Primera Air selur sín eigin sæti

Þeir sem vilja ferðast á eigin vegum til sólarlanda hafa nú fleiri tækifæri til þess en áður nú þegar Primera Air ætlar að leggja aukna áherslu á sölu farmiða til einstaklinga. Framboð á flugi héðan til Ítalíu eykst töluvert.

 

 

Þeir sem vilja ferðast á eigin vegum til sólarlanda hafa nú fleiri tækifæri til þess en áður nú þegar Primera Air ætlar að leggja aukna áherslu á sölu farmiða til einstaklinga. Framboð á ferðum héðan til Ítalíu eykst töluvert í sumar.

Hingað til hefur nær eingöngu verið hægt að kaupa pakkaferðir héðan til Kanaríeyja, Malaga, Krítar og Mallorca. Á því verður nú breyting þar sem Primera Air ætlar að hefja sölu á flugmiðum til níu áfangastaða í suðurhluta Evrópu og Salzburg í Austurríki. Fram kemur í frétt Viðskiptablaðsins að flogið verði einu sinni til tvisvar í viku á hvern stað.

10 áfangastaðir

Primera Air hefur um langt árabil verið umsvifamikið í leiguflugi frá Íslandi fyrir ferðaskrifstofur en einnig selt á heimasíðu sinni sæti í ferðir til Kaupmannahafnar, Alicante og Billund. Forsvarsmenn Primera Air ætla greinilega að auka þann hluta starfseminnar töluvert á næstunni með því að selja sjálfir flugmiða til Kanarí, Tenerife, Barcelona, Malaga, Palma de Mallorca, Bodrum í Tyrklandi og Chania á grísku eyjunni Krít. Félagið hefur hingað til flogið til flestra þessara áfangastaða í samstarfi við ferðaskrifstofur.

Stóraukið framboð á ferðum til Ítalíu

Einn nýr áfangastaður bætist við úrvalið hjá Primera Air á næsta ári þegar félagið hefur flug til ítölsku borgarinnar Bologna. Þangað hefur ekki verið flogið frá Íslandi síðan Iceland Express hætti starfsemi. Síðustu tvö sumur hefur Mílanó verið eina ítalska borgin sem flogið hefur verið beint til frá Keflavík en í sumar munu hins vegar WOW air og Vueling bjóða upp á áætlunarflug héðan til Rómar. Valkostum íslenskra túrista á ferðum til Ítalíu fjölgar því töluvert á næsta ári.