiknistofan Neue sem hannaði þessa nýju passa og hafa þeir fengið töluverða athygli út í heimi. Sérstaklega þykir vel til fundið hjá hönnuðunum að nota norðurljósin til að sýna fram á handhafi vegabréfsins sé norskur ríkisborgari. En norðurljósin sjást aðeins þegar landamæraverðir lýsa vegabréfin upp með útfjólubláu ljósi. Ef norðurljósin láta ekki sjá sig þá er vegabréfið falsað. Að jafnaði fljúga um hundrað og sextíu Norðmenn á dag frá Keflavíkurflugveli og landamæraverðir þar á bæ munu því sjá ófá norðurljós í vinnunni um ókomna framtíð.

Forsvarsmaður Neue sagði samtali við Túrista að um leið og norska passanum hafi verið skilað í endanlegri útfærslu þá myndu þau gjarnan vilja taka að sér endurhönnun á þeim íslenska. Hér fyrir neðan má sjá hvernig nýja norska vegabréfið tekur sig út.