Ríflega tvöfalt fleiri ferðir til London

Síðustu ár hefur framboð á ferðum milli Keflavíkur og flugvallanna við London aukist hratt. Í febrúar verða farnar að jafnaði 6 ferðir á dag héðan til bresku höfuðborgarinnar.

Síðustu ár hefur framboð á ferðum milli Keflavíkur og flugvallanna við London aukist hratt. Í febrúar verða farnar að jafnaði 6 ferðir á dag héðan til bresku höfuðborgarinnar.

Um langt skeið einskorðaðist flug Icelandair til London við tvær ferðir á dag til Heathrow flugvallar. Í október árið 2012 bætti félagið hins vegar við tveimur vikulegum ferðum til Gatwick og í vetur munu vélar Icelandair fljúga þangað allt að sjö sinnum í viku.

Umsvif breska lágfargjaldaflugfélagsins easyJet hér á landi halda líka áfram að aukast og félagið flýgur nú hingað frá tveimur flugvöllum í nágrenni við London. Frá Luton koma vélar easyJet á hverjum degi en þrisvar í viku frá Gatwick. En síðarnefndi flugvöllurinn hefur verið heimahöfn WOW air í breska höfuðstaðnum allar götur síðan félagið fór sína jómfrúarferð í byrjun sumars 2012.

Í febrúar næstkomandi verða þar af leiðandi farnar allt að 42 ferðir í viku frá Keflavík til London. Á sama tíma árið 2012 voru þær hins vegar tuttugu eins og sjá má línuritinu hér fyrir neðan.

Bretar fjölmenna

Vetrardagskrá flugfélaganna hófst í lok október og verður hún í gildi fram í lok mars. Ef hvert sæti verður skipað í þotunum sem fljúga héðan til London næstu fimm mánuði verður pláss fyrir um 180 þúsund farþega. Icelandair stendur undir 47 prósent af framboðinu, easyJet 28 prósent og WOW air fjórðungi samkvæmt talningu Túrista.

Í febrúar í ár voru hér ríflega 22 þúsund breskir ferðamenn sem er meiri fjöldi en nokkurn annan mánuð í ár samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Eftirspurnin eftir Íslandsferðum frá Bretlandi nær því hámarki á þeim tíma ársins.